Kominn tími til að vakna

eftir Friðrik Þór Gunnarsson

Það er kominn tími til þess að enda hið svokallaða  „Stríð gegn fíkniefnum“. Með þessum orðum hófst skýrsla sérfræðingahóps London School of Economics (LSE): „Ending the Drug Wars“ (2014). Fjallar skýrslan um ríkjandi fíkniefnastefnu um heim allan. Markmið bannstefnunnar; að skapa fíkniefnalausan heim, hefur brugðist algjörlega. Það litla sem hafðist upp úr krafsinu eru m.a. stóraukin umsvif svartar glæpastarfsemi, útskúfun jaðarhópa sem eiga við fíkniefnavanda að stríða og veruleg hefting á framþróun í þriðja heiminum. Það liggur ljóst fyrir að kerfið er bilað.

Hvað er þá til ráða? Hvernig er hægt að sníða fíkniefnastefnu? Fyrst og fremst skal haft í huga að ein stefna gengur ekki yfir allar þjóðir í heiminum og ríki þurfa að sníða stefnur eftir þörfum og eiginleikum þjóðarinnar. Fínstilla þarf stefnu sem tekur mið af marktækum rannsóknum. Stefnu skal dæma út frá niðurstöðum hennar, frekar en ásetningi hennar.

Í þessum mánuði, tæplega tveimur árum eftir að áðurnefnd skýrsla var gefin út, gaf sérfræðingahópur LSE út nýja skýrslu um þetta mál: „After the Drug Wars“ (2016). Nú er fíkniefnastríðinu lokið og horft er með eftirvæntingu til aprílfundar Sameinuðu þjóðanna um málið. Í dag kasta lönd heimsins frá sér vopnunum í auknum mæli og leita annarra lausna.

Ákefðin erlendis kann jafnvel að koma okkur Íslendingum á óvart. Hlutir breytast hægt á Íslandi og utan við dreifðan hróp um afglæpavæðingu kannabis hefur lítið sem ekkert verið tekið á málunum í þjóðfélagslegri umræðu; „Ef ég sé þetta ekki, þá er þetta ekki til,“ virðist vera afstaða margra landsmanna. Alþjóðasamfélagið er á geysisiglingu í átt að framsæknari viðhorfum þegar kemur að fíkniefnastefnu, á meðan Íslendingar sitja sem fastast í áralausum bát. Það er kominn tími til þess að opna augun.

Grunnurinn byggður á sandi

Bannstefnan er byggð á hagfræðilegum misskilningi. Í grein Wall Street Journal er örlitlu ljósi varpað á misskilninginn: Þrátt fyrir herta gæslu og ákafar árásir á framleiðendur í Suður-Ameríku hefur neytendaverð vart haggast í um 20 ár. Til þess að skilja hvernig þetta geti staðist þarf að gera sér grein fyrir hvernig eiturlyfjamarkaðurinn er uppbyggður. Höfundur greinarinnar tekur kókaíniðnaðinn sem dæmi og líkir stórum eiturlyfjasamtökum við fyrirtæki eins og t.d. Wal-Mart, en verslunarkeðjan er svo stór á sumum mörkuðum að hún getur sjálf ákveðið verðið sem birgjar þeirra bjóða þeim. Svipuð staða er uppi í eiturlyfjaheimi Suður-Ameríku, en kókalaufsbændur geta að jafnaði aðeins selt vöru sína til einna samtaka. Þetta þýðir að þegar stjórnvöld skemma uppskeru, þá geta smábændurnir ekki hækkað verð til þess að koma til móts við aukinn kostnað við að rækta kókalauf. Smábændurnir og fjölskyldur þeirra bera því allan kostnaðinn, ekki samtökin sem markmiðið í upphafi var að uppræta.

Jafnvel þótt bændurnir gætu hækkað verð kókalaufa, væru áhrifin á neytendaverð hverfandi; það magn hrárra kókalaufa sem þarf til þess að gera 1 kíló af kókaíni kostar um 400 dollara í Kólombíu og kílóið af kókaíni selst svo í Bandaríkjunum fyrir um 150.000 dollara. Jafnvel þótt verð kókalaufa tvöfaldist í 800 dollara, þá eykst smásöluverðið mest í 150.400 dollara fyrir kílóið. Þess vegna eru aðgerðir yfirvalda líkar því að ætla að hækka verð málverka með því að hækka verð málningar; það væri tilgangslaust, kostnaður hráefnanna er of lítið hlutfall af lokaverði.

Ljóst er að inngrip á framboðshlið markaðarins hafa ekki aðeins brugðist, heldur jafnvel orðið til ama. Stefnan hefur leitt til gríðarlegs óstöðugleika og ofbeldis í framleiðslu- og flutningslöndum, stóraukið virði svarta markaðarins alls staðar og skapað faraldur fangelsisvistunar, svo ekki séu nefndir mögulegir heilsufarsvandar sem glæpavæðing neyslu hefur í för með sér.

Tæklum rótina, ekki einkennin

Hingað til hefur markmiðið verið að eyða algerlega þessum mörkuðum, sem er auðvitað með öllu ómögulegt. Aðferðirnar hafa aðeins tæklað einkenni vandamálsins, ekki rótina; áhersla á eftirspurnarhlið markaðarins nær ekki aðeins meiri árangri, heldur er það mun ódýrara en að reyna að höggva í glæpastarfsemina sem annar eftirspurninni. Það er erfitt að vanmeta mikilvægi þess að reyna að hafa áhrif á eftirspurnina sjálfa, frekar heldur en að reyna að skerða aðgengi að vörunum. Forvarnir í skólum, almenn fræðsla og uppbygging heilbrigðiskerfisins til þess að styðja við alla þá sem glíma við vímuefnavanda eru allt árangursríkari leiðir til þess að takast á við vandann.

Vandamálið í áranna rás er viðhorfið; vímuefnavandinn er ekki stríð sem þarf að sigra með vopnum, fangelsum og ofbeldi. Vímuefnavandinn er í grunninum heilsufarsmál og bregðast þarf við honum sem slíkum.

Kominn tími til að vakna

Flestar þessar umræður varðandi umbætur eru þó okkur fjarri. Við Íslendingar erum ennþá fastir í startholunum. Lögleiðing efna er vissulega snúið mál; það er hægt að gera það vel og það er hægt að gera það illa. Sníða þarf fíkniefnastefnu sem hentar Íslendingum, en það ætti öllum að vera ljóst að núverandi kerfi er gallað: Stórt hlutfall þeirra sem sitja inni í fangelsum á Íslandi sitja inni vegna fíkniefnatengdra glæpa, fíklar fá ekki nægilega aðstoð og komið er fram við neytendur, sem flestir eru annars hættulausir, sem glæpamenn. Fyrsta skrefið hér á landi þarf að vera endurskoðun á löggjöf varðandi kannabis. Sem betur þarf ekki að vaða blint í sjóinn, en margar þjóðir hafa tæklað vandamálið á framsæknari hátt. Hin margumtalaða „portúgalska leið“ í fíkniefnastefnu er augljóst dæmi.

Það örlar fyrir dögun í viðhorfum alþjóðasamfélagsins til vímuefnavandans, við skulum ekki sofa yfir okkur. Það er kominn tími til að vakna.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

 

Friðrik Þór Gunnarsson

Pistlahöfundur

Friðrik Þór er hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann er víðförull og hefur búið bæði í Bandaríkjunum og London. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi Vöku fls. og var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík frá 2017 til 2018.