Kappið um kjörmennina – hvernig fara forsetakosningar í Bandaríkjunum fram?

eftir Birta Austmann Bjarnadóttir

Forsetakosningar hafa verið fyrirferðamiklar í fjölmiðlum það sem af er ári, þá sérstaklega komandi kosningar um forseta Íslands þann 25. júní og ekki síður um forseta Bandaríkjanna sem fram fer 8. nóvember næstkomandi. Þó að í báðum tilvikum sé verið að kjósa til forseta er þó um ólík embætti að ræða sem og ólík kosningakerfi. Þó að deilt sé um hvað nákvæmlega felist í embætti forseta Íslands er almenn sátt um að forsetinn sé frekar sameiningartákn og andlit okkar út á við frekar en að embættið sé mjög valdamikið. Hinsvegar er talað um forseta Bandaríkjanna sem valdamesta embætti í heimi. Hér á landi er forsetinn kosinn með beinni kosningu á meðan að forseti Bandaríkjanna er kosinn með óbeinni kosningu þar sem kjörmenn kjósa forsetann. Þegar almenningur fer á kjörstað og kýs er hann því í raun að kjósa kjörmenn fyrir sitt ríki. Kosningafyrirkomulag Bandaríkjamanna hefur verið gagnrýnt fyrir það að vera ólýðræðislegt og er þar nærtækast að benda á forsetakosningarnar árið 2000 þegar Al Gore tapaði fyrir George W. Bush þrátt fyrir að vera með fleiri atkvæði þar sem Bush hafði fleiri kjörmenn.

Hvað er þetta kjörmannakerfi?
Það kemur frekar spánskt fyrir sjónir þegar lesnar eru fréttir um framvindu mála í forsetakosningunum í Bandaríkjunum að fylgið er mælt í kjörmönnnum, og ekki verður þetta skiljanlegra þegar farið er að tala um ofurkjörmenn. Og þetta verður enn óskiljanlegra þegar í ljós kemur að bæði eru kjörmenn innan stjórnmálaflokkanna, sem koma að vali þess forsetaframbjóðanda sem flokkurinn tilnefnir, og síðan eru líka kjörmenn ríkjanna í hinum eiginlegu forsetakosningum.

Kjörmenn stjórnmálaflokkanna
Þó að í Bandaríkjunum séu margir stjórnmálaflokkar stendur valið oftast á milli frambjóðenda tveggja flokka, það er Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins. Flokkarnir hafa mjög svipaða leið við það að velja sér forsetaframbjóðanda, en það er gert á landsþingi viðkomandi flokks. Þar eru samankomnir kjörmenn frá hverju fylki fyrir sig, og standa þeir í raun sem atkvæði frá viðkomandi fylki fyrir þá sem í framboði eru. Stjórnmálaflokkurinn ákveður hversu marga kjörmenn hvert fylki fær á landsfundinum og eru prófkjör innan ríkjanna um hvaða frambjóðanda kjörmennirnir standa fyrir. Prófkjörin eru frá lok janúar til um það til miðjan júní, misjafnt eftir fylkjum.
Prófkjör flokkanna fara fram með tvennum hætti, venjulegt prófkjör eða kosningafundir. Í beinu prófkjöri er kosið á milli manna og sá sem hlýtur flest atkvæði sigrar. Á kosningafundum er fundir haldnir víða í kjördæmunum í allt frá heimahúsum til flokksskrifstofa þar sem fulltrúar frambjóðendanna mætast og reyna að sannfæra sem flesta um hvern skuli kjósa. Eru niðurstöður þessara kosningafunda lagðar saman, það er fjöldi sigra, og sá sem flesta sigra hlaut verður sigurvegari fylkisins. Repúblikanar hafa þann háttinn á að þeir úthluta fulltrúum á landsþingið á þann veg að sá frambjóðandi sem hlýtur meirihluta í kosningum í fylkinu fær alla kjörmennina í því fylki (e. Winner takes all) á meðan Demókratar úthluta sínum fulltrúum hlutfallslega.
Demókrataflokkurinn hefur einnig svokallaða ofurkjörmenn, en það eru kjörmenn sem hafa kosningarétt í krafti stöðu sinnar innan flokksins. Þeir mega styðja hvern þann frjambjóðanda sem þeir vilja og eru ekki bundnir við kosningar innan ríkjanna. Ofurkjörmenn Demókrataflokksins eru 719 talsins og eins og staðan er núna styður meirihluti þeirra Hillary Clinton.
Ekki er um eiginlega ofurkjörmenn að ræða hjá Repúblikanaflokknum, en þar eiga þó frá hverju fylki þrír fulltrúar sæti sem einhverskonar ofurkjörmenn, en þeir hafa þó ekki frjálsar hendur við val á frambjóðanda eins og ofurkjörmenn Demókrataflokksins.
Á landsþinginu er farið yfir fjölda kjörmanna sem hver frambjóðandi hlýtur og komist að niðurstöðu um hver hljóti útnefningu flokksins til forsetaframboðs. Landsþing Repúblikana verður haldið í Cleveland dagana 18.-21. júlí næstkomandi. Landsþing Demókrata verður haldið í Fíladelfíu dagana 25.-28. júlí.

Kjörmenn í forsetakosningunum
Í hinum eiginlegu forsetakosningum er einnig notast við kjörmenn. Bandaríkjamenn styðjast við óbeint kosningakerfi sem þýðir að kjörmenn, sem skipaðir eru af ríkisþingum ríkjanna 50, velja forseta. Á kjördag er kosið innan ríkjanna, atkvæðin eru talin og sá frambjóðandi sem flest atkvæði hlýtur fær stuðning viðkomandi ríkis og kjörmenn þess (e. Winner takes all), nema í Nebraska og Maine sem eru með sérstaka útgáfu af hlutfallskerfi, þar geta kjörmenn skipst niður á milli frambjóðenda. Skipting kjörmanna hefur þó aldrei átt sér stað í Maine og gerðist í fyrsta skipti í Nebraska árið 2008 þegar Obama fékk einn kjörmann. Ríkin eiga jafn marga kjörmenn og þau eiga af fulltrúum í efri og neðri deild þingsins. Auk þess fær District of Columbia þrjá kjörmenn, þó að það sé í rauninni ekki ríki. Í heildina eru 538 kjörmenn og þarf að minnsta kosti 270, það er hreinan meirihluta, til þess að sigra.
Ekki kemur fram í alríkislögum eða í stjórnarskránni að kjörmenn séu bundnir til þess að kjósa þann sem hlaut flest atkvæði í kosningunum. Fylkin eða flokkarnir geta þó sett slíka reglur. Enn eru 24 fylki sem hafa ekki sett lög um það hvernig kjörmenn skuli kjósa. Þrátt fyrir það hefur þetta ekki skapað vandamál því kjörmenn virðast vera trúir flokknum sínum og hinum almenna kjósanda og hafa kosið þann sem vann almennu kosningarnar.
Með kjörmannafyrirkomulaginu er vægi atkvæða misjafnt, í hinum fjölmennari ríkjum eru fleiri íbúar á bakvið einn kjörmann en í hinum fámennari. Því getur sú staða komið upp að sá sem sigrar forsetakosningarnar með fleiri kjörmönnum hafi ekki endilega verið með meirihuta atkvæða eða töluvert minna fylgi en fjöldi kjörmanna gefur til kynna. Skýrt dæmi um þetta er þegar Ronald Reagan vann forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 1980 með 489 kjörmönnum, það er 91% af heildarfjölda kjörmanna. Hinsvegar var hann aðeins með 55% almennra atkvæða. Skoðanakannanir sýna að frekar mikil óánægja ríkir meðal Bandaríkjamanna með kjörmannakerfið og er töluverður stuðningur við beinar kosningar, þá helst í hinum fjölmennari ríkjum og meðal Demókrata. Komi sú staða upp að enginn nái meirihluta kjörmanna eða að kjörmenn skiptist jafnt milli frambjóðenda er það fulltrúadeildin sem skal kjósa um forseta. Öldungadeildin kýs um varaforseta.

Kosningarnar 2016
Eins og staðan er núna í herbúðum Demókrata hefur Hillary Clinton fleiri kjörmenn á bak við sig en Bernie Sanders, það má einna helst rekja til þess að hún virðist hafa breiðan stuðning ofurkjörmanna Demókrataflokksins. Þá virðast kosningasjóðir Sanders vera að tæmast hraðar en hjá Clinton. Hjá Repúblikönum er Donald Trump með flesta kjörmenn á bak við sig og þykir líklegast að hann hljóti útnefningu Repúblikanaflokksins. Því stefnir allt í baráttu milli Trump og Clinton, en samkvæmt skoðanakönnunum er staðan milli þeirra hnífjöfn og erfitt að geta sér til um hvort sé líklegra til sigurs.
Hillary Clinton hefur sætt gagnrýni fyrir að hafa notað eigið netfang fyrir tölvupóst í embættiserindum þegar hún var utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Nýlega kom út rannsóknarskýrsla sem staðfestir þessa gagnrýni. Auk þess er FBI að rannsaka málið þar sem það að nota eigið netfang í þessum tilgangi er brot á alríkislögum. Clinton segir gjörðir sínar ekki stangast á við gjörðir forvera sinna og mál hennar sé því ekki einstakt. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir að það að sýna lítinn samstarfsvilja við rannsókn málsins sem og að hafa ekki verið fullkomlega heiðarleg í yfirlýsingum sínum um málið. Gæti þetta haft áhrif á stöðu Clinton í kosningunum? Gagnrýnirsraddir hafa verið uppi um að ef hún ætli sér að verða forseti verði hún að koma með betri skýringu en það að allir hinir gerðu þetta líka. Bernie Sanders hefur ekki beitt tölvupóstmálinu gegn henni í kosningabaráttunni en ólíklegt þykir að Trump muni ekki nota það gegn henni. Þetta er því eitthvað sem Demókratar þurfa að horfa til varðandi útefningu sína, en því hefur verið velt upp að þetta mál gæti að lokum orðið til þess að Clinton tapi gegn Trump.
Hilton og Trump virðast þó almennt vera frekar óvinsæl meðal almennings. Þá hafa kjósendur beggja flokkað viðrað þær hugmyndir að kjósa þriðja aðila frekar en þau, verði þau útnefnd. Þar hefur helst verið nefndur Gary Johnson sem sækist eftir útnefningu Libertarians eða frjálslynda flokksins. Þó að það sé nærri ómögulegt að frambjóðandi sem tilheyrir ekki Demókrataflokknum eða Repúblikanaflokknum standi uppi sem forseti Bandaríkjanna er Gary Johnson vissulega nafn sem er þess virði að fylgjast með hljóti hann útnefningu síns flokks.Fari eins og allt bendir til er ekki úr vegi að segja að Bandarískir kjósendur séu milli steins og sleggju í komandi forsetakosningum.

Ljósmynd: Håkon Broder Lund.

Birta Austmann Bjarnadóttir

Pistlahöfundur

Birta er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði og lögfræði frá Háskóla Íslands ásamt meistaragráðu í lögfræði frá sama skóla. Birta starfaði á viðskiptasviði Íbúðalánasjóðs samhliða námi en starfar núna hjá Þjóðskrá Íslands. Hún hefur setið í stjórnum Vöku fls. og stjórn Politica, félags stjórnmálafræðinema auk nefndarsetu í ráðum Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Háskólaþingi.