Kjaradeila ljósmæðra í 1200 orðum

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

Samningar ljósmæðra við ríkið hafa verið lausir frá því í semptember á síðasta ári en ljósmæður hafa fundað með samninganefnd ríkisins frá því í byrjun árs, án árangurs. Ljósmæður felldu kjarasamninginn sem fulltrúar ljósmæðra og ríkisins skrifuðu undir í byrjun júní með 63% atkvæða. Í gær, 1. júlí 2018, tóku svo uppsagnir 12 ljósmæðra á Landspítala gildi vegna kjaradeilunnar. Alls hafa þó 23 ljósmæður sagt upp störfum og munu uppsagnir þeirra taka gildi á næstu mánuðum. Ekki hefur tekist að ráða í störf þeirra ljósmæðra sem nú hverfa frá störfum á spítalanum vegna mikillar samstöðu innan stéttarinnar um að sækja ekki um lausar stöður sem skapast hafa vegna uppsagna. Landspítalinn brást við með því að gefa út yfirlýsingu þar sem segir að ljóst sé að mikil truflun verði á starfsemi fæðingarþjónustu taki uppsagnirnar gildi, því hafi spítalinn sett upp aðgerðaáætlun til þess að taka á vandanum.

Viðbragðsáætlun

Áætlunin felur í sér að:

 1. Fæðingarvakt Landspítala tekur á móti konum í fæðingu eins og verið hefur en búast má við að konur og nýburar verði útskrifuð beint í heimaþjónustu af fæðingarvakt, sé þess kostur. Mögulega verður röskun á framköllunum fæðinga.
  Hér er átt við að konur geta fætt á spítalanum, en geti búist við að vera útskrifaðar heim 4-6 klst eftir fæðingu, ef heilsa móður og barns leyfir. Konur sem hafa fengið úthlutuðum degi í gangsetningu gætu þurft að bíða lengur. Álag á fæðingarvaktinni ræður fjölda og skipulagi gangsetninganna.

 2. Meðgöngu- og sængurlegudeild mun loka fimm rúmum. Þar verður því þrengra um fjölskyldur en undir venjulegum kringumstæðum. Hugsanlega verður valkeisaraskurðum beint á Akranes og Akureyri. Einnig verður miðað við að útskrifa konur og nýbura eins fljótt og mögulegt er.
  Um ⅕ af deildinni lokar. Oft er tvímennt á stofum á deildinni og engin rúm fyrir makanna til að sofa í. Því má búast við enn meiri þrengslum sem leiðir af sér að konur verði útskrifaðar fyrr heim. Ljósmóðir á sjúkrahúsinu á Akranesi hefur lýst yfir áhyggjum af því að fleiri konur sæki þjónustu þangað þar sem þau eiga fullt í fangi með mönnunina þar nú þegar.

 3. Barnshafandi konum er bent á að leita fyrst á sína heilsugæslustöð nema ef um bráð veikindi eða byrjandi fæðingu er að ræða. Læknavaktin mun taka við símtölum og veita ráðgjöf í síma 1770 eftir lokun heilsugæslustöðva.
  Barnshafandi konur ættu í raun alltaf að leita fyrst á sína heilsugæslustöð nema ef um bráð veikindi eða byrjandi fæðingu er að ræða. Því er þetta í raun ekki úrræði.

 4. Konum sem nýlega hafa fætt barn er sömuleiðis bent á að leita fyrst á sína heilsugæslustöð, til heimaþjónustuljósmóður eða á Læknavakt, nema ef um bráð veikindi er að ræða.
  Sama á við um þetta úrræði. Ef boðskiptaleiðir hafa verið óskýrar fram til þessa þá er í raun ágætt að skýra þær. Fyrst á að leita til heimaþjónustuljósmóður á meðan konurnar njóta þeirrar þjónustu og á heilsugæslustöðina eftir það. Þó leita margar konur til Meðgöngu- og sængurlegudeildar eftir fæðingu með ýmis mál vegna þess að þá fá þær beint samband við ljósmæður. Sem er eðlilegt, þar sem hjúkrunarfræðingar og læknar á heilsugæslustöðvum eru ekki sérþjálfað starfsfólk í að sinna barnshafandi konum eða nýbökuðum mæðrum. Þó hefur álag á deildina verið að aukast mikið undanfarin ár og því er eðlileg krafa að beina símtölum og erindum annað. Þó væri auðvitað faglegast ef sérstök símavakt ljósmæðra myndi sinna þessum málum.

Þessi áætlun felur í sér litla úrlausn. Útskrifa á konur fyrr heim af spítalanum, dreifa þeim um landið og vona það besta.

Næsta skref

Í gær, sama dag og 12 ljósmæður lögðu skóna á hilluna og gengu út af LSH, samþykktu ljósmæður með 90% atkvæða að hefja verkfall á yfirvinnu ljósmæðra. Yfirvinnubannið nær til allra ljósmæðra sem starfa hjá ríkinu eftir kjarasamningi LMFÍ og fjármálaráðherra. Var kosningaþátttakan um 80% en einungis 6,3% kusu gegn yfirvinnuverkfalli og 3,7% skiluðu auðu. Var því um mjög afgerandi niðurstöðu að ræða. Mun verkfallið taka gildi um miðjan júlímánuð, ef til þess kemur.
Dag frá degi færist þannig aukin harka í kjaradeilur ljósmæðra og ríkisins. Deilurnar hafa nú þegar haft áhrif á gæði þjónustunnar sem er mikill miður, þó svo að alvarlegt hættuástand hafi ekki skapast enn. Sú hætta eykst þó með degi hverjum.

Ósanngjarnar kröfur ljósmæðra?

Ljósmæður eru með næsthæstu menntunarkröfur af aðildarfélögum innan BHM á eftir prófessorum. Samt eru þær í 7. neðsta sæti af 27 í launaröðun meðal grunnlauna aðildarfélaga BHM. Ljósmæður telja að þær eigi að raðast meðal þeirra hæstu, sé litið til menntunar og ábyrgðar þeirra í starfi, enda er ábyrgð í starfi ljósmæðra með því mesta sem gerist. Álag hefur aukist á ljósmæður undanfarin ár og ástæða þess að ljósmæður hafa hvergi hnikað í deilunni að sinni og standa nú keikar við samningaborðið er meðal annars að:

 1. Fjöldi bráðakoma barnshafandi kvenna á LSH hefur aukist umtalsvert (65% m.v. fyrstu fjóra mánuði áranna 2016-2018) en konur eru með fjölþættari og flóknari vandamál á meðgöngu nú en áður.
 2. Líkamsþyngdarstuðull Íslendinga hefur hækkað undanfarin ár og þ.m.t. hjá konum á barneignaraldri. Aukinni þyngd fylgja fleiri vandamál á meðgöngu, eins og t.d. meðgöngusykursýki og háþrýstingur sem krefjast aukins eftirlits.
 3. Bætt meðferð við ófrjósemi og aukin tækifæri til þungunar. Nú geta fleiri konur sem áður gátu ekki eignast börn orðið þungaðar og þurfa því aukið eftirlit og meðferð í gegnum allt ferlið.
 4. Greiningum á meðgöngusykursýki hefur margfalldast á einungis nokkrum árum þar sem greiningarviðmið voru lækkuð og eftirlit aukið.
 5. Gangsetningum hefur fjölgað en slíkar fæðingar taka oft lengri tíma og krefjast fleiri inngripa og meiri þjónustu.
 6. Innflytjendum hefur fjölgað til muna en þjónusta við þá krefst oftast meiri eftirlits og umfangs.

Hið aukna álag á ljósmæðrum sem er að einhverju leyti listað hér að ofan takmarkast við barneignarferlið. Vinnuálag ljósmæðra hefur þannig aukist umtalsvert án þess að fjármagn fylgi. Því ætti að vera auðvelt að rökstyðja afmarkaða launahækkun til þeirra aðila sem sinna barneignarferlinu, þ.e. ljósmæðra, ef viljinn er fyrir hendi. Aukinni þjónustu og eftirliti hefur ekki fylgt nægt fjármagn og/eða fjölgun stöðugilda. Þá eru nýliðun og heimtur í stéttinni er lélegar, en aðeins 4 ljósmæður hafa skilað sér til starfa á LSH eftir útskrift síðustu tvö ár. Einnig eiga ljósmæður ennþá inni vangreidd laun af hendi ríkisins frá árinu 2015 þegar þær fóru síðast í verkfall. Héraðsdómur dæmdi ríkið til að greiða þeim umrædd laun en ríkið áfrýjaði þeim dómi til Hæstaréttar. Enn á eftir að taka málið fyrir en til stendur að taka málið upp að nýju í haust. Ástæður óánægju ljósmæðra eru margar og því ekki að undra að ljósmæður séu búnar að fá nóg.

Óþolandi ástand

Núverandi ástand er óviðunandi. Það að ljósmæður og aðrar heilbrigðisstéttir ógni starfsemi heilbrigðisþjónustunnar á nokkurra ára fresti í kjaradeilum sínum hefur áhrif á gæði þjónustunnar. Slíkar aðgerðir koma langverst niður á notendum þjónustunnar. Afar mikilvægt er að útkoma þessarar deilu verði ekki sú að það dragi frekar út þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra í gegnum barneignarferlið. Umfang og fyrirkomulag þjónustunnar, fjöldi fæðingarstaða og samfella í þjónustu hefur mikið að segja um gæði hennar. Brotakennd þjónusta hefur fleiri vandamál í för með sér en samfella og því er grundvallaratriði að þessi deila verði ekki til þess að reyndar ljósmæður hverfi frá störfum sínum eins og stefnir í. Semja þarf sem allra fyrst við ljósmæður og finna varanlega lausn á því hvernig hægt sé að tryggja þeim og öðru heilbrigðisstarfsfólki góð kjör næstu ár svo ekki komi til aðgerða líkt og þessara á næstu árum.

Forystumenn verkalýðsfélaga og stéttarfélaga þurfa að sýna ábyrgð og koma sér saman um stefnu í kjaramálum þar sem menntun og ábyrgð í starfi er metin til launa. Í dag skortir samhljóm í kröfugerð þeirra sem gerir samningsaðilum erfitt fyrir.

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.