Jón er ekki sama og séra Jón

eftir Kristinn Ingi Jónsson

Þó svo að það kunni að hljóma undarlega, þá er Ísland skattaskjól, að minnsta kosti að ákveðnu leyti. Stjórnmálamenn hafa í mörg ár reynt að laða hingað til lands alþjóðleg stórfyrirtæki með loforðum um litla eða enga skatta. Á sama tíma hafa þessir sömu stjórnmálamenn hins vegar fordæmt harðlega þá Íslendinga sem hafa flúið til lágskattaríkja til þess að lágmarka skattgreiðslur sínar. Tvískinnungurinn gerist varla meiri.

Hér á landi eru ekki allir jafnir fyrir skattayfirvöldum. Íslensk stjórnvöld hafa nefnilega markvisst unnið að því að búa til tvöfalt skattkerfi: eitt sem gildir fyrir útvalin fyrirtæki og annað sem við hin þurfum að sætta okkur við. Gerðir hafa verið fjölmargir samningar á undanförnum árum um ívilnanir og skattaafslætti til handa aflþynnuverksmiðjumálverum, gagnaverum, fiskvinnslumfiskeldisfyrirtækjum, kvikmyndaframleiðendum og kísilverksmiðjum, svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd, og þeim þannig veitt öruggt skjól fyrir gjöldum og sköttum sem önnur fyrirtæki þurfa að standa sómasamlega skil á.

Rökin fyrir skattalegum ívilnunum gagnvart sumum fyrirtækjum eru einkum þau að án ívilnananna kæmu fyrirtækin ekki hingað til lands. Við yrðum þannig af heilmiklum gjaldeyristekjum og fjölmörgum störfum og hagvöxtur yrði minni en ella. Gott og vel. En með ívilnununum eru stjórnvöld um leið, án þess að segja það upphátt, að fella dóm yfir skattkerfinu og viðurkenna að skattastefna þeirra, sem þau hika ekki við að bjóða okkur hinum upp á, sé dragbítur á fjárfestingu og hagvöxt. Þau eru með öðrum að viðurkenna að almenn skilyrði til atvinnurekstrar séu ekki í lagi og því þurfi að veita útvöldum fyrirtækjum undanþágur frá hinu almenna.

Eitt helsta verkefni stjórnvalda á hverjum tíma er að skapa atvinnulífinu heilbrigt og lífvænlegt umhverfi. Ívilnanasamningar eru hins vegar yfirlýsing um hið þveröfuga – að kerfið sé einfaldlega gallað. Það hefti frumkvæði manna, dragi úr fjárfestingu og komi í veg fyrir að fyrirtæki geti hér vaxið og dafnað.

Tækifærið býðst ekki öllum

Það er fullkomlega eðlilegt og ekki síður skiljanlegt að fyrirtæki reyni með einhverjum hætti að ganga til samninga við stjórnvöld um ívilnanir og koma sér þannig í skattalegt skjól. Allir myndu reyna að grípa slíkt tækifæri. En vandinn er sá að tækifærið stendur ekki öllum til boða, heldur aðeins útvöldum fyrirtækjum í útvöldum atvinnugreinum. Það er ekki sama Jón og séra Jón.

Og það sem verra er, þá hafa stjórnmálamenn það í hendi sér hver fríðindin eru og eins hverjir fá að njóta þeirra. Í gamla daga voru biðstofur ráðamanna fullar af fólki úr atvinnulífinu sem vildi kría út persónulegar reddingar og vaða í opinbera sjóði, eins og lenskan þá var. Biðstofurnar tæmdust hins vegar smám saman eftir því sem ríkið dró úr afskiptum sínum af atvinnulífinu á tíunda áratug síðustu aldar og þurftu fyrirtæki þá að læra að standa á eigin fótum. Hins vegar eru skýr merki um að á undanförnum árum, sér í lagi eftir að sett voru sérstök lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga árið 2010, hafi fjárfestar komið sér í auknum mæli fyrir á biðstofu iðnaðarráðuneytisins og beðið þar færis til þess að semja sig undan þeim sköttum og skyldum sem aðrir þurfa að búa við.

Lægri skattar fyrir alla – ekki suma

Stjórnmálamönnum finnst að sjálfsögðu ekki verra að geta valið – eftir geðþótta – fyrirtæki til þess að ívilna. Hvað þá ef fyrirtækið starfar í kjördæmi þeirra. Þannig geta þeir barið sér á brjóst fyrir kosningar og þakkað sér ný atvinnutækifæri í kjördæminu. Það er til dæmis frægt þegar Steingrímur J. Sigfússon, þá atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, tryggði kísilveri í landi Bakka í Norðurþingi, sem er í kjördæmi sínu, veruleg foréttindi umfram önnur fyrirtæki, meðal annars í formi skattaívilnana, aðeins skömmu fyrir þingkosningarnar 2013.

Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að hafa skoðun á því hvort tiltekin fyrirtæki séu betri eða mikilvægari en önnur. Þeirra hlutverk er að semja sanngjarnar og skýrar leikreglur sem gilda jafnt fyrir alla.

Auðvitað má ekki álasa stjórnmálamönnum fyrir að vilja örva fjárfestingu í atvinnulífinu. En ef þeir telja að skattar séu það háir að þeir komi í veg fyrir slíka fjárfestingu ættu þeir ekki að lækka skatta á lítinn hóp útvalinna fyrirtækja. Lausnin felst fremur í því að lækka skatta á alla. Allir eiga nefnilega rétt á sömu lágu og sanngjörnu sköttunum.

Kristinn Ingi Jónsson

Pistlahöfundur

Kristinn Ingi er laganemi við Háskóla Íslands og viðskiptablaðamaður á Fréttablaðinu. Skrif hans í Rómi beinast helst að stjórnmálum, viðskiptum, lögfræði og hagfræði.