Lærum að njóta

eftir Rebekka Rún Jóhannesdóttir

Mitt helsta áhyggjuefni síðustu mánuði hefur verið hvernig ég er að verja tíma mínum, eða öllu heldur hvernig ég er að sóa tíma mínum. Ég tek vini mína á tal og hneyksla mig á því hve litlu ég hef áorkað í lífinu. Tíminn líður, ég eldist en samt finnst mér lítið bætast í reynslubankann. En hvað er það sem pressir á mig að flýta mér eins og ég get í gegnum lífið? Pressir á að ná að gera sem mest á sem stystum tíma? Hvað varð um það að njóta augnabliksins?

Menntun til öryggis

Fólk er hvatt til þess að mennta sig á svo kölluðum „réttum tíma” því hagfræðin sýnir okkur að því fyrr sem vel menntaðir einstaklingar eru komnir út á vinnumarkaðinn, því hagkvæmara er það fyrir samfélagið. Það gefur auga leið að samfélagið setur pressu á ungt fólk að rumpa af hinu klassíska bóknámi svo við getum farið að skapa verðmæti fyrir samfélagið okkar sem fyrst. Sjálf læt ég þessa pressu ná til mín en það á ekki við um alla. Auðvitað er hún góð á margan hátt, en stundum velti ég því fyrir mér hvort þetta sé aðeins of mikið.

Mín upplifun af þessari pressu er sú að lífið yrði eilífðar ströggl ef ég næði mér ekki í háskólagráðu. Ég veit um fjölmarga einstaklinga sem mennta sig til þess eins að fá gráðu og öruggan starfsferil. Og var það einmitt ástæðan fyrir því að ég skráði mig í háskóla; svo ég myndi tryggja mér öruggan starfsferil í framtíðinni. Það var ekki vegna þess að ég hafði svo brjálaðan áhuga á að afla mér frekari þekkingu og vera stöðugt að læra eitthvað nýtt, heldur svo að ég gæti borgað reikningana mína í framtíðinni. Já kæra fólk – þetta kallar maður að lifa lífinu!

Er námið eina leiðin?

Sumir eru heppnir, velja nám sem hentar þeim vel og þeir hlakka til að mæta í skólann á hverjum degi til þess að læra meira. Ég er ein þeirra. Aðrir eru ekki eins heppnir. Fólk eyðir miklum tíma í að finna sér nám við hæfi því það vill drífa sig í háskóla og út á vinnumarkaðinn í framhaldi af því, en veit ekki hvar styrkleikar þeirra né áhugasvið liggja. Aðrir koma sér í gegnum nám sem hentar þeim illa – og þá oft á lengri tíma en aðrir. Þarna tel ég þennan mikla hvata í samfélaginu koma í bakið á okkur.

Margir setja samasem merki milli velgengni og summu inn á bankabókinni, gráðunnar sem þú hefur öðlast eða fjölda vinnustunda sem þú vinnur. Ég tel að velgengni í lífinu sé frekar fólgin í því að ná valdi á tímanum þínum og að allt sem þú gerir, gerir þú fyrir þig og þína ánægju. Þannig tel ég að samfélagið hagnist sem mest. Þeir sem sækja sér háskólamenntun ættu að stefna að því að nýta menntunina til þess að vera framúrskarandi í því sem þeir taka sér fyrir hendur. Það á líka við um alla aðra menntun, hvort sem hún er bókleg, verkleg eða hún falli undir skóla lífsins. Betra er að hafa tíu góða smiði heldur en tíu lélega viðskiptafræðinga, svo dæmi sé tekið.

Metnaður metinn til launa?

Við heyrum oft í umræðunni að menntun sé ekki metin til launa í mörgum greinum. Í einhverjum tilvikum gæti ég hugsað mér að markaðurinn hafi hætt að meta menntunina til launa vegna offramboðs í atvinnugreininni, en ég ætla þó að leyfa öðrum að kafa dýpra ofan í þau mál. Mig grunar nefnilega að þetta offramboð stafi að miklu leiti af því að allt of margir hafa farið hinn gullna meðalveg í gegnum tiltekna menntun út af þessari umtöluðu pressu.

Eflaust er kominn tími á hugafarsbreytingu um tilgang háskólamenntunnar og jafnvel menntunar í heild sinni. Menntun á ekki að vera hinn gullni meðalvegur að fínni íbúð í Garðabænum og tveimur utanlandsferðum á ári. Hún á ekki að vera hin eina örugga leið að framtíðaröryggi. Menntun er ekki eitthvað sem við eigum að einbeita okkur að klára frá, heldur njóta og hafa gaman af. Menntun á ekki að hindra það að við njótum hverrar stundar. Munum að njóta.

Rebekka Rún Jóhannesdóttir

Pistlahöfundur

Rebekka Rún er með BSc gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún gegndi embætti formanns Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík skólaárið 2016-2017 og var árið áður formaður nemendafélags tækni- og verkfræðinema í HR. Hún er stúdent úr Verzlunarskóla Íslands og starfar hjá Arion banka. Skrif Rebekku í Rómi beinast að málefnum líðandi stundar.