Krafan um vinnufrið

eftir Kolfinna Tómasdóttir

Ungar athafnakonur blésu nýverið til samstöðufundar um rétt fólks til að sinna starfi sínu í friði, án áreitis og ofbeldis. Einhverjum hefur þótt það undarlegt að gera sérstaka kröfu þess efnis þar sem öruggt vinnuumhverfi á að vera sjálfsagður hlutur, á meðan öðrum þykir um óþarfa væl að ræða. Miðað við þær móttökur sem fundurinn og herferðin #vinnufriður hefur fengið er ljóst að um þarfa og löngu tímabæra kröfu er að ræða. #Vinnufriður er herferð tengd #MeToo sem mikil þörf er á, enda er um að ræða vandamál sem ekki hefur fyllilega verið tæklað.

Byltingar á borð við #MeToo hafa rutt veginn fyrir breytingar í samfélaginu en það er ekki nóg að viðurkenna vandann og segjast fordæma áreitni, það þarf að bregðast við. Krafa Ungra athafnakvenna er að stjórnvöld og leiðtogar í atvinnulífinu skilgreini hvaða afleiðingar og eftirfylgni áreitni á vinnustað hefur fyrir gerendur og þolendur. En hvenær þarf að taka afstöðu og hvar drögum við línuna? Getur verið að við sem samfélag höfum orðið viðkvæmari fyrir grófri orðræðu og snertingu eða er áreitni kannski bara alls ekkert í lagi og tími til kominn að staldra við og skoða vandamálið?

Áreitni og ofbeldi á vinnustöðum þrífst auðveldlega í valdaójafnvægi. Það er ekki nýtt fyrirbæri, heldur eitthvað sem hefur grasserað í samfélaginu frá manna minnum, þegar stærri og sterkari einstaklingar misnota stöðu sína eftir þeirra hentisemi og brjóta á öðrum. Þrátt fyrir þá staðreynd telja einhverjir að það sé þvaður, að ofbeldi eða áreitni af hálfu t.d. samstarfsaðila eða yfirmanns sé auðleysanlegt vandamál og að ekki þurfi meira til en að kvarta til mannauðsstjóra og að vandamálið sé þar með leyst. En málið er ekki svo einfalt. Hvað gerist svo? Hvert fer kvörtunin og hverjar eru afleiðingarnar? Miðað við reynslusögur í kringum #MeToo og #vinnufriður er það oftar en ekki svo að afleiðingarnar eru engar, eða að sökinni sé skellt á þá sem brotið er á sem hrökklast jafnvel úr starfi. Starfsmaðurinn sem brotið er á er oft talinn vera með óþarfa vesen því um er að ræða eitthvað smáræði sem, að mati yfirmanns, á að taka sem gríni. „Hann Nonni úr bókhaldinu er bara svona karakter“ eða „viðskiptavinurinn með óþægilegu snertinguna var nú að versla fyrir svo háa fjárhæð“. Það virðist alltaf vera ástæða til að taka ekki á óþægilegu málunum. En hvar drögum við mörkin? Af hverju er þessi hegðun normalíseruð og hvert leiðir hún? Hvenær á að bregðast við?

#MeToo herferðin hófst fyrir rúmum 16 mánuðum síðan. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og ótal margir stigið fram með sína sögu. Það leið ekki á löngu þar til að háværar raddir vildu yfirtaka umræðuna og sögðu þetta komið gott, mikla synd að það mætti ekki reyna við fólk lengur og að þessi umræða væri löngu orðin þreytt. En 16 mánuðir er enginn tími til breyta rótgróinni hegðun ef það eru ekki allir að taka þátt í sama samtali. Í samfélagi þar sem mikil vitundarvakning hefur átt sér stað og nauðgunarmenning gagnrýnd harðlega þá eigum við það oft enn til að skrímslavæða gerendur. Við gerum ráð fyrir að kynferðisafbrotamenn og dónakallar séu svartar sálir og að illskan skíni af þeim, en það er í flestum tilfellum fjarri lagi. Það geta allir gerst sekir um að brjóta af sér, af ásetningi eða án þess að gera sér grein fyrir því. Allir gerendur eru börn einhvers eða foreldri, vinur, ættingi einhvers annars. Ef gerandi er einhver sem okkur líkar við þá getur bæði verið erfiðara að trúa þeim sökum sem hann er borinn sem og að skilja alvarleika brotsins sem einstaklingur verður sjálfur fyrir. Margir þeir sem verða fyrir ofbeldi eða áreitni á vinnustað eru fastir í þeirri hugsun að þeir megi ekki vera með vesen. Þeir gera lítið úr eigin upplifun svo að aðrir á sama vinnustað þurfi ekki að taka afstöðu eða líða óþægilega við vinnu. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi hugsunarháttur eyðist, enda er það aldrei þolenda að taka ábyrgð á því að það verði einhvers konar vesen. Afleiðingar ofbeldis og áreitni eru alltaf gerenda að kenna, undantekningarlaust.

Af #MeToo og #vinnufriður er ljóst að það er uppi krafa um breytingar, en krafan ein og sér nægir ekki til breytinga ef við tökum ekki öll ábyrgð. Hættum að líta til hliðar þegar við verðum vitni að óþægilegum aðstæðum. Hættum að normalísera dónakalla og ætlast til þess að fólk eigi bara að verja sig ef því líður illa í aðstæðum. Hættum að fara yfir mörk annarra og spurjum ef við erum í vafa. Hættum að setja samasem merki við áreitni og rómantík og virðum orðið nei. Hættum að varpa ábyrgðinni yfir á þolendur.

Þó við séum komin langt sem samfélag þá erum við ekki búin að leysa þetta mál. Þó við séum orðin þreytt og viljum ekki tala um þetta lengur þá þurfum við að taka ákvörðun – annað hvort breytum við þessu hér og nú eða við höldum áfram að tala um þetta.

Gerendur þurfa líka að búa í samfélaginu svo við verðum að finna lausn, en áreitni og ofbeldi verður að hafa afleiðingar ef það á ekki að þrífast áfram. Við eigum öll að geta unnið okkar vinnu í öruggu umhverfi og það er sanngjörn krafa að vinnuveitendur axli ábyrgð í málum starfsmanna sinna er varða áreitni og ofbeldi. Vinnustaðamenning sem felur í sér þessa hegðun er úrelt og óviðeigandi. Kröfurnar eru tímabærar og þarfar en við þurfum öll að taka ábyrgð. Hvað þarf að gerast svo hér ríki #vinnufriður?

Kolfinna Tómasdóttir

Pistlahöfundur

Kolfinna nemur lögfræði og Mið-Austurlandafræði við Háskóla Íslands ásamt því að sitja í stjórn Ungra athafnakvenna. Samhliða náminu starfar hún sem fyrsti Alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs en síðustu ár hefur hún gegnt embætti alþjóðaritara Orators, forseta Norræna alþjóðaritararáðsins, endurvakið Íslandsdeild ELSA og gegnt þar formannsembætti ásamt því að sitja í stjórn Ungmennaráðs UN Women á Íslandi.

Skrif Kolfinnu í Rómi snúa meðal annars að jafnréttismálum, alþjóðasamskiptum og álitaefnum í samfélagsumræðunni hverju sinni.