Kvikmyndir eru sterkasta vopnið

eftir Björn Már Ólafsson

Sterk ritskoðun fasískra stjórnvalda. Undarlegar framúrstefnulegar kvikmyndir sem andsvar við fasismanum. Heilt hverfi sem byggt var undir kvikmyndaiðnað í framþróun.

Kvikmyndasaga Ítalíu hefur að geyma allt það besta og versta sem listformið hefur upp á að bjóða. Líkt og í stjórnmálasögu landsins er það einmitt þessi fjölbreytni og illskiljanlega rótleysi sem vekur áhuga fólks. Til skiptis ritskoðun og ögrun ríkjandi gilda. Velkomin til Cinecittà.

Á bökkum ánnar Tíber má finna það sem í daglegu tali var kallað Hollywood Tíber. Heilt hverfi með kvikmyndaverum og sviðsmyndum, byggt að ósk fasistaleiðtogans Benito Mussolinis árið 1937 undir einkennisorðunum „Il cinema è l’arma più forte” eða „kvikmyndir eru sterkasta vopnið.” Hvort Mussolini hafi haldið fast um þessi einkennisorð eftir að annars konar vopn og miklu hættulegra batt enda á ævi hans í bænum Guilino di Mezzegara árið 1945 er óvíst en ljóst er að með kvikmyndaiðnaðinn undir járnhæl sínum gat hann haft ótrúleg áhrif á skoðanir fólks í landinu sem hann stjórnaði allt of lengi.

Frá Cabiriu til Cabiriu

Því fer þó fjarri að kvikmyndaiðnaðurinn í landinu hafi orðið til með byggingu Cinecitta. Ítalir höfðu snemma tileinkað sér þetta listform. Fyrst um sinn, áður en hljóð varð hluti af kvikmyndum, einbeittu kvikmyndagerðarmenn sér aðallega að því að gera kvikmyndir eftir frægum bókum. Kvikmyndin Cabiria kom út árið 1914 og var sú dýrasta sinnar tíðar í landinu (ekki má rugla myndinni saman við aðra afurð ítösku kvikmyndalistarinnar með svipað heiti, Le Notti Di Cabiria, sem varð vinsæl á sjötta áratug síðustu aldar).

Á stríðs- og eftistriðsárunum mátti sjá gæta áhrifa fútúrisma-hreyfingarinnar í kvikmyndum. Áhrifa stríðsins gættu svo á efnahag landsins og fljótlega lenti iðnaðurinn í hremmingum. Var það ekki fyrr en þriðji áratugurinn gekk í garð að upprisa iðnaðarins hófst á ný. Sú breyting varð nú á kvikmyndum að hljóð bættist við. Þessu veittu áhrifamenn í röðum fasista áhuga og sáu þeir tækifærin sem fólust í iðnaðinum. Þeir fóru þá að ríkisstyrkja kvikmyndagerð, að viðbættri strangri ritskoðun.

Hvítir símar og bleikt raunsæi

Þeir kvikmyndagerðamenn sem vildu ekki styggja fasista hófu þá að framleiða léttar gamanmyndir sem kenndar voru við hugtakið „telephoni bianchi,” eða „hvítur sími”. Myndirnar sættu ekki beinni ritskoðun stjórnvalda enda engin þörf á því þar sem þær hömpuðu hefðbundnum fjölskyldugildum og virðingu fyrir yfirvöldum. „Hvíti síminn” sem myndirnar eru kenndar við, er tilvísun í leikmunina sem mátti sjá í kvikmyndum á þeim tíma. Dýrar hönnunarvörur í Art-Deco-stíl, ófáanlegar fyrir miðstéttarfólkið sem sótti í kvikmyndahúsin og lét sig dreyma um slíkan munað.

Neo-realisminn sem átti síðar eftir að brjótast upp á yfirborðið í kvikmyndaiðnaðinum var um margt andsvar við því hamingjusama og óaðfinnanlega fjölskyldulífi sem hvítsímamyndirnar birtu almenningi.

Cinecittà var undir járnhæl fasista. Raunar svo miklum að Vittorio Mussolini sonur Benitos stofnaði ríkisframleiðslufyrirtæki sem varð umsvifamikið á þessum tíma. Þrátt fyrir ritskoðunina þá hafði Cinecittà jákvæðar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir iðnaðinn til langs tíma litið. Iðnaðurinn blómstraði, margir ungir Ítalir heimsóttu kvikmyndahúsin og heilluðust af hvíta tjaldinu. Upp kom ný kynslóð kvikmyndaleikstjóra sem var kvikmyndalistin í blóð borin og eftir síðari heimsstyrjöld bjuggu Ítalir vel að því að hafa til staðar mikla þekkingu og tengsl innan iðnaðarins.

Hversdagshetjur urðu raunverulegar hetjur

Hinir ungu leikstjórar höfðu líka frá mörgu að segja í myndum sínum. Eftirstríðsárin voru mörgum erfið í landinu og kjöraðstæður fyrir neo-realisman með sinn gráskotna veruleika að blómstra. Horfin voru fjölskyldugildi og efri millistétt og í stað þeirra birtust á hvíta tjaldinu smáglæpavæddar verkamannafjölskyldur sem gerðu það sem þurfti til að lifa af á erfiðum tímum. Áhorfendur höfðu samúð með litla manninum sem barðist gegn óréttlæti í stað þess að þrá fegurðina og peningana sem ríka fólkið í hvítsímamyndunum hafði.

Eftir að hafa þróast úr glamúrkenndum fjölskyldugildum yfir í raunsæismyndir í hæsta gæðaflokki var næsta skref í þróuninni kannski vel við hæfi. Þar er því besta úr báðum heimum blandað saman í það sem nefnist bleikur neo-realismi, eða bleikt raunsæi. Áhugaleikkonunum sem fóru með hlutverk áhyggjufullra húsmæðra var skipt út fyrir glamúrbombur í hæsta gæðaflokki. Með því að tengja saman fátæka og ríka, glamúr og raunsæi tókst kvikmyndagerðarmönnum að höfða til allra. Leikkonum á borð við Sophiu Loren og Claudiu Cardinali var stillt upp á móti myndarlegum mönnum, með lífskúnstnerinn og hjartaknúsarann Marcello Mastroianni fremstan í flokki.

Ríkir karlmenn og sterkar konur

Áhrifamestur á þessum tíma var sennilega leikstjórinn Vittorio de Sica. Hann hóf að gera myndir í raunsæisstíl en var fljótur að sjá möguleikana sem fálust í bleika raunsæinu. Kvikmyndirnar Matrimonio all’italiana og Ieri, oggi, domani eru skýrustu dæmin. Ríkir karlmenn sem falla fyrir fátækum, fallegum stúlkum. Ólíkir menningarheimar mætast en að lokum eru það hinar fátæku stúlkur sem eru hetjur sögunnar, enda með mun meiri lífsreynslu en hin ríku, kassalaga karlrembusvín, og tilfinningalega yfirburði. Það var einnig undir leikstjórn de Sica að Sophia Loren vann fyrstu Óskarsverðlaunin fyrir túlkun sína á ungri konu sem varð nauðgað í seinni heimsstyrjöldinni í kvikmyndinni La Ciociara frá árinu 1961. Var það í fyrsta sinn sem verðlaunin féllu í skaut leikkonu í ekki-enskumælandi hlutverki.

Loren átti síðar eftir að eiga glæstan feril í Hollywood. Konan sem ólst upp við mikla fátækt í efnaminni hverfum Rómar og Napolí á fjórða áratug síðustu aldar lét minna að sér kveða í ítalskri kvikmyndagerð eftir því sem leið á feril hennar en þeim mun meira vestanhafs. Ástæðurnar voru einkum ákæra í heimalandinu fyrir skattaundanskot (sem hún var ekki sýknuð af fyrr en árið 2013) og þrálátur skilnaður sem kaþólska kirkjan neitaði að viðurkenna.

italia

Leikstjórinn kenndi Sophiu Loren að kyssa

De Sica var um margt óhefðbundinn leikstjóri. Hann var sjálfur leikari og er hann sagður hafa nýtt eigin leiklistarhæfileika vel til að kenna stjörnunum að túlka tilfinningar sínar á hvíta tjaldinu. Fræg er sú saga þegar hann leikstýrði sjóðheitu ástaratriði á milli Mastroianni og Loren. Til að ekki færi á milli mála hvernig atriðið ætti að vera, lagðist de Sica léttklæddur upp í rúmið með Mastroianni og sýndi Loren hvernig gælurnar skyldu fara fram. Það er kannski þetta auga fyrir tilfinningum og smáatriðum sem gerðu de Sica að þeim leikstjóra sem hann var. Glamúrinn var aldrei allsráðandi og leikararnir skyldu gjöra svo vel að geta brugðið sér í hlutverk hinna minni máttar í samfélaginu. Eða eins og menningarpenni The Guardian orðar það svo vel: „Kvikmyndir De Sica störðu oft djúpt inn í einföld vandamál. Hann vildi sýna manneskjur í varnarlausri, einfaldri og auðtrúa mynd. Hann vildi koma til skila til áhorfandans einfaldri trú á hið góða. Trú, sem leiðir kannski sjaldan til hamingju, en er þó alla veganna sönn trú.”

Þegar þú horfir á kvikmyndir de Sica finnur þú alltaf til með aðalpersónunum, jafnvel þótt umhverfið sé eins ólíkt því sem þú sjálfur þekkir. Þegar aðalpersónan skóflar í sig mat, gerir hungrið vart við sig hjá áhorfandanum. Þegar hjarta aðalpersónunnar brestur, reikar hugur áhorfandans aftur til svipaðra atvika í eigin lífi. Tilfinningarnar í myndunum eru sannar. Sumir hafa orð á því að þær séu jafnvel stundum ögn ofleiknar í sönnum ítölskum stíl. Kann svo að vera, en gleymist þá oft að de Sica og hans samferðamenn sköpuðu það sem við þekkjum sem hinn sanna ítalska stíl. Af helstu samferðamönnum hans mætti nefna þá Dino Risi, Pier Paolo Pasini og Federico Fellini. Sá síðastnefndi gerði sennilega frægustu mynd Ítalíu fyrr síðar, hina ódauðlegu La Dolce Vita. Ef vel er lagt við hlustir má enn í dag heyra enduróminn af fagurri röddu Anitu Ekberg kalla á sinn heittelskaða Marcello við Trevi-gosbrunninn í Róm.

Vestrar, kenndir við spagettí

Á sjöunda og áttunda áratugnum fór að bera á fleiri ítölskum leikurum í Hollywood og áttu margir þeirra glæsta ferla að baki á Ítalíu. Tengslin á milli Bandaríkjanna og Ítalíu voru sterk á þessum tíma og ekki veiktust þau þegar spagettívestrarnir komu fram á sjónarsviðið. Sögusvið kvikmyndanna var hið villta vestur og aðalhetjan var einfaldlega Clint Eastwood. Það æxlaðist svo að margar af frægustu kúrekamyndunum voru teknar upp á Spáni og Ítalíu. Landslagið sem átti að hýsa svefnbæ í suðurríkjunum, skammt frá mexíkósku landamærunum, var í raun og veru fjalllendið umhverfis Castelluccio á Mið-Ítalíu eða Tabernas-eyðimörkin í Almeríu á Spáni. Myndirnar voru teknar upp í Evrópu af fjárhagsástæðum en urðu afar vinsælar vestanhafs. Tónskáldið Enrico Morricone á réttlátan hlut í velgengni myndanna með tónverkum sínum. Hann hefur í seinni tíð átt þátt í fleiri frægum ítölskum myndum líkt og Nuovo Cinema Paradiso.

Á áttunda og níunda áratugnum kom þó ákveðin lægð í hina hefðbundnu ítölsku kvikmyndagerð. Gömlu listformin voru horfin og lítið pláss var fyrir óhefðbundna leikstjóra til að leika listir sínar. Undantekningarnar eru til staðar, líkt og myndin The Last Emperor eftir Bernardo Bertolucci, sem hlaut níu Óskarsverðlaun en hinar hefðbundnu, vestrænu kvikmyndir voru mun fyrirferðameiri.

Má segja að frá þeim tíma hafi ítölsk kvikmyndagerð eins og við þekkjum hana verið einhvers konar hliðariðnaður frá hefðbundinni kvikmyndagerð. Hið gamla listform er þó ekki dautt úr öllum æðum eins og myndin Nuevo Cinema Paradiso er gott dæmi um. Hún kom út árið 1988 og hlaut Óskarsverðlaun fyrir bestu erlendu mynd. Í kjölfarið kom upp kynslóð af ítölskum leikstjórum sem hafa haldið í hefðirnar. Hin yndislega La Vita è Bella er annað dæmi frá árinu 1997. Mynd eftir Roberto Benigni sem allir verða að sjá, án undantekninga. Benigni er ástkær leikari, leikstjóri og grínisti í heimalandinu og ekki minnkuðu vinsældir hans þegar hann kom ítalskri kvikmyndagerð aftur rækilega á kortið með ofannefndri mynd.

Ráðleggingar pistlahöfunds

Að lokum má ég til með að útbúa lista yfir fimm uppáhaldsmyndirnar mínar frá stígvélalandinu, í engri sérstakri röð. Eru þær allar þess eðlis að óhætt er að mæla með þeim, hvort sem er fyrir djúpt sokkna áhugamenn um kvikmyndir en líka fyrir þá sem vilja breyta aðeins til frá hefðbundnum Hollywood-myndum.

1. La Vita e Bella, (Life is Beautiful), 1997– Roberto Benigni

Einfaldlega meistaraverk. Gagnrýnendur hafa hrósað Benigni mikið fyrir það hvernig honum tekst að flétta grátbroslegan húmor inn í eins dramatíska sorgarsögu og myndin er.

2. Matrimonio all’italiana, 1964 (Marriage Italian Style) – Vittorio de Sica

Hjartnæm mynd með Sophiu Loren og Marcelo Mastroianni í aðalhlutverki. Augljós táknmynd bleika realismans með grátbroslegan húmor inn á milli.

3. La Notti di Cabiria, (Nights of Cabiria), 1957 – Federico Fellini

Hér ræður realisminn algjörlega för. Sorgleg kvikmynd um hina seinheppnu, yndislegu og allt of ungu vændiskonu Cabiriu. Myndin sýnir vel baráttu ungrar konu við miskunnarlausan raunveruleika lífsins á eftirstríðsárunum á Ítalíu.

4. Ieri, oggi, domani, (Yesterday, today, tomorrow) 1963 – Vittorio de Sica

Ég kemst ekki hjá því að hafa hér aðra mynd eftir de Sica í bleikum raunsæisstíl. Þessi mynd óhefðbundin. Í raun er hún þrjár stuttmyndir og fjalla þær um raunir þriggja mismunandi kvenna og í þeim öllum fara þau Loren og Mastroianni með aðalhlutverkin . Samband þeirra á hvíta tjaldinu stórkostlegt sem endra nær.

5. Nuovo Cinema Paradiso, (Cinema Paradiso), 1988 – Giuseppe Tornatore

Af mörgum talin ein besta kvikmynd allra tíma. Unaðslega einföld saga sem nær samt að heilla nær alla. Við skulum gefa einum vel völdum gagnrýnanda orðið:

„Myndin inniheldur engar tæknibrellur, engin óþarfa kynlífsatriði og ekkert ofbeldi. Enga milljón dollara leikara og þá má raunar spyrja sig hvort myndin sé yfirhöfuð með söguþráð. Samt svífur myndin hátt yfir þvæluna sem kvikmyndagerðamenn senda frá sér í dag.” Við þetta er engu að bæta.

Ljósmyndir eftir Ólaf Má Björnsson

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.