Lífeyrissjóðir í fasteignabraski

eftir Gylfi Þór Sigurðsson

Á undanförnum vikum hefur Stundin fjallað um hátt fasteigna- og leiguverð í Reykjavík. Í umfjöllun þeirra hafa þeir ítrekað bent á Gamma sem helsta sökudólginn fyrir kreppunni á íslenskum fasteignamarkaði. Sjóðir Gamma og skyldir sjóðir, eiga vissulega mikið magn af fasteignum sem leigðar eru út bæði til fyrirtækja og einstaklinga. Fjárfesting þessi hefur verið ábótasöm, enda hefur fasteignaverð hækkað mikið á undanförnum misserum og greiðlega gengur að leigja eignirnar út á hagstæðu verði.

Athyglisverðara er þó að skoða hvaðan það fé kemur sem notað er í þessum fjárfestingum. Uppruni fjárins gæti nefnilega verið mikið áhyggjuefni. Það er ellilífeyrinn okkar að nokkru leyti. Því lífeyrissjóðirnir hafa fjárfest gríðarmiklum fjármunum í sjóðum Gamma og skyldum fasteignasjóðum. Staðan er því orðin sú að einstaklingar, og þar á meðal ungt fólk, er óbeint í samkeppni við lífeyrissjóðina um kaup á fasteignum. Einhverjir enda svo á að leigja þessar fasteignir af lífeyrirsjóðunum.

Nú hefur mikið verið rætt og skrifað um hvort íbúar á höfuðborgarsvæðinu séu staddir í fasteignabólu. Meðal annars hefur Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra haldið því fram að víða megi finna augljós einkenni fasteignabólu. Sé það rétt hlýtur að vera eðlilegt að fólk spyrji sig hvort skynsamlegt sé hversu umsvifamiklir lífeyrissjóðirnir eru orðnir á fasteignamarkaði. Greinahöfundur leggur því til að lífeyrissjóðirnir fari að íhuga sölu sína á hlutum í þessum fasteignasjóðum og fjárfesti í staðinn erlendis.
Slíkt gæti meðal annars:

  • Kælt (tímabundið) niður fasteignamarkaðinn og gefið einstaklingum aukið svigrúm til að fjárfesta í fasteignum.
  • Veikt gengi krónunnar, sem þá hefur jákvæðar afleiðingar fyrir erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna, auk þess að  styrkja stöðu útflutningsgreina á Íslandi
  • Minnkað kerfisáhættu lífeyrsjóðana en þeir hljóta að hafa gott af því að taka stöðu á móti íslensku krónunni því þannig vega þeir á móti innlendum fjárfestingum.

Nú hafa Íslendingar lítið val um hvaða lífeyrissjóð þeir greiða í og því síður hvernig þeirri fjárfestingu er varið. Í ljósi þeirrar stöðu er mikilvægt að rætt sé um hvort við teljum eðlilegt að lífeyrissjóðirnir keppi við sjóðsfélaga sína um húsaskjól með þessum hætti. Þegar ungt fólk á erfitt með að safna fyrir innborgun í íbúð, þá er furðulegt að lífeyrissjóðirnir séu að auka við það vandamál. Það hlýtur að minnsta kosti að kveikja á viðvörunarbjöllum ef að lífeyrissjóðirnir stefna séreignarstefnunni í hættu, stefnu sem við höfum lengi verið stolt af.

Gylfi Þór Sigurðsson

Pistlahöfundur

Gylfi Þór er hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands en starfar núna hjá tryggingarfélagi. Áhugamál hans eru félagsstörf, ferðalög og líkamsrækt.