Kaldur gustur veiðigjaldsins blæs um landsbyggðina

eftir Friðrik Þór Gunnarsson

Það hefur vart farið framhjá mörgum að veiðigjald í sjávarútvegi hækkaði gríðarlega við upphaf fiskveiðiársins 2017-2018. Breytingarnar grundvölluðust einkum á stórauknum stofni til veiðigjalds ásamt niðurfellingu sérstakra skuldaafslátta sem gilt höfðu. Sé tímabilið september til desember 2017 borið saman við sama tímabil fyrir árið 2016 þá hækkuðu greiðslur sjávarútvegsfyrirtækja um 103,55%, eða rétt rúmlega tvöfölduðust. Ekki verður farið í smáatriði við framkvæmd álagningar veiðigjalds, en nægir að nefna að gjaldið leggst misþungt á fisktegundir, fyrirtæki og landshluta. Þá er einnig til þess að líta, að núna er verið að greiða veiðigjald af afkomu greinarinnar árið 2015, en aðstæður í dag er allt aðrar.

Sérstaklega hefur þetta komið sér illa fyrir fyrirtæki sem geta ekki hagrætt, búa ekki að sterkum viðskiptatengslum og glíma almennt við þungan rekstur.

Sjávarútvegur er burðarás á landsbyggðinni

Þegar gluggað er í gögn Byggðastofnunar um uppruna tekna má sjá, að 2,2% tekna íbúa á höfuðborgarsvæðinu má rekja til sjávarútvegs. Ef litið er til annarra landshluta blasir önnur staða við. Á vestfjörðum standa t.d. fiskveiðar og fiskvinnsla undir hátt í þriðjung af atvinnutekjum. Vægi sjávarútvegs er raunar meira en 10% alls staðar nema á höfuðborgarsvæðinu. Þegar litið er til einstakra sveitarfélag er hlutfallið hæst í Vestmannaeyjum, 43,6%, en það er svipað á Snæfellsnesi og í Grindavík. Meðaltalið á landsbyggðinni er 16,6%, eða næstum því átta sinnum hærra en það er á höfuðborgarsvæðinu.

Veiðigjaldið hefur verið nefnt „landsbyggðarskattur“ af þeirri einföldu ástæðu að greiðsla gjaldsins kemur að mestu leyti frá fyrirtækjum á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu eru vissulega fáein stór og burðug fyrirtæki, en vægi þeirra í efnahagslífi nærumhverfisins er ekkert í líkingu við það sem gerist á landsbyggðinni. Á tímabilinu september til desember 2017 var tæplega 81% af veiðigjaldagreiðslum frá fyrirtækjum utan höfuðborgarsvæðisins. Hækkun veiðigjalds er mest í Norðvestur kjördæmi, rúm 142%, en rúmlega helmingi minni í Reykjavík, eða 67%.

Þá getur einnig verið athyglisvert að skoða sveitarfélögin hvert í sínu lagi. Á tímabilinu september-desember árið 2017 greiddu fyrirtæki í Grindavíkurbæ rúma 451 milljón króna í veiðigjald, sem svarar til um 140 þúsundum króna á hvern íbúa. Til samanburðar greiddu fyrirtæki í Reykjavík rúmar 634 milljónir; aðeins um 5 þúsund krónur á hvern íbúa.

Burðarstólpar sveiflast til og frá

Sjávarútvegur á Íslandi er fjölbreyttur. Álagning veiðigjalds byggist á tveggja ára gömlum gögnum og styðst við meðaltalsafkomu í greininni. Hjá mörgum fyrirtækjum er veiðigjaldið nú orðið næst stærsti einstaki gjaldaliðurinn, á eftir launum. Það má enn fremur vera ljóst að fyrirtækin eru misvel í stakk búin til þess að takast á við svo mikla hækkun á einum gjaldalið. Og mörg þeirra sem hvað lökust voru stödd, hafa fengið á sig mesta hækkun. Fjöldi fólks; sveitarstjórnarfólk, smábátaeigendur, sjómenn, fiskverkafólk og fjölmargir íbúar sveitarfélaga sem reiða sig á einn eða annan hátt á sjávarútveg hafa kvatt sér hljóðs og lýst áhyggjum af hækkuðum veiðigjöldum. Það er full ástæða til þess að hlusta á raddir þeirra sem vita að „lífið er saltfiskur“.

Friðrik Þór Gunnarsson

Pistlahöfundur

Friðrik Þór er hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann er víðförull og hefur búið bæði í Bandaríkjunum og London. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi Vöku fls. og var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík frá 2017 til 2018.