Lesið þennan pistil heima!

eftir Björn Már Ólafsson

Auðvelt er að gagnrýna heimanám. Bara að nefna orðið er nóg til þess að kalt vatn renni á milli skinns og hörunds á mörgum foreldrum. Það sama á við um unga fólkið. Sjálfur man ég eftir að hafa setið við eldhúsborðið að bugast við að klára heimadæmi í stærðfræði og mikið reyndi á taugar foreldra minna. Tár, bros og ónotaðir takkaskór sem þurftu að bíða þar til ég var búinn með heimadæmin mín. Þá fyrst mátti ég hlaupa út á fótboltavöll með grátbólgin og saltskotin augu eftir enn eitt heimalærdómsrifrildið við mömmu.

Umræðan sem hefur sprottið upp um heimanám undanfarnar vikur er mikilvæg. En það verður að gera skýran greinarmun á því að gagnrýna heimanám og að banna það. Heimanám getur verið bæði gott og vont. Gagnlegt og gagnslaust. Þolanlegt eða óþolandi. En hugmyndin um að „banna heimanám” eða eins og það er orðað hjá sumum stjórnmálamönnum „afnema heimanám” er ekki góð og erfitt er að sjá hvaða ávinningur ætti að hljótast af því.

Til eru ótal rannsóknir sem sýna fram á gagnsemi heimanáms og svo eru líka til rannsóknir sem sýna fram á takmarkaða eða engin áhrif heimanáms. Hvorugar þessara rannsókna gefa þó tilefni til að alhæfa um að banna eigi heimanám eða að allir ættu að læra heima alltaf. Við eigum að treysta kennurunum, sem hér á landi hafa fimm ára háskólanám að baki, til að meta það í sameiningu við foreldra barna hvort senda eigi börnin heim til sín með heimanám.

Á mbl.is birtist svo í kjölfar umræðunnar áhugavert viðtal við konu sem tók ákvörðun um að láta dóttur sína ekki læra heima. Konan fékk mikið hrós á samfélagsmiðlum og á hún hrósið vissulega skilið. Hún lætur sig árangur dóttur sinnar varða og tekur ákvarðanir sem eru barninu fyrir bestu. Auðvitað eru til börn sem ekki þurfa heimanám og heimanám getur hentað sumum. Á sama tíma þekkja sumir foreldrar einnig þá tilfinningu að börnin þeirra fá ekki nægilega erfiðar áskoranir í náminu sínu og myndu glaðir þiggja meiri heimalærdóm. Öll erum við mismunandi og það eru krakkarnir líka. Ákvörðun um heimanám verður að vera tekin á einstaklingsgrundvelli.

Á Norðurlöndunum hefur í mörg ár reglulega sprottið upp mikil umræða, sérstaklega á vinstri væng stjórnmálanna, hvort réttast sé ekki að afnema heimanám. Eru þar lögð fram rök um að heimanám auki félagslegan ójöfnuð. Aðeins þeir foreldrar sem ekki þurfa að vinna t.d. kvöldvaktavinnu geta aðstoðað börnin. Telja þeir skólann í sjálfu sér félagslegt jöfnunartæki og þegar verið er að velta einhverri af ábyrgðinni á lærdómi nemendanna yfir á heimilin, sé dregið úr jöfnunaráhrifum skólanna. Mér finnst persónulega að með þessu sé verið að setja jöfnunaráhrif fram yfir einstaklingshagsmunina og kristallast kannski hefðbundna hægri-vinstri umræðan einmitt í heimanámi. Mér finnst að aðalmarkmið skólanna ætti að vera að veita hverju og einu barni eins góða þjónustu og hægt er. Ef banna á kennurum að senda börn heim til sín og segja þeim að læra meira er verið að setja jöfnunaráhrif fram yfir tækifæri og metnað hvers og eins barns til að læra sem mest.

Við verðum að spyrja þá sem segjast vilja „afnema heimanám”: Hvað þýðir það? Mega kennarar ekki veita áhugasömum nemendum heimanám? Hvað ef nemendurnir sjálfir óska eftir því? Hvað ef foreldarnir óska eftir því?

Auðvitað vilja fáir banna kennurum að gera slíkt. En það er einmitt kjarninn í umræðunni.  Heimanám á að vera einstaklingsbundið og við eigum að treysta kennurunum fyrir því. Og ef við erum ósátt, þá skulum við ræða við kennarann eða skólayfirvöld. Ekki fara í pólitík og leggja til að banna allt heimanám.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.