Kattafælingarsjóður

eftir Kristófer Már Maronsson

Ein af mínum fyrstu minningum er þegar ég var ungur að árum, sennilega fimm ára gamall og hafði ekki enn hafið grunnskólagöngu. Ég var úti í garði fyrir utan heimili mitt á Akranesi, að leika mér með pokémon. Á þeim tíma var í Einarsbúð hægt að kaupa pokébolta með nammi og litlum pokémon. Ég dundaði mér oft við það að skilja Charmander, Bulbasaur og Squirtle eftir víðsvegar í garðinum og kastaði svo pokékúlum í þá til þess að fanga þá. Þetta var löngu fyrir tíma snjallsímavæðingar og Pokémon GO. Eitt skiptið átti köttur leið um garðinn og af einhverri gleymdri ástæðu ákveð ég að taka sæta köttinn upp. Að launum klóraði hann mig frá olnboga niður að lófa og ég hljóp grenjandi inn til mömmu með þrjár blóðrendur á hendinni. Kettir hafa ekki verið sætir í síðan þá.

Afhverju mega kettir ganga lausir?

Þessi lífsreynsla mín ól af sér mikla hræðslu við ketti. Ég er enn þann dag í dag hræddur við ketti. Ég sýni því þó fullan skilning og ber virðingu fyrir því að fólk vilji eiga ketti, öllum er frjálst að eiga gæludýr að sínu skapi. Ég skil hinsvegar ekki og get ekki fundið haldbær rök fyrir því að ávinningur sé af því fyrir samfélagið að kettir gangi lausir í þéttbýli. Það er eflaust margt gott við það fyrir kettina sjálfa, alveg eins og það er gott fyrir hunda að fá að vera lausir af og til. Það er þó bannað í Reykjavík nema á tilgreindum svæðum. Ég skil það mjög vel, margir eru hræddir við hunda. Þeir geta verið ógnvekjandi og sumir bíta. Kettir eru ógnvekjandi og sumir klóra. Furðulegt að reglurnar séu svona mismunandi, en það er hægt að sýna því ákveðinn skilning. Það er þó að mínu mati pottur brotinn.

Lausaganga katta skerðir lífsgæði

Kettir geta klórað börn, kúkað í sandkassa, pissað þar sem þeim sýnist, komið óboðnir inn í hús og gefið frá sér ýmiskonar hljóð, meðal annars sem líkist barnsgráti. Hversu títt hvert og eitt er ætla ég ekki að segja til um, en ég hef upplifað hvert og eitt atvik sjálfur og sum oftar en einu sinni. Ég hef þó aldrei séð eiganda koma og týna kúkinn úr sandkassanum, líkt og ég tek upp eftir tíkina mína. Ég er þó alls ekki að halda því fram að hundar geti ekki gert þessa hluti líka. Þeir fá yfirleitt bara ekki tækifæri til þess, sem er gott. Í samþykkt á vegum Reykjavíkurborgar skal halda ketti þannig að þeir valdi ekki hávaða, ónæði, óþrifnaði eða óhollustu. Ef köttur veldur nágranna ónæði, óþrifum eða tjóni, ber eiganda eða forráðamanni að koma í veg fyrir slíkt. Þessu er erfitt að fylgja eftir.

Þá er áhugavert að skoða hvað dýraverndarsamtökin PETA segja um útiketti, en þar er lagt til að eigendur katta sem vilja hleypa þeim út fari með þá í ólum eða geri svæði í garðinum sínum til þess að kettir komist ekki burt frá því og benda á marga ókosti þess að hafa ketti lausa. Þar með ber kattaeigandinn kostnaðinn, sem er mun betra en að nágranninn beri kostnað af kettinum.

Það kostar að halda köttum í burtu

Margir vilja ekki ketti í garðinum sínum. Það vakti athygli sumarið 2015 þegar að Sigurður Þór Helgason skrifaði um það á Facebook-síðu sinni að hann væri búinn að eyða um 150 þúsund krónum í efni, ný tjöld, leikföng, flísar á gólf í anddyri, ný áklæði og hátíðnivælu vegna katta en ekkert lagaðist. Þá fann hann loks lausn og keypti á Amazon tæki með hreyfiskynjara sem sprautar á kettina þegar það tekur eftir þeim og þeir flýja úr garðinum. Tæki sem kostar 80 dollara án flutnings og virðisaukaskatts.

Það er áhugavert að hugsa til Ronald Coase og kenninga hans í þessu samhengi. Margir vilja eiga ketti og geta hleypt þeim út en aðrir vilja ekki verða fyrir áreiti af köttunum. Þessir aðilar gætu mögulega samið um þóknun sem kattaeigandi greiðir nágrönnum fyrir að fá að eiga kött, en fyrir þóknunina gætu nágrannar gert ráðstafanir til þess að kötturinn komi ekki í garðinn til þeirra. Það er kannski fullmikill viðskiptakostnaður sem felst í því að fá kattaeigendur og nágranna til þess að fara í þessar samningaviðræður, sem gæti skapað aðstæður fyrir inngrip hins opinbera.

Kattafælingarsjóður

Mér þætti áhugaverð samfélagsleg tilraun að sveitarfélög myndu standa straum af kostnaði fólks við að halda köttum úr görðunum sínum, en þessum kostnaði yrði skipt niður á kattaeigendur sem hleypa köttunum sínum úr húsi. Kattaeigendur yrðu því rukkaðir árlega til þess að búa til sjóð sem að aðrir geta þá sótt styrki fyrir tækjum líkt og þeim sem Sigurður keypti sér. Gjaldið fyrir að eiga kött yrði breytilegt, eftir því hversu mikið sveitarfélagið úthlutaði úr sjóðnum árið áður. Kannski myndi það lægja öldurnar, milli þeirra sem verða fyrir ónæði af köttum og þeirra sem vilja hleypa köttunum út. Þess virði að prófa að mínu mati.

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.