Kúgun í skjóli menningar

eftir Kolfinna Tómasdóttir

Ísland hefur trónað á toppi lista World Economic Forum yfir stöðu jafnréttismála í heiminum í rúman áratug. Það er algjörlega frábært og óskandi ef fleiri lönd deildu sætinu með okkur. Staðan í Mið-Austurlöndum er gjörólík stöðunni á Íslandi en af þeim hafna Írak, Íran, Jemen, Sádi-Arabía, Sýrland, Lebanon, Oman og Jórdanía í tólf neðstu sætum nýjasta listans. Ísrael heldur stöðu sinni á milli ára en af öllum Mið-Austurlöndum ríkir þar mesta jafnréttið, sem skilar þeim í sæti númer 53 á listanum.

Kynbundin vandamál eru afskaplega ólík eftir heimshlutum, en þó virðist vera einhver vilji hjá flestum þjóðum að taka að minnsta kosti einhver skref í rétta átt. Sádi-Arabía á enn langt í land en virðist vera á leiðinni.

Sádi-Arabía

Staða kvenna í Sádi-Arabíu er á uppleið þó hún sé enn slæm. Þar í landi fengu konur fyrst rétt til að kjósa árið 2015, leyfi til að keyra árið 2018 og það var fyrst núna í sumar sem sá sigur vannst að konur í Sádi-Arabíu geti sótt um vegabréf og ferðast úr landi án leyfis karlkyns umsjónarmanns þeirra. Umsjónarmaður kvenna er faðir, eiginmaður, bróðir, frændi eða jafnvel sonur þeirra og dæmi um þær stóru ákvarðanir sem þær geta enn ekki tekið sjálfar eru að gifta sig, skilja og yfirgefa kvennaathvarf. Þrátt fyrir að þessi umsjón með konum sé ekki alltaf lögfest þá fylgja starfsmenn ríkisins, dómstólar, fyrirtæki og íbúar landsins almennt þessum óskrifuðu reglum og haga sér í samræmi við þær, sem þýðir að konur þurfa leyfi karlkyns umsjónarmanns síns fyrir mörgum meiriháttar ákvörðunum. Með þessari framkvæmd hefur verið gefið í skyn að konur eigi ekki að taka mikilvægar ákvarðanir án karlmanns sér við hlið, sem og að þær þurfi vernd til geta sinnt sínum skyldum og lifað lífinu til fulls. Samfélagslega kerfið sem hefur verið byggt upp í Sádi-Arabíu gerir það nánast ómögulegt fyrir brotaþola heimilisofbeldis og kynferðisofbeldis að leita réttar síns þar sem lögreglan krefst þess almennt að konur og stúlkur komi í fylgd eða hafi skriflegt leyfi umsjónarmanns síns til að leggja inn kæru, en það á líka við ef leggja á fram kæru gagnvart umsjónarmanninum.

Kvenréttinda aktívistar í Sádi-Arabíu hafa verið að vinna mikilvæga sigra síðustu ár en árið 2017 gaf Salman konungur það út að konur þyrftu ekki lengur leyfi frá karlkyns umsjónarmanni þeirra til þess að hefja háskólanám, fara út á atvinnumarkaðinn eða fara í skurðaðgerð. Nú berjast kvenréttindahópar þar í landi fyrir algjörum endalokum umsjónarmannakerfisins í samfélaginu, undir myllumerkinu #IamMyOwnGuardian en einnig hafa tugir þúsunda kvenna skrifað undir formlega beiðni þess efnis sem hefur verið gerð, en eins og greint hefur verið frá er byltingin að skila árangri.

Klæðaburður

Kröfur um klæðaburð kvenna í Sádi-Arabíu eru afleiðingar þröngrar túlkunar á íslamskri löggjöf, sem er framfylgt í mismiklum mæli í landinu. Meirihluti kvenna klæðist daglega abaya, sem er síður kjóll, ásamt hijab (höfuðklút), niqab (sem skilur eftir rifu fyrir augun) eða burqa (sem hylur allan líkamann en skilur eftir rifu fyrir augun). Árið 2017 tók trúarleiðtogi í landinu sig til og hvatti dætur þjóðarinnar til að vera enn hógværari og forðast alla abaya sem höfðu einhverskonar skreytingar. Tveimur vikum síðar birtist myndskeið á samfélagsmiðlum af ótilgreindri konu í stuttu pilsi, gangandi um í eyðimörkinni í átt að borginni Riyadh, í því skyni að mótmæla þeim kröfum sem hafðar eru uppi um klæðaburð kvenna. Myndskeiðið, sem var sex sekúndur að lengd, hóf heita umræðu í landinu, þar sem íhaldsmenn kröfðust þess að hún yrði handtekin á meðan umbótasinnar fögnuðu hugrekki hennar. Konan var á endanum boðuð í skýrslutöku til lögreglu, en sleppt fljótlega án ákæru.

Samskipti kynjanna

Þess er krafist af konum í Sádi-Arabíu að lágmarka þann tíma sem þær verja með karlmönnum sem þær eru ekki skyldar. Megnið af opinberum byggingum, þar á meðal skrifstofum, bönkum og háskólum, hafa aðskilda innganga fyrir kynin. Almenningssamgöngur, almenningsgarðar, strendur og skemmtigarðar eru einnig aðgreindir fyrir tiltekið kyn í flestum landshlutum. Það er refsivert fyrir bæði kyn að óhlýðnast þessari skiptingu, en konur verða yfirleitt fyrir harðari refsingu.

Konum er ekki leyft að nota sundlaugar og aðra baðstaði sem karlmenn hafa aðgang að. Þeim er einungis leyft að sækja sund- og baðstaði, líkamsræktarstöðvar og heilsulindir sem eru einungis fyrir konur.

Íþróttir

Árið 2015 lagði Sádi-Arabía til að Ólympíuleikarnir yrðu haldnir án kvenna. Prins Fahad bin Jalawi al-Saud, ráðgjafi Sádi-Arabísku Ólympíuleikanefndarinnar, sagði samfélagið vera mjög íhaldssamt og að það ætti erfitt með að samþykkja að konur gætu keppt í íþróttum. Þjóðin sendi í fyrsta sinn íþróttakonur á Ólympíuleikana í London árið 2012 og sætti það mikilli gagnrýni íhaldsmanna sem kölluðu keppendurnar tvær „vændiskonur“, fyrir það eitt að vera konur sem kepptu í íþróttum. Keppendurnir þurftu ávallt að vera í fylgd karlmanns.

Það var svo í september 2017 sem þjóðarleikvangur Sádi-Arabíu bauð fyrstu kvenkyns  áhorfendurna velkomna. Þeim var úthlutað pláss innan svæðis sem hafði, fram að því, einungis verið ætlað karlmönnum, en þær fengu sæti til þess að horfa á afmælishátíðarhöld í tilefni stofnunar Sádi-Arabíu.

Loujain al-Hathloul

Um árabil höfðu konur í Sádi-Arabíu ekki mátt keyra og þurftu fjölskyldur að ráða bílstjóra til að aka þeim á milli staða, en það breyttist í júní 2018. Salman konungur hafði gefið út yfirlýsingu í september 2017 þess efnis að frá og með júní 2018 yrði byrjað að gefa út ökuskírteini til kvenna, en það var yfirlýsing sem samfélagið átti ekki von á. Sádi-Arabía var síðasta landið í heiminum til að gefa konum leyfi til að aka bifreið, en með tilskipuninni þurfa þær ekki að hafa karlkyns umsjónarmann með við akstur. Leiðin að ökuréttindum kvenna var þó ekki bein, en ýmsir kvenréttinda aktívistar höfðu látið reyna á ökubannið í gegnum árin. Loujain al-Hathloul er ein þeirra. Ásamt því að berjast fyrir ökuréttindum kvenna hefur Loujain einnig beitt sér fyrir afnámi umsjónarmanna kerfisins og lagarammanum um heimilisofbeldi. Loujain vakti athygli um allan heim þegar hún keyrði frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum til Sádi-Arabíu og streymdi bílferðinni í beinni útsendingu. Þegar Loujain kom að landamærunum og á yfirráðssvæði Sádi-Arabíu var hún handtekin. Loujain var haldið í fangelsi í rúman mánuð án dóms og laga og fékk fjölskyldan hennar engar upplýsingar um hvar hún væri stödd. Sama dag og hún var handtekin var gerð húsleit, án heimildar, á heimili fjölskyldunnar. Eftir rúman mánuð í fangelsi fengust upplýsingar um staðsetningu hennar og hefur fjölskyldan fengið að hafa samband við hana. Loujain hefur greint frá andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi sem hún hefur orðið fyrir í fangelsinu, þar sem henni er enn haldið án dómsúrskurðar, en Sádi-Arabísk yfirvöld neita þeirri framkomu fangelsisvarða sem þeir hafa verið sakaðir um og hafa ekki leyft óháðum aðila að koma og rannsaka aðstæðurnar í fangelsinu. Réttarhöldum yfir Loujain hefur verið frestað án frekari upplýsinga. Loujain er á lista TIME yfir 100 áhrifaríkasta fólk veraldar fyrir árið 2019.

Hvað svo?

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa farið hátt með það að samfélagið sé í endurmótun og vilja kynna land og þjóð sem opið og umburðarlynt samfélag, sem býður heimsfrægum hljómsveitum að spila á tónleikum og notar þekktar fyrirsætur í auglýsingar til að laða að ferðamenn. En hvernig getur samfélagið fullyrt að það sé að bjóða heiminn og nútímalegar venjur velkomnar, þegar það framfylgir ekki grundvallar mannréttindareglum gagnvart eigin borgurum? Eins og komið var inn á í þessari grein eru augljósir vankantar á samfélagslegri menningu í landinu þegar konur eru settar í fangelsi án dóms og laga og hljóta þar inni ómannúðlega meðferð. Sjálfstæði kvenna sem einstaklinga er ekki til staðar og kristallast það í þeim óskrifuðu reglum sem eru við lýði varðandi karlkyns umsjónarmenn þeirra. Það að kona geti ekki kært mann, án þess að vera í fylgd umsjónarmanns, jafnvel þótt hann sé sá sem brotið hafi á henni kynferðislega, kippir öllu öryggi undan fótum þeirra og er mikil ógn við mannréttindi einstaklingsins. Þær byltingar sem hafa orðið í Sádi-Arabíu hafa leitt til betrumbætinga á réttindum kvenna, en það er ekki nóg ef forsprökkum krafanna er refsað fyrir það eitt að hafa þær uppi. Hafa byltingarnar náð markmiði sínu ef bakslögin eru slík?

Kolfinna Tómasdóttir

Pistlahöfundur

Kolfinna nemur lögfræði og Mið-Austurlandafræði við Háskóla Íslands ásamt því að sitja í stjórn Ungra athafnakvenna. Samhliða náminu starfar hún sem fyrsti Alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs en síðustu ár hefur hún gegnt embætti alþjóðaritara Orators, forseta Norræna alþjóðaritararáðsins, endurvakið Íslandsdeild ELSA og gegnt þar formannsembætti ásamt því að sitja í stjórn Ungmennaráðs UN Women á Íslandi.

Skrif Kolfinnu í Rómi snúa meðal annars að jafnréttismálum, alþjóðasamskiptum og álitaefnum í samfélagsumræðunni hverju sinni.