Kosningar og hleranir

eftir Ritstjórn

Seinni umferð frönsku forsetaskosninganna fer fram nú um helgina þar sem eigast við þau Marine Le Pen og Emmanuel Macron. Þau urðu hlutskörpust í fyrri umferðinni sem haldin var í lok apríl en sú kosning var jöfn og fjórir frambjóðendur sem voru í kringum 20 prósentin.

Því er spáð að Emmanuel Macron vinni talsvert öruggan sigur og verði 25. foreti Frakklands

Niðurstöðurnar úr fyrri umferðinni hafa verið túlkaðar á mismunandi hátt hjá mismunandi fjölmiðlum. Margir eru á þeirri skoðun að kosningin hafi verið áfellisdómur yfir hinum „heðfbundnu flokkum” enda komust hvorki frambjóðandi hægrimanna né sósíalista í seinni umferðina. Macron komst í seinni umferðina í gegnum stjórnmálahreyfingu sem hann hefur sjálfur byggt upp, En Marche! og Le Pen fyrir hreyfinguna Front National.

Niðurstaðan í fyrri umferðinni sýnir vissulega að hægristefnan hafi ekki hlotið brautargengi. En þegar rýnt er aðeins dýpra ofan í skoðanakannanir sést að ástæðan fyrir því að Francois Fillon vann ekki var hneykslismál sem upp kom í miðri kosningabaráttunni. Hneykslismálið gerði kjósendur eðlilega reiða og varpaði ljósi á spillingu sem virðist vera landlæg í efstu kreðsum stjórnmálanna í Frakklandi. En það er ekki hægt að horfa framhjá því að ef hneykslismálið hefði ekki komið upp, þá væri útlit fyrir nokkuð öruggan sigur hægrimanna í landinu og enginn væri að tala um að hinir hefðbundnu flokkar ættu undir högg að sækja.

Rússarnir koma

Á lokametrum kosningabaráttunnar hafa borist fréttir um mikla gagnaleka. Um er að ræða upplýsingar sem tölvuþrjótar, sennilega rússneskir, hafa birt um Emmanuel Macron, að því er virðist í þeim tilgangi að ná höggi á framboð hans. Svipað gerðist í kosningunum í Bandaríkjunum síðasta haust þar sem þúsundum tölvupósta úr framboði Hillarys Clintons var lekið á netið.

Í kosningum í Bandaríkjunum er nokkuð augljóst að lekinn hafði áhrif. Þrátt fyrir að augljóst væri að lekinn kæmi erlendis frá, þá hafði hann einfaldlega að geyma alvarlegar upplýsingar um hegðun hátt settra aðila í Demókrataflokknum sem voru hliðhollir Clinton.

Í Frakklandi virðist hins vegar ekki sem að almenningur sé að láta lekann hafa áhrif á sig. Frá upphafi áttuðu flestir sig á að hér væru á ferðinni rússneskir tölvuþrjótar og virtist það gera fólk staðráðara í að láta lekann ekki hafa áhrif á niðurstöðuna. Ljóst er að mikil hætta stafar af þessum lekum. Það hættulegasta er sennilega hverjir það eru sem stjórna lekunum og eiga hagsmuna að gæta. En svo er líka hægt að horfa á kaldhæðnina í þessu máli. Það eru nefnilega ekki meira en fjögur ár síðan upp komst um að Bandaríkjamenn hafi hlerað símtöl hjá Francois Hollande, forseta Frakklands.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.