Leggjum spilin á borðið

eftir Friðrik Þór Gunnarsson

Málefni nokkuð hefur verið í deiglunni af og til síðustu áratugi. Sjaldan skapar það samt meira en hverfula bræði virkra í athugasemdum og forræðishyggjumanna um land allt. Málefnið verðskuldar þó heilbrigðari umræðu. Meira en tilfinningalega hlaðið fram-og-til-baka á milli þeirra sem vilja banna allt, og þeirra sem vilja leyfa allt. Málið sem um ræðir er lögleiðing fjárhættuspila.

Í mörgum tilfellum verður þessi pistill hreinlega óþarfi. Margir sjá veröldina í svörtu og hvítu. Fjárhættuspil eru annaðhvort jákvæð eða stórhættuleg, allar upplýsingar eru síðan túlkaðar í gegnum gleraugu staðfestingarhlutdrægni.  Það er hinsvegar nauðsynlegt að geta horft á málið eins blákalt og hægt er.

Lögleiðing fjárhættuspila á sér ekki langa sögu. Rannsóknir hafa verið gerðar, en þær eru hvorki nógu margar, né alltaf marktækar. Því er ekki mikið um afgerandi svör.  Hagfræði fjárhættuspila er ung og smá fræðigrein, en fer þó ört vaxandi . Mikið vatn á enn eftir að renna til sjávar. Íhaldsömu þjóðfélagi okkar finnst iðulega best að stinga fingrum í eyrun þegar breytingar eru annarsvegar, en hagfræðin berst gegn þeim straumi og rannsakar málið.

 

Fjárhættuspil á Íslandi

Erfitt er að marka spor fjárhættuspila í Íslandssögunni, en óhætt er að gera ráð fyrir því að þau hafi verið til staðar um langt skeið, þó alltaf undir yfirborðinu.

Þessu til stuðnings má vitna í grein úr Morgunblaðinu frá 6. maí 1984. Greinin fjallar um fjárhættuspil á Íslandi á tímum seinni heimsstyrjaldar, og ber heitið „MÁNAÐARKAUPIÐ DUGÐI FYRIR EINUM HRING Í PÓKER“. Þar skoðar Morgunblaðið endurminningabók skipstjórans Torfa Halldórssonar, sem sólundaði oft fé í misgáfulegum veðmálum. Torfi segir frá spilaumhverfinu á stríðsárunum, ásamt því að segja stórkostlegar sögur af litríkum persónum úr því umhverfi. Áhugaverðast er þegar Torfi talar um spilaklúbba Reykjavíkur, um og eftir stríð. Torfi segir: „Það er einkennilegt með þessa spilaklúbba hér í Reykjavík…. Þótt rekstur þeirra gangi vel um stund, þá dragast þeir upp eftir misjafnlega langan tíma og hætta, en ávallt er þá næsti klúbbur búinn að opna eða er í tilferð að opna.“

Þó ótrúlegt megi virðast, þá ríma lýsingar Torfa nær fullkomlega við spilaumhverfið í dag.

Má því ætla að svört spilastarfsemi sem greiðir ekki skatt, og lútir engum reglum hafi verið starfrækt hér á landi í minnsta lagi í rúm 70 ár, og nú á enn eftir að nefna tilkomu fjárhættuspila á internetinu. Þá, eins og í dag, átti mönnum gjarnan til með að blöskra þegar það komst að umfangi þessarar starfsemi.

Þó er ekki öll fjárhætta bönnuð á Íslandi; lottó, spilakassar, getraunir, happadrætti, skafmiðar og bingó eru meðal leyfðra leikja. Það er viss tvískinnungur í því. Hvers vegna er eitt leyft en annað bannað? Í eðli sínu skera þessir leikir afar ekkert öðruvísi en hvert annað fjárhættuspil.

Eitt er þó ljóst: lögleiðing allra fjárhættuspila er að fá verulegan meðbyr; bæði hér heima og á heimsvísu.  Því þurfum við að athuga málin nánar og kafa dýpra.
Spilin á borðið

Við rannsókn á kostum og göllum fjárhættuspila, er einkum talað um efnahagsleg áhrif, áhrif á glæpatíðni og samfélagslegan kostnað.

Hér, líkt og á flestum öðrum sviðum mannlegs samfélags, hafa hagfræðingar verið ósammála. Nóbelsverðlaunhafinn Paul Samuelson áleit fjárhættuspil hreina tilfærslu auðs án þess að nokkuð verðmæti væri skapað, en aðrir hafa skotið á móti að skv. þessari röksemdarfærslu mætti segja það sama um kvikmyndir og aðra afþreyingu. Fjárhættuspil eru afþreying með mikla eftirspurn, sem gefur til kynna að neytendur hljóti nyt af þeim, og þar af leiðandi mun markaður, í einhverri mynd, ávallt vera til staðar.

Brookings stofnunin gerði áhugaverða skýrslu um rannsóknir á fjárhættu sem ber heitið „The Economic Winners and Losers of Legalized Gambling“. Douglas Walker, hagfræðingur, skrifar einnig kafla í handbók Oxford um hagfræði fjárhættuspila sem heitir „Overview of the Economic and Social Impacts of Gambling in the United States“. Að miklu leyti er stuðst við þessar úttektir hér.

Flestir eru sammála um að til staðar séu bæði kostir og gallar. Vísbendingar eru um að opnun spilahalla beri í för með sér vöxt hagkerfisins. Þetta rímar við kenningu Joseph Schumpeter (1934) um að ný þjónusta eða gæði sé möguleg uppspretta hagvaxtar.

Áhrif spilahalla á nærliggjandi rekstur eru ekki augljós, og veltur það á því hvers eðlis nærliggjandi rekstrarumhverfi er. Ætla má að spilahallir séu staðkvæmd fyrir aðra afþreyingu, og einnig önnur fjárhættuspil t.d. lottó.

Spilahallir hafa alla jafna jákvæð áhrif á ferðamannaiðnað, til eru mýmörg dæmi um þetta en Las Vegas borg má nefna sérstaklega þessu til stuðnings. Hagkerfi sem reiðir sig í auknum mæli á ferðamenn þarf nauðsynlega að taka málið til greina.

Mögulegt velferðartap sem ábyrgir neytendur verða fyrir þarf einnig að taka til greina. Bæði þegar spiluð eru löglegu fjárhættuspil einokursstarfseminnar, og þegar spilað er í lögleysu svarta markaðarins, tapast neytendaábati. Fórnarkostnaður ríkisins á banni gegn spilaklúbbum, í formi skatttekna, ætti einnig að vera augljós.

Spilaárátta er samt sem áður raunverulegt vandamál, sem gæti borið með sér markverðan samfélagslegan kostnað.

Vandinn við þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á því sviði er að hugtakið „samfélagslegur kostnaður“ er einatt illa skilgreint eða skilgreiningu er alfarið sleppt. Hagfræðin skilgreinir gjarnan „samfélagslegan kostnað“ sem velferðartap hagkerfisins, þ.e. ábatatap hagkerfisins í heild vegna starfseminnar, ekki aðeins beinn kostnaður þess að styðjast við þau, hlutfallslega fáu, sem haldin eru spilaáráttu. Ef notast er við þá skilgreiningu eru áhrifin óljós. Þá er einnig erfitt að átta sig á orsakasambandinu milli spilaáráttu og téðum kostnað, hvernig sem hann kann að vera skilgreindur. Margir þeir sem glíma við spiláráttu eiga einnig við áfengis-, vímuefna-, eða aðra atferlisvanda að stríða. Það er því varhugavert að kenna fjárhættuspilunum einum um allan þann kostnað sem þessum einstaklingum fylgir, en það er þó alla jafna gert.

Áhrif spilahalla á glæpatíðni nærliggjandi umhverfis hafa farið mikinn í skrifunum. Rík ástæða er til þess að ætla að eitthvað samband sé þar á milli, en eðli og umfang þess sambands er óljóst. Svipað og með samfélagslegan kostnað, þá er „glæpatíðni“ oft illa skilgreint, og rannsóknirnar eru mismarktækar.
Fátt er um einföld svör.

Hvað þá?
Áhrif fjárhættuspila á hagkerfi og samfélag eru óljós. Þetta stafar að einhverju leyti af vöntun á marktækum og óháðum rannsóknum frá hagfræðingum og félagsvísindamönnum. Það er kaldhæðnisleg staðreynd að lögbann gegn fjárhættuspili skerðir möguleika á söfnun marktækra gagna til vinnslu.

Líklegt er að lögleiðing hafi bæði jákvæð og neikvæð áhrif í för með sér. Til að þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun um þetta mál verður að eiga sér stað málefnaleg umræða. Ekki þvagl undir hulu réttrúnaðar, forræðishyggju, og hræðsluáróðurs.

Þessi grein birtist fyrst í Hjálmum, tímariti hagfræðinema við Háskóla Íslands.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.