Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum

eftir Jónína Sigurðardóttir

Við getum flest, ef ekki öll, verið sammála um að það sé ljótt að brjóta á börnum. Í bíómyndum og þáttum njóta einstaklingar sem sitja í fangelsum oft sérstakrar verndar fyrir að hafa brotið kynferðislega á börnum vegna hættu á að verða fyrir ofbeldi af hendi annara fanga. Mörgum þykja þessi brot sérstaklega viðkvæm þar sem börn eru oft álitin saklaus og óflekkuð. Staðreyndin er hins vegar sú að börn verða fyrir ofbeldi rétt eins og annað fólk.

Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum hefur margar birtingarmyndir og nær yfir margs kyns athafnir. Við gerum okkur flest grein fyrir að káf, samfarir, nauðgun, hvort sem það er í endaþarm eða leggöng, og fróun með munni eða höndum teljist sem kynferðislegt ofbeldi. Aðrar athafnir teljast þó til kynferðislegs ofbeldis gegn barni, sem dæmi má nefna tilefnislaus þvottur á kynfærum barns, að horfa á klámmynd með barni eða láta það horfa á kynlíf fullorðinna, kossar og leikir með kynferðislegu ívafi. Allar þær athafnir sem eru famkvæmdar til þess að örva kynferðislega teljast kynferðisegt ofbeldi.

Árið 2016 bárust Barnaverndarnefnd 2.638 tilkynningar um ofbeldi gegn börnum og þar af voru 452 tilkynningar vegna kynferðislegs ofbeldis. Vegna þess hve fáir þekkja einkenni kynferðislegs ofbeldis má ætla að Barnaverndarnefnd berist aðeins tilkynningar um hluta af þeim brotum sem eiga sér stað.

Einkenni hjá börnum

Einkenni kynferðislegs ofbeldis eru margvísleg og geta brotist út á ólíkan hátt hjá hverjum og einum. Einkennin get verið innhverf, úthverf, andleg og líkamleg. Innhverf vandamál snúa að breyttri hegðun barna sem gera það að verkum að þau eru ekki jafn virk og þau voru áður en ofbeldið hófst. Sem dæmi um innhverf vandamál mætti nefna hlédrægni, minni samskipti við jafnaldra og vanþroska. Úthverfur vandi er sjáanlegur og oft það sem fólk tekur helst eftir. Dæmi um einkenni slíks vanda eru kynferðislegt tal, aukin ákefð og ágreiningur við fólk. Innhverf og úthverf einkenni stangast of á og því er mikilvægt að vera vel vakandi fyrir breytingum í hegðun barna. Sér í lagi vegna þess að börn eiga oft erfitt með að tjá tilfinningar sínar því þau hafa hreinlega ekki þroska til þess að skilja og hvað þá ræða eigin tilfinningar.

Börn sem hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi eru í aukinni hættu á að eiga í erfiðleikum með nám, hafa minni þrautseigju og að vera vinafá. Einnig er hætt við því að þau glími við andleg veikindi á borð við kvíða og þunglyndi. Þessi atriði geta haft áhrif á heilsu og velferð þeirra til lengri tíma og jafnvel út lífið. Fullorðið fólk á oft í fullu fangi með að eiga við þessa þætti sem hér hafa verið upptaldir, hvað þá börn sem glíma við fleiri en einn þeirra. 

Fræðum fagfólkið

Stéttir á borð við kennara og tómstundafræðinga fá litla sem enga fræðslu um þessi efni í sínu námi. Sem dæmi þá fá nemendur í grunnskólakennarafræðum um það bil 80 mínútna kennslu í fimm ára háskólanámi þar sem farið er yfir tilkynningarskyldu, einkenni og hvernig sé best að bregðast við ef barn trúir þeim fyrir að það hafi verið beitt ofbeldi eða vanrækt. Þá er ekki farið sérstaklega í tegundir ofbeldis eða viðeigandi viðbrögðum við mismunandi tegundum.

Mikilvægt er að grípa sem fyrst inn í og veita þessum hópi barna viðeigandi aðstoð og stuðning til þess að koma í veg fyrir langvinn andleg veikindi og erfiðleika. Leggja ætti sérstaka áherslu á að aðilar sem sinna börnum, hvort sem það eru kennarar, þjálfarar, leiðbeinendur eða aðrir sem koma að þeirra daglega lífi, fái viðeigandi fræðslu um kynferðislegt ofbeldi. Ef börn treysta einhverjum fyrir því að þau hafi verið beitt ofbeldi er mikilvægt að sá aðili viti hvernig æskilegt sé að bregðast við. Viðbrögð þessa aðila geta skipt sköpum og haft áhrif á hvort að barnið tjái sig frekar um ofbeldið eða loki alveg á það og ræði það ekki frekar. Styrkja þarf stöðu fagaðila til þess að sýna viðeigandi viðbrögð og þekkja einkenni kynferðislegs ofbeldis gegn börnum. Viðhorf fólks þarf að breytast og við verðum að sætta okkur við þá óþægilegu hugsun að börn eru líka beitt ofbeldi.

Opnum umræðuna

Undanfarið hefur verið mikil umræða í samfélaginu um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og hefur fjöldinn allur af konum, úr ólíkum starfstéttum, stigið fram sagt frá annað hvort ofbeldi eða áreitni sem þær hafa orðið fyrir. Lítil sem engin umræða hefur í kjölfarið skapast um kynferðislegt ofbeldi eða áreitni sem börn verða fyrir, nauðsynlegt er að opna á umræðuna um ofbeldi sem börn eru beitt svo einhverjar breytingar verði. Samkvæmt lögum eiga börn rétt á vernd og ber okkur því skylda sem samfélag til þess að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að vernda þau. 

Jónína Sigurðardóttir

Ritstjórn

Jónína Sigurðardóttir er meistaranemi í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á áhættuhegðun og forvarnir fyrir börn og ungmenni. Hún starfar sem ráðgjafi á velferðarsviði hjá Reykjavíkurborg fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jónína á 11 ára gamla dóttur og hefur mikinn áhuga á velferðarmálum.