Jólakveðja til lesenda

eftir Arnór Bragi Elvarsson

Rómur óskar lesendum nær og fjær sem og landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar.

Rómur varð þriggja ára á árinu, varð fullgilt félag og er farið að geta staðið á eigin fótum. Árið 2019 hófst samstarf við Vísi svo Rómur berst nú betur til sjávar og sveita. Starfsemin er öll rekin í sjálfboðastarfi höfunda og ritstjórnar en það þýðir þó ekki að uppskeran sé rýr.

Á Rómi birtust hátt í hundrað greinar í ár um hin ýmsu málefni, mörg þeirra hluti af umræðu sem erfitt er að taka á. Nokkrar greinar birtust um málefni fjölmiðla sem eru á krossgötum þessa dagana auk stjórnmálaskýringa, bæði innlendra og erlendra. Tekið var á umræðum um sjálfsvíg og þungunarrof auk ádeilu á hvata lyfjageirans og svo mætti lengi telja. Höfundahópurinn er fjölbreyttur og efnisvalið eftir því, sem er líklega það skemmtilegasta við efnið á Rómi.

Við ætlum að njóta hátíðanna til 3. janúar og byrja aftur á fullu þá með hugvekju um velvakandi samfélag á nýju ári. Við óskum þér, lesandi góður, gleðilegs nýs árs, þökkum fyrir samfylgdina á liðnu ári og hlökkum til samfélagsumræðu á hinu nýja, í samfloti með þér.