Krónan keyrir fram úr Haga-veldinu

eftir Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir

Allir hafa skoðanir á matvöruverslunum. Flestir leggja leið sína í eina slíka að minnsta kosti einu sinni í viku ef ekki oftar. Það er þó ekki langt síðan landinn var einfaldlega búinn að sætta sig við að ávextir á Íslandi yrðu oftast frekar ólystugir og vöruúrvalið verra en á Suðurskautinu. Þegar kom að því að velja á milli matvöruverslana studdust fjölskyldur við verðkannanir og búðin þar sem mjólkin kostaði krónu minna en annars staðar varð fyrir valinu. En tímarnir hafa breyst og sumar búðir hafa þróast með. Aðrar slappa af í fortíðinni.

Flest fyrirtæki ættu að hafa áttað sig á að nýsköpun á ekki bara heima í Gullegginu og hjá forriturum sem hætta í háskóla. Nýsköpun á að vera partur af menningu fyrirtækja. Markmiðið er að tileinka sér nýjungar sem eru í takt við tíðarandann.

Matvöruverslunin Krónan tekur þetta til sín og hefur tekist að gera innkaupaferðir ánægjulegar, jafnvel ævintýralegar með stöðugum nýjungum, fjölbreytni, framúrskarandi úrvali og ferlega skemmtilega upp settum verslunum. Stjórnendur eru á tánum og innleiða sjálfsafgreiðslukassa, eru virkir á samfélagsmiðlum, fjarlægja plast og stinga upp á uppskriftum fyrir kvöldmatinn. Þeir fylgjast greinilega með breyttum áherslum og bjóða upp á frábært úrval vegan vara. 

Níræð amma mín sem venjulega hefur kosið að versla í Bónus því hún þekkir gangana betur en handarbakið á sér er meira að segja farin að biðja frekar um ferðir í Krónuna. Því það er miklu skemmtilegra. 

Að heimsækja Bónus búð í dag er eins og að fara fimmtán ár aftur í tímann. Margt af því fólki sem áður sótti verslunina er í dag tilbúið að borga þessar þrjú hundruð krónur sem sparast og fara frekar í Krónuna. Þröngir grotnandi gangar, gamaldags útlit og gallað grænmeti er ekki uppskrift að ánægjulegri upplifun.

Nú er Bónus í eigu Haga sem eiga líka Hagkaup. Hagskaupsbúðirnar eru mismunandi, allt frá löngu yfirgefnu útibúi á Eiðistorgi til vandaðri verslana eins og í Smáralind. Þrátt fyrir gífurlegar fjárfestingar þar og víðar þá hefur þeim samt ekki tekist að grípa tíðarandann. Þeir veðjuðu á tuttugu ára gamalt trend og settu upp Krispy Kreme kleinuhringjasvall í miðju heilsuæði Íslendinga. Verslanirnar eru dimmar, illa skipulagðar og halda enn í úrelta Hagkaupsandrúmsloftið. Hagar eru í vanda. Þeir eru fastir í fortíðaranda.

En þeir eru ekki of seinir. Það er enn möguleiki á þróun. Þeir standa ágætlega og ættu að geta gripið gæsina og nartað í nútímann. Matvöruverslun sem nær Krónu-upplifuninni og færir hana yfir í stafrænt form og heimsendingar mun baða sig í bláum seðlum. Nettó, Heimkaup og Aha hafa rutt brautina en ekki náð að gera þjónustuna nægilega aðlaðandi og snurðulausa. Vel fjármagnað, fjörugt og fagmannlegt fyrirtæki á alla möguleika á að eigna sér þennan markað.

Árið er 2019 og hlutirnir gerast hratt. Neytandinn er kröfuharðari en áður. Landinn vill safaríkar sítrónur, bandarískar beyglur, ketóvænan kvöldmat og pepperoni búið til úr plöntum. Heimsendingar og hamingjuríkar heimsóknir í næstu búð. Krónuverðmunurinn skiptir minna máli. Matvöruverslanir verða að finna aðra ástæðu fyrir kúnnann til að kíkja í heimsókn. Þangað til Hagar gera það mun hagnaðurinn vera hóflegur og Festi fá fleiri ástæður til að fagna.

Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir

Pistlahöfundur

Vinga er viðskiptafræðingur með MBA gráðu frá IE Business School Í Madrid og Bs gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands/University of Wyoming. Hún starfar í dag sem markaðsstjóri hjá bandaríska hátæknifyrirtækinu NetApp. Áður hafði hún að mestu fengist við markaðsmál, almannatengsl og vörumerkjastjórnun ásamt því að koma að fyrirtækjarekstri og frumkvöðlastarfsemi.