Jöfn staða kvenna – Ísland og heimurinn

eftir Kolfinna Tómasdóttir

Í ár snýr alþjóðlegur baráttudagur kvenna um betra jafnvægi og fer fram undir formerkjum myllumerkisins #BalanceforBetter. Þrátt fyrir að Alþjóðlegur baráttudagur kvenna hafi verið haldinn frá 1911 er kynjajafnrétti enn ekki náð, það er fjarri lagi. Við erum enn að og þrátt fyrir að mesta jafnrétti heims megi finna á Íslandi þá erum við ekki búin að klára dæmið. Jafnrétti kynjanna er grundvallaratriði velmegandi heims, en konur munu aldrei öðlast almennileg tækifæri til árangurs í atvinnulífinu ef við sameinumst ekki um að fjarlægja þær hindranir sem eru til staðar.

Jákvæðar breytingar í hinum stóra heimi

Samkvæmt nýrri skýrslu World Global Bank hafa konur að meðaltali um ¾ af þeim réttindum sem karlar hafa. Lög og reglugerðir halda áfram að hindra fjölda kvenna til að geta nýtt krafta sína í atvinnulífinu eða stofnað eigið fyrirtæki. Fordómar sem grasserast í heilu samfélögunum gegn konum geta haft varanleg áhrif á efnahagslega þátttöku sem og atvinnuþátttöku þeirra, en samkvæmt skýrslunni þá hafa hagkerfi þeirra þjóða sem flöskuðu á aðgerðum er varða kynjajafnrétti séð minni aukningu á hlutfalli kvenna á atvinnumarkaðinum sem og hlutfalli kvenna í karllægum geirum á síðustu 10 árum. Efnahagslegur ávinningur kynjajafnréttis hvetur fyrirtæki og ríkisstjórnir til að setja lög og regluverk um jafna þátttöku kynjanna, en samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna hefur jafnrétti kynjanna bein áhrif á efnahagslíf heimsins. Hagnaður á hlut, arðsemi eigna og arðsemi eigin fjár heldur betri stöðugleika þegar konur eru meðal stjórnenda.  Þegar öllu er á botninn hvolft þá er heimurinn betri og afkastameiri þegar allir samfélagsþegnar fá að rækta og nýta sína hæfileika.

Við vitum þó að leiðin að kynjajafnrétti er ekki bein og hún krefst þess að við gerum meira en bara að breyta lögum. Lögin þurfa að hafa þýðingu og samfélagið þarf að hafa vilja til þess að hægt sé að breyta rótgrónum venjum, kvenfyrirlitningu og úreltu viðmóti. Lög eiga að vera tól til valdeflingar kvenna í stað þess að halda okkur í fortíðinni og vinna gegn því að við náum að rækta okkar bestu eiginleika og blómstra sem þátttakendur í samfélaginu. Kynbundin vandamál eru afskaplega ólík eftir heimshlutum, en margar þjóðir eru að mjakast í rétta átt. Í Afghanistan er t.a.m. ekki lengur gerð krafa um að giftar konur skuli vera í fylgd með eða hafa skriflegt leyfi eiginmanna sinna til að sækja um vegabréf og þónokkur lönd hafa nýlega breytt hjúskaparlögunum til að leyfa konum að velja hvar þær kjósa að búa á sama hátt og karlmenn, en fyrir það þurftu eiginmenn að velja heimili fjölskyldunnar og eiginkonum þeirra var skylt að búa þar. Meðal þessara landa eru t.d. Lýðveldið Kongó, Hondúras og Nikaragúa en einnig hafa fleiri lönd nýlega fjarlægt takmarkanir á störfum kvenna í námuvinnslu, orkugeiranum og byggingarvinnu. Nánari umfjöllun og tölfræði má finna í nýrri skýrslu World Global Bank.

Ekki bara fallegur heimur

Á meðan sum lönd taka skref í rétta átt eru önnur sem standa í stað eða fara jafnvel aftur á bak, en í löndum Suður-Asíu eru barnabrúðkaup enn algeng þar sem um 45% kvenna eru giftar undir 18 ára aldri og 17% undir 15 ára aldri. Í Sádi-Arabíu voru kvenréttinda aktívistar nýlega handteknir og hafa yfirvöld þarlendis ekkert gert til að rannsaka ásakanir þeirra um líkamlega og kynferðislega pyntingu í varðhaldi.

Staðan í fjarlægjum ríkjum er ógeðfelld á marga vegu þegar kemur að kynjajafnrétti og þrátt fyrir að við á Íslandi höfum, ásamt öðrum vestrænum þjóðum, verið talin fremst í flokki í þeim málum er enn margt sem við þurfum að bæta. Það virðist vera samþykkt af mörgum að þar sem staða vestrænna þjóða sé ekki eins slæm og annars staðar í heiminum þá sé það frekja að vilja gera betur. Við, vestrænar konur, eigum að vera þakklátar fyrir þau réttindi sem við höfum. Það séu konur, í öðrum löndum, sem horfi öfundaraugum á okkar réttindi. Þetta er furðulegt viðhorf. Réttindi kvenna eiga að vera sjálfsögð, en ekki forréttindi, eins og sumum virðist þykja.

Þakklæti fyrir að vera ekki þvingaðar í hjónaband eða þurfa ekki að dúsa á heimili undir ægivaldi allsráðandi eiginmanns. Að við séum laus við augljósustu form kúgunar. Segir það að jafnrétti kynjanna sé náð?  Sá aðili sem telur stöðu kvenna fullkomna án þessara öfgafullu dæma hefur ekki staldrað lengi við til að hugsa. Í heimi þar sem Donald Trump er forseti Bandaríkjanna og sumir þingmenn á Íslandi virðast líta upp til orðræðu hans í garð kvenna er ljóst að við sem vestrænt samfélag erum á hraðri leið aftur á bak. Ef æðstu ráðamenn þjóða hafa ekki sóma sinn í að tala um konur af jafn mikilli virðingu og þeir gera um karlmenn, af hverju ætti annað fólk að leggja sig fram við það? Ef stjórnendur og opinberar persónur telja konur ekki geta komist áfram án fullkomins líkama og útlits, hvernig eigum við að hvetja ungar stelpur til að leggja sig fram í námi og vinnu og láta gott af sér leiða? Af hverju ríkir þessi sátt um að það sé í lagi að rífa konur niður fyrir útlitið, skapið og skoðanir? Það er tími til kominn að fólk axli ábyrgð á orðum sínum. Við eigum öll að segja stopp og hætta að sætta okkur við óviðeigandi og tilgangslausar athugasemdir fullar af kvenfyrirlitningu, hvort sem þær eru í garð okkar eða næstu konu.

Ísland best í heimi?

Kynjajafnrétti er ekki einkamál kvenna. Þetta er vandamál okkar allra, við getum öll lagt okkar á vogarskálarnar og við verðum að sitja við sama borð ef við ætlum að ná fullkomnum árangri. Það þýðir ekki að hafa konur í stjórnunarstöðum til að fylla uppí einhvern kynjakvóta á blaði en gefa henni svo ekki ákvörðunarvaldið og völdin sem eiga að fylgja. Kona er ekki til skrauts, hún er öllum eiginleikum borin til að ráða yfir sér, kjósa, stjórna og lifa. Saman getum við öll barist fyrir kynjajafnrétti og haldið áfram að vinna að betri framtíð.

Á Íslandi ríkir mesta jafnrétti í heimi. Eða það er það sem hefur verið sagt síðustu ár. Ef við skoðum tölfræði um valdastöður í íslensku samfélagi passar þetta ekki alveg. Hlutfall kvenna á Alþingi er um 35% og í þeim 18 fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöll Íslands er engin kona æðsti stjórnandi. Konur stýra innan við 10% af 400 stærstu fyrirtækjum landsins og engin kona hefur verið ráðin sem forstjóri í skráðu fyrirtæki síðan árið 2012. Hvernig getur þetta talist vera í lagi? Á Íslandi hefur verið unnið öflugt starf í þágu jafnréttis síðustu áratugi en til hvers eru byltingar ef bakslögin eru harðari? Við höfum vald til að breyta þessu. Við getum sýnt gott fordæmi, staðið upp gegn óréttlæti og borið þann titil stolt að hér ríki mesta jafnrétti í heimi. Hættum ekki á miðri leið, bætum heiminn með betra jafnvægi.

Kolfinna Tómasdóttir

Pistlahöfundur

Kolfinna nemur lögfræði og Mið-Austurlandafræði við Háskóla Íslands ásamt því að sitja í stjórn Ungra athafnakvenna. Samhliða náminu starfar hún sem fyrsti Alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs en síðustu ár hefur hún gegnt embætti alþjóðaritara Orators, forseta Norræna alþjóðaritararáðsins, endurvakið Íslandsdeild ELSA og gegnt þar formannsembætti ásamt því að sitja í stjórn Ungmennaráðs UN Women á Íslandi.

Skrif Kolfinnu í Rómi snúa meðal annars að jafnréttismálum, alþjóðasamskiptum og álitaefnum í samfélagsumræðunni hverju sinni.