Lækningar í hundrað ár

eftir Páll Óli Ólason

Árið 1918 er fyrir margt þekkt í Íslandssögunni. Á því herrans ári urðu miklar hamfarir hérlendis. Katla gaus með látum, frostaveturinn mikli reið yfir og spænska veikin svokallaða barst til landsins og stráfelldi fólk á besta aldri í blóma lífsins. Það voru þó ekki bara hamfarir sem gerðust það ár. Stórt skref var tekið 1. desember þegar Íslandi varð fullvalda ríki. Það var svo 14. janúar sem Læknafélag Íslands var stofnað og fagnar því hundrað ára afmæli í ár. Þrátt fyrir þetta aldarafmæli eru lækningar á Íslandi mun eldri. Fyrsti landlæknir landsins, Bjarni Pálsson, var settur árið 1760 og Læknafélag Reykjavíkur stofnað árið 1909. Það er þó áhugavert að staldra við og horfa á muninn á lækningum árin 1918 og 2018.

Lækningar í 100 ár.

Á síðustu hundrað árum hefur læknisfræðinni fleygt fram í takt við þróun í öðrum fræðum. Dæmi um það sést til að mynda á þeirri breytingu sem hefur orðið á dánarorsökum. Fyrir hundrað árum voru það smitsjúkdómar sem felldu flesta. Berklar voru einna skæðastir, enda fengu þeir viðurnefnið „hvíti dauði“ í anda „svarta dauða“. Aðrir smitsjúkdómar komu í faröldrum. Dæmi um það eru mislingar og influensa, líkt og spænska veikin. Hjartasjúkdómar voru tiltölulega fágætir, um 1 af hverjum 20 féll fyrir þeim. Einstaklingar með geðsjúkdóma voru læstir inni, bólusetningar nútímans voru ekki hafnar, sýklalyf ekki til og fólk búsett við bágan húsakost þó vissulega væru blikur á lofti. Þetta hafði þau áhrif að fólksfjölgun hérlendis var hæg á mestum hluta

Meðalævilíkur 1918 voru hjá körlum í kringum 53 ár og konum kringum 58 ár. Nú í dag vita flestir að við Íslendingar lifum einna lengst allra, karlar í 80,7 ár og konur í 83,7 ár, enn ein rós í hnappagat Íslands. Smitsjúkdómar eins og mislingar og berklar þekkjast vart hérlendis en í staðinn eru það hjartasjúkdómar, krabbamein og heilablóðföll sem fella flesta.

Það að vera læknir hefur einnig breyst svo um munar, sérstaklega með tilkomu internetsins. Fyrir hundrað árum voru læknar líkastir guðum. Staðan í dag er önnur þar sem einstaklingur sem finnur fyrir kvilla getur einfaldlega greint sig sjálfur með hjálp netsins, mætt til læknisins og sagt honum hvað er að sér.

Einfalt, ekki satt?

Ekki alveg. Í takt við þróun upplýsingar hefur orðið þróun í sjúkdómafræði. Til að mynda er það sem áður var kallað því einfalda nafni „Bright’s disease“ nú sjúkdómaflokkur margra mismunandi nýrnasjúkdóma, komið hefur í ljós að krabbamein og krabbamein er ekki það sama heldur hópur mismunandi sjúkdóma og með aukinni ævilengt eru sjúkdómar sem fólk einfaldlega náði ekki aldri til að fá hér áður orðnir algengir.

Lækningar næstu 100 ár

Af öllum málum í umræðu landans eru heilbrigðismálin oftar en ekki þau fyrirferðarmestu. Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, fór í pistli sínum hér á Rómi sl. mánudag yfir þá stöðu sem heilbrigðismálin eru í og hvað verður einna mikilvægast að koma í framkvæmd strax á næstu árum.

Hvað lækningar varðar er gaman að velta fyrir sér hvað næstu hundrað ár bera í skauti sér. Ein lækning við öllum krabbameinum mun líklegast aldrei finnast en meðferð við krabbameini verður sniðin fyrir hvern og einn einstakling út frá því hvaða viðtaka krabbameinsfrumur hafa. Þáttur erfða mun að öllum líkindum vaxa. Þannig mun einstaklingur geta komist að hvaða mein hann á í meiri hættu að fá en aðrir. Við höfum þegar slík tækifæri, þekktust eru án efa BRCA1 og 2 genin sem auka líkur á krabbameinum einna helst í brjóstum kvenna. Erfðir munu skipa sér mun stærri sess í fleiri sjúkdómum, s.s. hjarta- og æðasjúkdómum og vitglöpum. Forvarnir verða vonandi öflugri en það er vitað mál að þær eru ódýr aðferð til að hindra sjúkdóma sem, þegar einstaklingur fær slíkan, eru rándýrir fyrir samfélagið.

Það má svo láta sig dreyma enn lengra. Verður komin lækning við mænuskaða eftir 100 ár? Mun maður geta farið í glerkassa sem greinir öll manns mein á einu bretti og leggur til meðferð? Eða verða læknar jafnvel úr sögunni og gervigreindin tekin yfir? Aðeins tíminn mun leiða það í ljós.

Páll Óli Ólason

Pistlahöfundur

Páll Óli útskrifaðist úr læknisfræði við Háskóla Íslands sumarið 2017 og lauk kandídatsári í júní 2018. Hann stundar sérnám í bráðalækningum við Landspítala. Hann tók virkan þátt í starfi Vöku fls. í Háskóla Íslands og sat meðal annars sem formaður sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs í Stúdentaráði. Páll Óli sat í Útsvarsliði Árborgar frá árinu 2008-2012. Skrif hans í Rómi snúa helst að heilbrigðismálum og lýðheilsu.