Komum í veg fyrir banaslys

eftir Ritstjórn

Í vikunni sem leið bar einna hæst hræðilegt umferðarslys þar sem bifhjólamaður og vörubifreið skullu saman á þeim kafla Reykjanesbrautarinnar sem enn er einfaldur. Það er afskaplega sorglegt þegar slíkir atburðir eiga sér stað og enn sorglegra þegar vafi er uppi um hvort hægt hefði verið að afstýra slysinu. Það segir ef til vill mest að ekkert banaslys hefur átt sér stað á þeim kafla sem er tvöfaldur.

Slysið virðist hafa orðið til þess að margir hrukku upp af værum blundi og það er þyngra en tárum taki að til þurfi atburð eins og þennan til þess að minna á bæði mikilvægi þessa einstaka verks, að klára tvöföldun Reykjanesbrautarinnar, en einnig mikilvægi Samgöngumála í heild sinni. Það er óskandi að stjórnvöld beri gæfu til þess að mæta kröfum þeirra tæplega 14.000 sem nú krefjast þess að verkinu verði lokið á Facebook hópnum Stopp hingað og ekki lengra! en hópurinn spratt upp í kjölfar slyssins.

Víða í hinum vestræna heimi hefur viðhald og uppbygging innviða setið á hakanum og Ísland er þar engin undantekning. Vegasamgöngur og innviðir eru þess eðlis að fáir gefa þeim gaum fyrr en allt er komið í óefni. Samgöngur eru hins vegar undirstaða þess að aðrir þættir samfélagsins virki sem skildi.

Ávinningurinn af því að setja samgöngur hærra á forgangslistann er tvímælalaust mikill. Fyrir utan mikilvægi þeirra fyrir atvinnulíf er hægt að komast hjá gífurlegum kostnaði. Mannslíf verða að sjálfsögðu ekki metin til fjár en þó fylgir banaslysum umtalsverður kostnaður. Vilhjálmur Árnason, þingmaður, er einn þeirra sem hefur verið duglegur við að benda á umræddan kostnað en í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn hans um kostnað við umferðarslys kemur í ljós að kostnaður við hvert banaslys er um 660 milljónir króna. Auk þess kostar hvert alvarlegt umferðarslys 86,4 milljónir. Heildarkostnaður umferðarslysa er svo metin á rúmlega 48 milljarða fyrir árið 2015 en sú tala byggir á mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Það er augljóst að hér eru um háar upphæðir að ræða og ef hægt væri að draga úr kostnaði vegna umferðarslysa um 5-10% mætti réttlæta umtalsverðar fjárfestingar í vegakerfinu og þá eru ekki talin með ómetanleg mannslíf. Nú er kominn tími til að láta hendur standa fram úr ermum því við höfum einfaldlega ekki lengur efni á því að gera ekki neitt.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.