Harmleikur sósíalismans í Venesúela

eftir Friðrik Þór Gunnarsson

Árið 46 fór gríðarlegur eldur um hina fornfrægu Rómarborg. Borgarbúar flúðu í örvæntingu og það tók sex heila daga að slökkva eldinn. Eyðileggingin var gríðarleg. Sumir höfðu á orði að Neró Rómarkeisari, hafi kært sig lítið um gang mála og jafnvel leikið á fiðlu af svölum hallarinnar á meðan Róm brann. Þó deilt sé um sannleiksgildi þessara staðhæfinga kallar ímyndin af Neró á svölunum fram áhugaverða líkingu við Nicholas Maduro, forseta Venesúela, en í ríkinu er vofvænlegt ástand.

Venesúela gengur nú í gegnum pólitíska-, efnahags- og orkukrísu – samtímis. Það er skortur á nær öllum vörum allt frá nauðsynjum á borð við matvöru og klósettpappír til lúxusvara. Fólk er enn fremur í stóraukinni hættu vegna skorts á lyfjum og flótta lækna frá landinu. Á sama tíma hafa gríðarlegir þurrkar valdið viðvarandi rafmagnsleysi í landinu.

Í skjóli óreiðu, eymdar og spillingar hafa glæpagengi tekið nær öll völd í daglegu lífi þegna landsins. Öryggi er varla til í orðaforða fólks í Caracas, höfuðborg Venesúela. Þegnar landsins hafa fengið nóg og stjórnarandstöðuliðar vinna að því að koma Maduro frá völdum á sama tíma og óbreyttir borgarar hafa tekið til mótmæla og óeirða.

Sósíalíska tilraun Venesúela hefur mistekist með hræðilegum afleiðingum, sem gætu orðið enn verri eftir því sem ástandið vindur upp á sig. En hvaða vegferð þarf að fara til þess að enda á þessum stað?

There Will Be Blood

Fram að fyrsta olíufundinum um 1920 byggðist hagkerfi Venesúela á sjálfsþurftarbúskap og framleiðslu kakó og kaffibauna, en stór meirihluti þjóðarinnar bjó í dreifbýli. Þegar olían tók að flæða færði fólk sig í auknum mæli inn í borgirnar og á fimmta áratugnum bjó stór meirihluti íbúa í þéttbýli.

Á þessum tíma veiktist Venesúela mjög af hollensku veikinni. Það er kallað hollenska veikin þegar mikill uppgangur í einum útflutningsiðnaði hagkerfis kæfir útflutning í öðrum greinum vegna styrkingu gengisins. Vegna ýmist getu- eða áhugaleysis hafa stjórnvöld þar í landi aldrei tekið á þeim vanda og ríkið hefur til þessa dags haft öll eggin í sömu olíukörfunni.

Efnahagur landsins sveiflast nær algjörlega með olíuverði en það má færa má rök fyrir því að rætur núverandi krísu liggi í eyðsluæði sem átti sér stað í kjölfar hækkana olíuverðs á áttunda áratugnum. Þau samfélagslegu og efnhagslegu vandamál sem sköpuðust var ýmist sópað undir teppið eða tækluð á misgáfulegan máta. Jafnframt voru sumar hefðir, til dæmis gríðarleg niðurgreiðsla olíuframleiðslu, svo fastar í sessi að tilraunum til þess að frelsisvæða landið í kringum árið 1990 vegna efnahagslægðar var mætt af óeirðum og uppreisnum.

Krufning á sósíalíska draumaríkinu

Hagkerfi Venesúela undir fyrst Chavez og síðar Maduro var tifandi tímasprengja. Þegar heimsmarkaðsverð á olíu fór að lækka fyrir nokkrum árum sprakk hagkerfið í loft upp.
Það eru tveir samverkandi þættir sem eru kjarni efnahagskrísu Venesúela: verðbólga (sem stefnir á óðaverðbólgu) og skortur á vörum og þjónustu. Að baki þessara þátta liggur einkum þrennt: ríkisstýring á gengi gjaldmiðilsins, skortur á innlendri framleiðslu og peningaprentun.

Ríkisstjórn Venesúela reynir að verðstýra öllu hagkerfinu. Allt frá verði á vöru og þjónustu, til verðs bóliversins, gjaldmiðilsins, á markaði. Það ætti öllum að vera augljóst að verðstýring er ekki góð hugmynd: ef eftirspurn eykst á meðan að verð fær ekki að gera það, þá klárast einfaldlega birgðir á örskotsstundu.

Þá er gjaldmiðilskerfi Venesúela flókið og afar óvenjulegt. Í stuttu máli þá fær gengi bólívarsins ekki að fljóta á markaði en seðlabankinn festir gengið heldur ekki með hefðbundnum aðferðum. Öllu heldur er gengið misjafnt eftir því hvaða atvinnugrein á í hlut.

Spillingin sem fylgir svo flóknu gengisskráningarkerfi hefur orðið til þess að í seinni tíð er nær ómögulegt fyrir óbreytta borgara að skipta á opinbera genginu. Embættismenn hafa gjarnan stungið erlendri mynt ætlaðri innflutningi á vörum og þjónustu í vasann eða fengið dollara á opinbera genginu og áframselt á hærra gengi yfir svarta markaðinn sem uppfyllir gjaldmiðlaþörf almennings. Gengið á svarta markaðinum er það sem næst kemst því að endurspegla nafngengi ef það væri gefið frjáls og er um 900 bólívar gegn hverjum dollar. Eitt af opinberu gengjunum er hins vegar 6,3 bólívar gegn hverjum dollara.

Verð- og gengisstýringin hjálpar til við að útskýra hinn þráláta skort sem viðgengst í landinu. Gengiskerfið gerir það að verkum að erfitt eða ómögulegt getur verið að útvega nægan gjaldeyri til þess að greiða fyrir innflutning ofan á náttúrulegan skort sem verður til vegna verðstýringarinnar. Áhrifin eru slæm fyrir allt hagkerfið, en sérstaklega fyrir þá sem minnst mega sín.

Ef ofangreind atriði væru ekki nóg til þess að letja framleiðslu í hagkerfinu, þá hefur ríkið einnig gjarnan ákveðið að hrifsa til sín fyrirtæki, sýnist því svo. Þetta hefur kaffært alla innlenda framleiðslu og fælt frá atvinnurekstur og fjárfestingu.

Efnahagshelvítið fer þó dýpra. Eins og áður sagði hefur þurrkur leitt til mikillar orkukrísu í landinu. Í stað þess að ráðast að rót vandans hafa stjórnvöld hins vegar brugðist við með því að stytta vinnuvikuna hjá opinberum starfsmönnum í tvo daga í viku til þess að spara rafmagn sem dregur enn meira úr þjóðarframleiðsu. Nú hafa erlendu skuldir Venesúela ekki einu sinni verið nefndar, en þær eru umtalsverðar og þykir nær öruggt að landið muni ekki geta staðið í skilum.

Leikur Maduro á fiðluna?

Þjóðin rís nú upp og alþjóðasamfélaginu til mikillar skelfingar virðist Maduro ekki ætla að stíga til hliðar þegjandi og hljóðalaust.

Mögulega er of þungt í árina tekið að segja að þetta sé víti til varnaðar hvað varðar sósíalisma. Það verður hinsvegar ekki komist hjá því að sjá að vanhæfnin og spillingin sem verið hefur við lýði er hreinlega mögnuð og þetta, eitt sinn efnilega, land er að riða til falls.

Spurningin hlýtur því að vera hversu lengi Maduro geti leikið á sósíalísku fiðluna á meðan Venesúela brennur?

Friðrik Þór Gunnarsson

Pistlahöfundur

Friðrik Þór er hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann er víðförull og hefur búið bæði í Bandaríkjunum og London. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi Vöku fls. og var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík frá 2017 til 2018.