Keep calm and carry on playing

eftir Albert Guðmundsson

Þó svo að veðurspáin hafi mögulega svikið einhverja vongóða Íslendinga síðustu daga þá held ég að flestir séu sammála um að sumarið 2019 hefur verið með eindæmum gott. Líklega það besta sem ég man eftir. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það eitt að minnast á þessa staðreynd eykur líkurnar á því að það muni rigna fram að jólum. Eins og allir sem þekkja eitthvað til veðurfræða vita er auðveldasta leiðin til að hafa áhrif á íslenska veðrið til hins verra að tala vel um það og eina leiðin til þess að viðhalda góðu veðri er að við látum öll eins og það komi okkur sífellt á óvart þegar vel viðrar.

Það er auðvitað frábært að hafa gott veður en ég kemst ekki hjá því að finna fyrir einhverri ónotatilfinningu.  Er þetta ekki of gott til að vera satt? Því ef svo er sem sýnist, að þetta sé hluti af þeirri þróun sem fylgir hlýnun jarðar, þá eru einhverjir jarðarbúar að fara að koma mjög illa út úr þessum nýja raunveruleika samanborið við okkur Íslendinga. Eins og ég elska að geta spilað frisbí daglega og planað grill meira en tvær klukkustundir fram í tímann þá er ekkert gaman að vita að á sama tíma er fólk að deyja úr hita í löndum í kringum okkur.

Ég er nú samt ekki kominn á þann stað að ég þjáist af „sólviskubiti“ eða hvað það kallast þetta nýja hugtak. Að leyfa sér ekki að njóta góða veðursins vegna þess að það er afsprengi hnattrænnar hlýnunar.

En þökk sé framsæknara fólki en mér sjálfum þá hefur hugsunarhátturinn samt breyst á síðustu árum og ég fæ núna t.d. sting í magann þegar ég hendi plasti. Það er ennþá langt í land en eitthvað er betra en ekkert. Ég tek mér tíma í að flokka, reyni að keyra minna, afþakka pokann og plaströrið og allt það jazz. Ég segi ekki að það sé þægilegt eða skemmtilegt að vera með hugann stöðugt við þessa hluti en það er samt eitthvað gott við að vera vakandi.

En ástæðan fyrir því að ég er kannski að hugsa meira um þessi hluti núna en vanalega er sú að ég akkúrat staddur á flugvelli á leiðinni í sólarlandaferð. Flugvellir eru svo sem ekkert óvenjulegir staðir til að finna mig á. Ég hef unnið sem flugþjónn síðustu ár og flogið svo mikið að hann þyrfti líklega að gróðursetja heilan regnskóg til að kolefnisjafna mína tilvist. Ég er samt agalega lítið hrifinn af flugvöllum og engir staðir fylla mig jafn auðveldlega af bölsýni og hvergi hef ég minni trú á samborgurum mínum en nákvæmlega þar. Þegar þetta er skrifað hef ég verið fastur á Gatwick flugvelli í London í tæpan sólarhring og það er líklega ástæðan fyrir því að ég er einkar móttækilegur fyrir heimsendaspám í augnablikinu.

Til þess að drepa tímann á meðan ég beið eftir flugi (sem síðan var fellt niður) renndi ég í gegnum helstu innlendu og erlendu fréttaveiturnar. Fátt þar var til þess að lyfta brúnunum. Tvennt stóð upp úr og tengdist áhyggjum mínum af því hvernig við erum að koma fram við plánetuna okkar. Annars vegar var það spá sem frönsk fréttastöð gerði árið 2017 fyrir veðurfar í Frakklandi árið 2050 þar sem búist var við því að hitastig myndi hækka ákveðið mikið. Þegar þessi spá var borin saman við hitastig júnímánaðar 2019 þar í landi sást glögglega að þessar dómsdagsspár höfðu þegar ræst ekki nema rúmlega 30 árum á undan svartsýnustu spám, tveimur árum eftir að þær voru gerðar. Hin fréttin var öllu jákvæðari en þar var fjallað um að gosdrykkjarisarnir Pepsi og Coca Cola væru að undirbúa það að segja skilið við plastflöskur. Þegar betur var að gáð var svo ekki að sjá að það skref yrði stigið til fulls fyrr en árið 2030. Hvað ætli verði orðið heitt í Frakklandi þá?

Til þess að létta lundina þá ákváðum við frúin að hætta að fóðra þunglyndið með neikvæðum fréttum og fara frekar í bókabúðina á Gatwick og finna okkur afþreyingu. Ég keypti mér bókina Húðflúrarinn í Auschwitz (hvað ætli sé eiginlega að?) og greip svo með spilastokk. Á stokknum stóð Keep calm and carry on playing sem er auðvitað skopskæling af frægu Bresku veggmyndunum sem einhver ákvað að væri hægt að útfæra fyrir hvaða tilefni sem er. Ég hugsaði með mér „Fullkomið, algjörlega fullkomið“. Þessi litli spilastokkur súmmeraði einhvern veginn allt það sem ég var búinn að hugsa þennan dag. Fyrir mér gat hann verið táknmynd heillar kynslóðar. Ég hef aldrei tengt jafn mikið við börnin á öryggisspjöldunum í flugvélunum. Skælbrosandi á meðan þau hoppa frá borði í björgunarvestunum sínum. Þessi stokkur var mín fiðla og ég var tilbúinn að spila.

Ég vona innilega að ég hafi ekki náð að skemma fyrir neinum daginn með þessum skrifum mínum enda var ætlun mín einungis að skrifa broslegan pistil um einhvern erfiðasta dag sem ég hef upplifað. En við hljótum nú samt að vera öll sammála að umhverfismál eru ekkert grín ef út í það er farið og munu þau hiklaust hafa mikil áhrif á líf okkar til frambúðar. Það er undir okkur öllum komið að leggja okkar af mörkum til að hlúa að umhverfinu okkar og hlutverk stjórnvalda og fyrirtækja að sjá til þess að við höfum tólin til þess. En nú er þessi pistill algjörlega runninn frá mér en það skiptir litlu, ég er kominn á sundlaugabakkann á Tenerife með 50+ sólarvörnina og spilastokkinn góða. Ég held ég spili Skítakall, finnst það ljóðrænt. Ég stokka rækilega og gef.

Keep calm and carry on playing

Þú átt að gera.

Albert Guðmundsson

Pistlahöfundur

Albert Guðmundsson er laganemi við Háskóla Íslands og fyrrverandi formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Albert starfar sem flugfreyja hjá Icelandair og er fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hann hefur einnig setið í stjórn Vöku fls. og Stúdentaráði. Helstu áhugamál hans eru stjórnmál og lögfræði.