Leið Þú Oss Frá Freistni

eftir Friðrik Þór Gunnarsson

Samningar eru úti um allt í okkar daglega lífi og taka ýmis form. Allir samningar byggja á því að gera samvinnu betri/mögulega. Samningar geta skapað traust og samvinnufýsn meðal aðila sem hefðu annars verið tortryggnir og tregir til. Samningar skapa bæði grundvöll til samstarfs með því að greiða úr mögulegum hagsmunaárekstrum, ásamt því að skapa hvatakerfi samningsaðila. Samningafræði hjálpar okkur til þess að skilja hönnun mismunandi samninga. Þau geta einnig hjálpað okkur að nálgast hagkvæmari samningagerð, í því skyni að skapa heilbrigðari grundvöll til samstarfs innan og meðal stofnanna samfélagsins. Eiga fyrirtæki að vera í einka- eða ríkisrekstri? Hvernig á að umbuna starfsmönnum? Fræðin gefa okkur ekki endilega afgerandi niðurstöður, en skapa ramma fyrir heilbrigða umræðu um hvert mál hverju sinni. Það er fyrir þeirra framlag til þessara fræða sem þeir Bengt Holmström og Oliver Hart unnu hagfræðiverðlaun Nóbels þann 10. október síðastliðinn.

Samningaborðið
Í flestum gerðum af samningum höfum við umbjóðanda sem veitir umboðsaðila umboð til þess að framkvæma eitthvað verk. Þetta gæti verið ríkið (umbjóðandi) sem á grunnskóla og ræður kennara (umboðsaðili) til þess að mennta unga borgara. Annað dæmi gæti verið eigendur fyrirtækis (umbjóðendur) sem ráða forstjóra (umboðsaðila) til þess að reka fyrirtækið sitt. Ef heimurinn væri einfaldur væri ávallt hægt að meta viðleitni og hæfni umboðsaðilans til verksins, ásamt því að mæla árangur fullkomlega, og veita umbun í takt við það. Hængurinn er sá að heimurinn er auðvitað ekki einfaldur. Vandkvæðin skapast þegar erfitt/ómögulegt er að mæla bæði árangur og vinnuframlag/hæfni.

Kjarni vandkvæðanna liggur í freistnivandanum (e. moral hazard) og togstreitunni milli tryggingu og hvata aðilanna. Hugsaðu þér tryggingafyrirtæki sem tryggir fólk gegn óhöppum. Ef öll óhöpp væru algjörlega handahófskennd væri einfalt að veita fulla tryggingu. Hinsvegar koma upp vandamál tengd freistnivandanum: Það eru ekki allir jafn varkárir þegar þeir hafa fulla tryggingu, og tryggingarfyrirtækið hefur ekki nægar upplýsingar um þetta fyrirfram. Í ofanálag er mælingarvandi: Ef tryggingarfyrirtækið gæti séð og mælt allt sem við gerum, þá gætu þeir tryggt okkur fullkomlega gegn því sem er raunverulega óhapp, en sleppt því sem er einungis vegna gáleysis. Þetta grundvallarvandamál, sem byggir á því að samningsaðilar hafa ekki ráðstöfun af sömu upplýsingum skýtur upp kollinum í mörgum, ef ekki flestum, öðrum samningsgerðum.

And the Nobel Prize goes to Bengt Holmström…
Framlag Holmströms til fræðanna kristallast í nokkrum dæmum.

  • Ímyndaðu þér skurðlækni. Þú vilt umbuna honum fyrir góð og örugg verk. Hinsvegar er mjög erfitt að vita nákvæmlega hvað skurðlæknirinn er að gera hverju sinni, og það er vandkvæðum háð að byggja umbun á árangri. Ein ástæða er vegna þess að útkoman veltur ekki aðeins á framlagi skurðlæknisins, heldur einnig aðstoðarmanna í skurðastofunni o.s.frv. Þegar árangur/umbun veltur á heildarframlagi hópsins getur skapast svokallaður fríþegavandi, þar sem að hvati skapast fyrir meðlimi hópsins til þess að „húkka far“ á vinnuframlagi annarra meðlima. Ef allir hugsa svona verður árangurinn gjarnan minni. Árið 1981 varpaði Holmström ljósi á það að í þessu tilfelli getur verið mikilvægt fyrir utanaðkomandi aðila að búa til hóp- eða samvinnuhvata.
  • Ímyndaðu þér kennara. Kennarinn á að hámarka menntun nemenda sinna. Hvernig á að umbuna honum? Ef við viljum árangurstengja umbun, hvernig eigum við þá að mæla árangur? Augljósasta leiðin er að binda umbun við niðurstöður úr prófum. Hinsvegar veltur menntun ekki aðeins á prófum, og þetta yrði til þess að skekkja hvatakerfi kennarans. Kennarinn væri kannski líklegri til þess að eyða meira púðri í að kenna nemendunum að leysa prófið, en eyða litlu eða engum tíma í að þjálfa aðra mikilvæga hluti (sem er erfiðara að mæla!), t.d. sköpunargáfu eða sjálfstæða hugsun. Þegar erfitt er að mæla mikilvæga þætti, þá eru föst laun með minni tengingu við árangur líklega betri. Holmström var meðal þeirra sem varpaði ljósi á þetta (e. multi-tasking problem) árið 1991
    Annað nærtækt dæmi er þegar umbun forstjóra er tengt við skammtíma greiðsluflæði: heilbrigði fyrirtækisins til langframa gæti þá fengið minna vægi.
  • Hugsaðu þér forstjóra fyrirtækis. Hann hefur aðeins áhrif á hlutabréfaverð síns fyrirtækis en ekki annarra. Á að tengja umbunina við hlutabréfaverð fyrirtækis hans/hennar eingöngu? Nei. Ástæðan er sú að hlutabréfaverðið tekur einnig til greina aðra þætti, sem forstjórinn hefur ekki áhrif á. Ef forstjóranum yrði umbunað fyrir hlutabréfaverð síns fyrirtækis eingöngu er hætta á því að honum yrði umbunað fyrir heppni og refsað fyrir óheppni. Í þessu tilfelli væri betra að umbuna forstjóranum fyrir hlutabréfaverðið með tilliti til hlutabréfaverðs sambærilegra fyrirtækja. Það gefur kannski betri mynd af raunverulegu framlagi forstjórans. Meginpunkturinn hér er upplýsingarlögmálið (e. informativeness principle): Samningar eiga að taka tillit til allra upplýsinga sem eru upplýsandi fyrir verkið sem verið er að reyna skapa hvata fyrir.
  • Víkjum nú aftur að skurðlækninum okkar. Hann þarf að íhuga umbun sína í dag, en þarf kannski einnig að huga að ferli sínum til lengri tíma. Þetta gæti leitt til þess að læknirinn eyði tíma og aðföngum spítalans í hluti sem skipta meira máli fyrir hans eigin feril til lengri tíma en fyrir verkið sem hann þarf að vinna núna. Holmström ofl. vörpuðu ljósi á þessa starfsferilshagsmuni (e. career-concerns) árið 1982  og hefur verið notað til þess að greina allskonar hegðun, t.d. samband stjórnmálamanna við kjósendur.

Þetta varpar aðeins örlitlu ljósi á fræðilegt notagildi framlags Holmström, sem má með sanni segja að er algjörlega til grundvallar í þessum fræðum í dag. Ítarlegri hugmyndir (t.d. the revelation principle) eru utan gildissviðs þessa pistils, en ég mæli eindregið með því að kynna sér þessi fræði til hlítar.

And Oliver Hart!
Megininntak framlags Harts er að einhverju leyti flóknara og erfiðara að útskýra á einfaldan máta. Í stuttu máli snýr það að því þegar samningsaðilar geta ekki búið til nákvæm samningsákvæði um hluti sem velta á framtíðinni; t.d. ófyrirséðir atburðir. Markmiðið verður þá að búa til sem besta upphafssamninginn. Þetta má kalla „ófullkomin-samningagerð“ (e. incomplete-contract theory).

Grunnhugmyndin er sú að ef samningur getur ekki tilgreint nákvæmlega hvað á að gera í framtíðinni, þá þarf hann a.m.k. að tilgreina hver hefur réttinn til þess að ákveða hvað er gert þegar samningsaðilarnir geta ekki verið sammála. Aðilinn sem hefur þennan rétt mun hafa sterkari samningsstöðu og þ.a.l. sterkari hvata til þess að viðhalda, eða auka, virði þess sem samið er um, t.d. einhverjar eignir. Í flóknum samningsaðstæðum getur þessi „ákvörðunarréttur“ (e. residual control rights) verið mikilvægur. Hart og Moore (1990) notuðu þessa hugmynd til þess að komast að þeirri niðurstöðu að þegar mismunandi eignir styðja hvort annað í framleiðslu einhvers fyrirtækis er hagkvæmast fyrir fyrirtækið að eiga allar þær eignir, en ekki að eignarhaldið sé dreift.

Önnur dæmi má sjá í gerð fjárhagslegra samninga. Kenningarnar geta t.d. útskýrt hvers vegna bankar krefjast oft veðs þegar þeir lána. Einnig er hægt að nota hugmyndirnar til þess að skoða sambandið milli frumkvöðla og fjárfesta þeirra: Frumkvöðlar ættu gjarnan að fá að taka flestallar ákvarðanir innan fyrirtækisins á meðan að árangur er góður. Þegar árangur versnar ættu fjárfestar að fá meiri ákvörðunarrétt.

Einnig er hægt að varpa einhverju ljósi á hina eilífu baráttu um hvort rekstur eigi að vera hjá ríkinu eða einkaaðilum. Stjórnendur einkafyrirtækja hafa gjarnan sterkari hvata bæði til þess að auka gæði og lækka kostnað. Hinsvegar fundu Hart o.fl. (1997) að hvatinn til þess að lágmarka kostnað er gjarnan of sterkur, og notuðu þeir þessar hugmyndir til þess að lýsa hvers vegna ríki eiga að vera með fangelsisrekstur en ekki sorphirðu. Hvort hlutir eigi að vera í einka- eða ríkisrekstri gæti þannig byggst á fórnarskiptum milli gæða og kostnaðar, skv. vinnu Harts.

„Incentives Matter“
Nú þegar miklar og heitar deilur geysa í þjóðfélaginu um grunnstoðir samfélagsins alls, þá er mín von að fólk kunni að meta framlag fræðimanna eins og Hart og Holmström. Það er fyrir tilstilli þeirra og annarra fræðimanna að við getum kafað dýpra og skapað betur skilgreindann leikvöll fyrir deilur okkar og gildismat um hvernig samfélagi við viljum búa í. Í kjarna alls þessa má þó sjá glytta í eitt sannleikskorn sem stendur upp úr sem viti í hafi: Hvatar skipta máli.

 

Friðrik Þór Gunnarsson

Pistlahöfundur

Friðrik Þór er hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann er víðförull og hefur búið bæði í Bandaríkjunum og London. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi Vöku fls. og var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík frá 2017 til 2018.