Jól 2020

eftir Ritstjórn

Öðruvísi jól ganga nú í garð eftir sérstakt ár fyrir okkur öll. Engan gat órað fyrir því sem beið rétt handan við nýja árið, þegar við héldum jól 2019 með hefðbundnum hætti. Jólaboð, stórar veislur og heimsóknir til fjölskyldu og vina. Hátíðirnar snúast einmitt um þetta. Nánd, kærleik og notalegar samverustundur á þessum tíma árs þegar lífið skiptir um takt á þeim náttúrulegu tímamótum þegar daga fer að lengja að nýju.

Fyrst verður ösin meiri, allt þarf að undirbúa og græja, skreyta og elda, áður en ró og næði færist yfir okkur  á aðfangadag. Þetta breyttist töluvert í ár.

En sjálf jólahátíðin mun lifa faraldurinn af. Sagan sýnir okkur að hátíðin lætur hvorki sóttir né stríð stöðva sig. Jólahátíðin aðlagast vel að breyttum aðstæðum. Annars væri hún varla lengur til. Kærleikurinn býr áfram í okkur og eftirvæntingin eftir að geta aftur hitt fjölskyldu og vini án takmarkana gerir komandi ár enn betra.

Nýtum jólin í ár til að hugsa fallegar hugsanir, sendum vinum og ættingjum fallegar kveðjur og minnum hvort annað á það sem bíður handan óvissunnar. Jólin 2020 snúast um það.

Rómur óskar þér og þínum gleðilegra jóla.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.