Kjarnorkustríð – ekki lengur efniviður distópískra skáldsagna

eftir Janus Arn Guðmundsson

Nokkuð sem setti svip sinn á 20. öldina var kalda stríðið og kjarnorkukapphlaupið sem því fylgdi, en hættan á kjarnorkustríði var aldrei jafn mikil og einmitt þá. Eftir að kalda stríðinu lauk gerðu sér margir vonir um að hættan væri úr sögunni en sú var ekki raunin, sem kunnugt er. Hættan við að kjarnorkuvopn verði notuð í átökum fer nú vaxandi. Þannig er kjarnorkustríð ekki lengur efniviður distópískra skáldsagna – og hefur ekki verið það frá því gereyðingarvopnið var fundið upp – heldur raunveruleg og bráð ógn.

Flugskeyti
Talið er að Norður-Kórea hafi gert fimm árangursríkar til­raun­ir með kjarnorkuvopn á árunum 2006, 2009, 2013 og tvær í fyrra.

Tilraunir Norður-Kóreumanna með langdræg flugskeyti, sem borið geta kjarnavopn að vesturströnd Bandaríkjanna, hafa eflaust ekki farið framhjá neinum enda hafa þær orðið til þess að magna upp spennustigið á Kóreuskaga undanfarinn mánuð. Árum saman hafa stjórnvöld í Norður-Kóreu hótað því að þurrka út Bandaríkin en fram til þessa hafa sérfræðingar haft miklar efasemdir um hernaðarlega getu þeirra. Eftir að Kim Jong-un tók við af föður sínum, Kim Jong-il, sem leiðtogi Norður-Kóreu, hefur hann hins vegar lagt allt kapp á þróun langdrægra flugskeyta sem flutt geta kjarnaodda og erfitt er að verjast.

 

Vægðarlaust alræðisríki öðlast færni í beitingu kjarnavopna

Svo virðist sem einræðisherranum hafi orðið ágengt en nú er sú ískyggilega staða komin upp að hershöfðingi Kyrrahafsflota Bandaríkjahers, telur Norður-Kóreu, sem er vægðarlaust alræðisríki, nálægt því að öðlast færni í beitingu kjarnavopna. Að minnsta kosti hafa nýlegar tilraunir þeirra með langdræg flugskeyti valdið svo miklum titringi í alþjóðasamfélaginu að jafnvel Kínverjar, sem eru ein helsta viðskipta- og bandalagsþjóð Norður-Kóreu, hafa krafist þess að þeir geri ekki frekari kjarnorkutilraunir.

Fremur framandi diplómasía

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna hefur talað digurbarkalega í utanríkismálum: „Norður-Kórea er að leita eftir vandræðum. Ef Kínverjar ákveða að hjálpa væri það frábært. Ef ekki þá munum við leysa málin án þeirra!“ segir í tísti Trumps hinn 11. apríl sl.

Við þetta viðkvæma ástand bætist málflutningur Bandaríkjaforseta, Donalds Trumps, en erfitt er að átta sig á hvaða vegferð forsetinn er gagnvart stjórnvöldum í Norður-Kóreu: Ögrandi yfirlýsingar og mögulegar hernaðaraðgerðir einn daginn en friðarviðræður og samkennd annan daginn.

Oftast nær er sú tilhneiging Trumps að slengja fram ögrandi ummælum hálf ankannaleg, en þegar kemur að því að takast á við Norður-Kóreu teflir forsetinn á tæpasta vað. Ef einhvern tímann hafa verið uppi aðstæður sem krefjast þess að farið sé inn í þær með rökréttri hugsun, þá eiga þær við í tilfellum sem þessum. Málflutningur forsetans fer þvers og kruss, er mótsagnakenndur, og gerir stefnu ríkisstjórnar hans í málefnum Norður-Kóreu mjög óljósa. Þrátt fyrir það hafa þjóðaröryggisráðgjafar Trump metið ástandið í Kóreu sem svo að vænlegast sé að beita „hámarks þrýstingi“ í norðri til að binda enda á kjarnorkuógnina, í stað stjórnarfarsbreytinga.

Þekkingarleysi eða úthugsuð strategía

Þannig hefur Trump látið koma fyrir nýju loftvarnarkerfi í Suður-Kóreu, THAAD, til að verjast flugskeytaárásum frá Norður-Kóreu.  Þá hefur hann sent herskipaflota bandaríska sjóhersins upp að Kóreuskaganum og varpað sprengju á liðsmenn Íslamska ríkisins í Afganistan með svokallaðri „Móðir allra sprengja“. Sennilega til að sýna einræðisherranum Kim Jong-un fram á herstyrk og að honum sé fúlasta alvara. Og fyrir u.þ.b. þremur vikum lét hann Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, stilla sér upp á landamærum Norður- og Suður- Kóreu þar sem Pence kunngerði að þolinmæði Bandaríkjanna gagnvart Norður-Kóreu hefði runnið sitt skeið á enda.

Sérfræðingar virðast þó sammála um, hvort sem um sé að ræða þekkingarleysi á málefnum þessa heimshluta eða úthugsaða strategíu, að aðgerðir forsetans séu ekki til þess fallnar að bæta viðsjárvert ástandið á Kóreuskaga. Raunar bæti aðgerðir hans gráu ofan á svart og séu til þess fallnar að herða Kim Jong-un í afstöðu sinni, enda hafi hann engu að tapa. Þannig sýna nýlegar gervihnattamyndir af kjarnorkutilraunarsvæði Norður-Kóreu að Kim Jong-un, er hvergi af baki dottinn, þrátt fyrir aðgerðir Bandaríkjamanna og þrýsting alþjóðasamfélagsins sem hefur hert refsiaðgerðir gegn ríkinu til muna.

Lét taka náið skyldmenni og hálfbróður af lífi

Norður-Kórea er eitt einangraðasta og leyndardómsfyllsta ríki heims. Ríkisborgurum landsins er meinað að ferðast út fyrir ríkið og eiga í samskiptum við þá sem sækja landið heim. Stjórnvöld fylgjast með hverju einasta skrefi ferðamanna enda óheimilt að ferðast án fylgdar. Þannig er upplýsingum haldið frá bæði íbúum og umheiminum.

Veruleikinn er sá að ekki er mikið vitað um geðslag eða þankagang hins þrjátíu og þriggja ára leiðtoga Kim Jong-un. Hins vegar er þekkt að hann hefur fyrirskipað morð á yfir 340 Norður-Kóreumönnum í embættistíð sinni. Þar á meðal háttsettum frænda sínum fyrir föðurlandssvik, en talið er að þeir hafi verið mjög nánir. Þá má leiða líkum að því að hann hafi fyrirskipað morðið á Kim Jong-nam, sem var hálfbróðir hans. Þannig er ekki fyrirsjáanlegt hvernig einræðisherrann bregst við aðstæðum.

Hernaður gegn Norður-Kóreu er ekki talinn heillavænlegur valkostur en slík aðgerð gæti haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér. Annars vegar vegna mikils mannfalls meðal óbreyttra borgara, sem er óásættanlegt. Hins vegar vegna líklegra flugskeytaárása gegn Suður-Kóreu og Japan. Með hernaðarlega valkosti verulega takmarkaða, er rökrétta niðurstaðan sú að Bandaríkjamenn leiti leiða til að þrýsta stjórnvöldum í Norður-Kóreu aftur að samningaborðinu, þrátt fyrir áður árangurslausar viðræður. Til þess að svo megi verða þarf Trump að brjóta odd á oflæti sínu með því að forðast ögrandi og mótsagnakennd ummæli sem gera mjög slæmt ástand enn verra.