Kvennastéttir og lífeyrissparnaður

eftir Birta Austmann Bjarnadóttir

Í kjölfar kjarabaráttu ljósmæðra hef ég mikið velt fyrir mér launakjörum hinna svokölluðu kvennastétta og afleiðinga þeirrar staðreyndar að störf þessara stétta séu almennt lægra launuð. Eitt af því sem hefur vakið athygli mína eru hagsmunir þeirra í sambandi við lífeyrissparnað. Sanngjörn laun kvennastétta skipta ekki bara máli fyrir starfsmenn þeirra núna heldur líka um ókomna framtíð.

Konur lifa að meðaltali lengur en karlar og eru því að meðaltali lengur háðar lífeyrisgreiðslum. Lífeyriskerfið á Íslandi skiptist í 3 stoðir, það er í fyrsta lagi greiðslur frá almannatryggingum, öðru lagi skyldubundinn lífeyrissparnað og þriðja lagi valfrjálsan viðbótarlífeyrissparnað. Almannatryggingakerfið er svokallað gegnumstreymiskerfi, þegar við erum orðin 67 ára eigum við rétt til lífeyrisgreiðslna úr því. Ef við höfum greitt í lífeyrissjóð fáum við einnig greitt úr honum. Lífeyrissjóðirnir byggja á sjóðsöfnunarkerfi (þó hér hafi Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins vissa sérstöðu), það er þú leggur inn hluta af laununum þínum og færð síðan greiðslur í hlutfalli við það sem þú hefur lagt inn þegar þú hættir að vinna. Greiðslurnar frá almannatryggingum skerðast við greiðslur frá lífeyrissjóðum, en þó ekki króna á móti krónu og því geta þær greiðslur vænkað hag þinn á eldri árum. Viðbótarlífeyrissparnaðurinn er valkvæð sparnaðarleið, sjóðsöfnunarkerfi þar sem þú leggur til hliðar hluta af laununum þínum sem þú getur leyst út á eldri árum. Kosturinn við viðbótarlífeyrissparnaðinn er að þú greiðir ekki skatt af honum fyrr en þú tekur hann út og hann skerðir ekki greiðslur þínar frá almannatryggingum.

Eins og fram kom er fyrirkomulag lífeyrissjóða og viðbótarlífeyrissparnaðar sjóðsöfnun. Við greiðum í sjóðina ákveðna prósentu af launum okkar og vinnuveitandi greiðir til móts við okkur ákveðna prósentu. Lægri laun þýðir því að minna er lagt til hliðar í þeim úrræðum sem löggjafinn hefur skyldað okkur til að nýta (lífeyrissjóðirnir) og gert okkur kleift að nýta (viðbótarlífeyrissparnaðurinn).

Konur starfandi í störfum sem falla undir kvennastéttir eins og til dæmis ljósmæður ná því að leggja minna fyrir í lífeyrissparnað en karlar í karllægari störfum með hærri laun, þrátt fyrir að þurfa samkvæmt spám um lífslíkur lengur á sparnaðinum að halda. Að sama skapi leggja karlar í störfum sem falla undir kvennastéttir minna fyrir en starfsmenn í hærra launaðri karllægum störfum.

 

Birta Austmann Bjarnadóttir

Pistlahöfundur

Birta er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði og lögfræði frá Háskóla Íslands ásamt meistaragráðu í lögfræði frá sama skóla. Birta starfaði á viðskiptasviði Íbúðalánasjóðs samhliða námi en starfar núna hjá Þjóðskrá Íslands. Hún hefur setið í stjórnum Vöku fls. og stjórn Politica, félags stjórnmálafræðinema auk nefndarsetu í ráðum Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Háskólaþingi.