Letjandi grunnskólar?

eftir Jónína Sigurðardóttir

Síðastliðin ár hefur hefur verulega dregið úr kröfum grunnskóla til þess að börn sinni heimavinnu. Þá þróun má að miklu leiti rekja til þrýstings af hálfu foreldra í þessa veru. Þetta hefur augljóslega sína kosti og galla sem þarf að vega og meta.

Ég er foreldri stúlku í 5. bekk í skóla þar sem tekið hefur verið fyrir allt heimanám fyrir utan lestur sem þarf að sinna á hverjum degi. Þegar ég var að alast upp þurfti maður alltaf að sinna heimanámi. Ég velti því fyrir mér hvort slakað hafi verið á kröfum eða hvort tekist hefur að fá börn í dag til þess að afkasta meiru í skólanum.

Skoðun höfundar er sú að heimanám eigi að vera fastur liður í námi barna en passa þurfi að það sé hæfilegt. Við þurfum að kenna börnum að skipuleggja sig og axla ábyrgð. Það er meðal annars hægt að gera með heimanámi auk þess sem við kennum þeim vinnusemi og að maður uppskeri eins og maður sáir.

Margfalt álag að grunnskóla loknum

Eftir að hafa átt samræður við fleiri foreldra virðast margir hverjir vera hlynntir heimanámi barna sinna, en erfitt er að gera auka kröfur til barnanna sem kvarta þá yfir að þurfa að gera meira en aðrir. Þar að auki er erfitt að kenna börnum vinnusemi og enn erfiðara ef það er gert í bræði barna sem stimpla foreldra sína sem ósanngjarna og stranga. Í samtölum við þessa foreldra kom einnig í ljós að misjafnlega auðvelt hefur reynst að fá viðbótarheimanám sé þess óskað.

Þeir sem eru ósammála mér benda á að börn eigi að fá tækifæri til þess að vera börn. Það er þó ekki hægt að líta framhjá því að með uppeldi er tónninn fyrir framtíðinni sleginn. Auðvitað viljum við að börn fái að njóta sín, séu áhyggjulaus og fái að leika sér að vild. En er það staðreyndin í dag?

Vinnuálag foreldra

Óneitanlega hentar þetta fyrirkomulag mörgum foreldrum, sérstaklega þeim sem eru undir miklu álagi og vinna mikið fram eftir og því krafan skiljanleg. Með auknu álagi foreldra fer minni tími í að sinna uppeldi og að aðstoða börn við að sinna skyldum sínum ef einhverjar eru. Ráðast þarf í aðgerðir til þess að bæta stöðu foreldra svo að þeir hafi frekar færi á að sinna börnum sínum. Mikil umræða hefur verið um agaleysi barna og óhóflegan skjátíma sem tengja má beint við minni samveru foreldra og barna í gegnum árin. Foreldrar þurfa að bera ábyrgð á uppeldi barna sinna og er það skylda þeirra að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að gæta hagsmuna þeirra. Heimanám gerir foreldrum auðveldara með að fylgjast með námsframvindu barna sinna sem fá oft litlar sem engar upplýsingar um stöðuna nema í foreldra viðtölum sem haldin eru einu sinni á önn.

Hinn gullni meðalvegur

Öfgar í hvora áttina sem er eru ekki vænlegir til þess að skila árangri. Sama hvort það er að sleppa heimanámi eða að hafa það svo mikið að það verði að streituvaldi í lífi barna. Sem dæmi má nefna þá tel ég að gott væri að fá áætlun yfir það sem á að gera heima í byrjun hverrar viku. Þá væri hægt að setjast niður með barninu og skoða hvernig komandi vika verður. Setja mætti niður skipulag um hvað skuli gera á hverjum degi í samræmi og með tilliti til annara tómstunda. Með því getur barnið fundið sjálft sinn takt og ákveðið hvort það vilji reyna að klára allt á einum degi eða dreifa álaginu jafnt og þétt yfir  vikuna. Með því að setja sér markmið og ná þeim eykst sjálfstraust og sjálfsmynd styrkist.


Jónína Sigurðardóttir

Ritstjórn

Jónína Sigurðardóttir er meistaranemi í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á áhættuhegðun og forvarnir fyrir börn og ungmenni. Hún starfar sem ráðgjafi á velferðarsviði hjá Reykjavíkurborg fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jónína á 11 ára gamla dóttur og hefur mikinn áhuga á velferðarmálum.