Kostnaðarsamur óskalisti

eftir Ritstjórn

Það er óhætt að segja að prófkjör stjórnmálaflokkanna fyrir komandi sveitastjórnarkosningar hafi kveikt upp í umræðunni síðustu vikur. Á flestum vinnustöðum eru menn löngu komnir með leið á að ræða Borgarlínuna í kaffitímanum þrátt fyrir að margir mánuðir séu í kosningar og rifrildi kjörinna fulltrúa um hver beri ábyrgð á húsnæðisvanda höfuðborgarsvæðisins séu daglegt brauð.

Prófkjörsbarátta í byrjun árs

Gleðiefni er að borgarbúar séu farnir að láta sig borgarmálin varða eftir mikinn doða sem einkennt hefur umræðu um borgarmál allt frá hruni. Eyþór Arnalds var ekki lengi að koma sér fyrir í umræðunni og taka sér stöðu í fremstu víglínu andstæðinga Borgarlínu. Hann gagnrýndir jafnframt skuldasöfnun borgarinnar sem og húsnæðisstefnu borgarstjórnarmeirihlutans. Það dugði honum öruggs sigurs í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík með rúmlega 60% atkvæða. Þrátt fyrir að um hafi verið að ræða eina lélegustu þátttöku í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík í áraraðir gefur sigurinn Eyþóri sterkt umboð sem oddvita flokksins.

Nú stendur yfir flokksval Samfylkingarinnar í borginni þar sem hart er barist um flest sæti, þó það sé kalt á toppnum hjá Degi borgarstjóra. Þar stóð auglýsing Hjálmars Sveinssonar á Facebook upp úr þar sem hann sagðist auðvitað eiga bíl, eins og hann orðaði það. Myndin af Hjálmari við bílstjórasætið var þó skondin en hann var ekki að gera sig líklegan til að fara neitt þar sem gaddfreðið var fyrir allar rúður bílsins.

Efasemdir bæjarstjóra á kosningavetri?

Í vikunni stigu svo bæjarstjórar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fram og sögðu umræðuna um borgarlínuna vera heldur komna fram úr sér. Ásgerður, nýendurkjörinn oddviti sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi, og bæjarstjóri sveitarfélagsins sagði í viðtali við Morgunblaðið ekki búast við því að borgarlínan kæmi inn í bæinn og má þá velta fyrir sér hver hlutdeild sveitarfélagsins verði í verkefninu. Þá kom Gunnar, bæjarstjóri Garðabæjar fram í kvöldfréttum Stöðvar tvö fyrir viku og sagði að það þyrfti að fara í uppbyggingu tveggja mislægra gatnamóta í sveitarfélaginu áður en íhuga megi borgarlínuna.

Til þess að setja rúsínuna í pylsuendanum var íbúafundur í Hlíðunum 1. febrúar síðastliðinn. Þar voru ræddar hugmyndir um að setja Miklubraut í stokk við mikinn fagnaðarfund íbúa á fundinum. Hugmyndin sem slík er afar góð enda mikið ónæði af umferð á svæðinu sem sker Hlíðarnar í tvennt. Áætlaður kostnaður við framkvæmdina eru í kringum 20 milljarðar.

Á aðeins vikutíma hafa því komið til umræðu þrjú mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu sem íbúar þeirra svæða telja allir nauðsynleg til þess að bæta lífgæði sín. Ef við gefum okkur að hvert þessara umferðamannvirkja muni kosta 20 milljarða líkt og að setja Miklubraut í stokk þá eru þetta samtals 60 milljarðar. Ofan á það á svo að ráðast í uppbyggingu 70 milljarða Borgalínu á höfuðborgarsvæðinu. Samanlagt gerir þetta einu stærstu innviðafjárfestingu höfuðborgarsvæðisins frá upphafi. Og ekki hafa Kópavogur, Hafnafjörður og Mosfellsbær enn tjáð sínar kröfur…

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.