Inn á kemur nýr þingmaður númer 27

eftir Jón Birgir Eiríksson

Stjórnmálaflokkar undirbúa sig nú, hver með sínum hætti, fyrir þingkosningar í haust. Framboðslista þeirra fyllir brátt fólk af öllum toga og síðar líta stefnuskrár og kosningaloforð þeirra dagsins ljós.

Hvað sem hugsjón og hugmyndum líður fallast flestir á að það sé æskilegt að hæfir einstaklingar veljist til þingsetu að lokum, fólk sem hagi málflutningi sínum eftir sinni sannfæringu og vinni hörðum höndum að því að koma sínu til leiðar. Það er hlutverk stjórnmálamanna að vinna að hag kjósenda sinna, hvað sem það kostar. Það er síðan viðbúið að árekstrar verði og fólk sé ósammála. Það er eðli stjórnmálanna eins og þeim er háttað hér á landi og víðar, blessunarlega.

Einhverjir hafa stillt dæminu þannig upp að annars vegar standi til boða „átakastjórnmál” og „samræðustjórnmál” hins vegar. Að mati undirritaðs er hið síðarnefnda þó ekki til umræðu nema í undantekningartilfellum. Stundum má vinna málunum farveg með samvinnu og þverpólitískri sátt en þegar á heildina er litið, eru stjórnmálin í eðli sínu átök líkt og áður sagði.

Mikilvægt er að átökum sem þessum verði fundinn viðeigandi „vígvöllur” og að leikreglurnar séu skýrar enda gríðarmiklir hagsmunir undir. Þannig veltur allt á því að Alþingi sem stofnun geti tekist á við hitann og þungann af ólíkum skoðunum og hugmyndum einstakra þingmanna og stjórnmálaflokka.

Alþingi er þess vegna ekki „vinnustaður” í hefðbundum skilningi þess orðs, líkt og stundum hefur verið sagt, til dæmis í umræðunni um að Alþingi „eigi að vera fjölskylduvænn vinnustaður.” Eðli Alþingis sem grunnstoðar í samfélaginu veldur því að önnur lögmál gilda um starfsemi þess, til dæmis vegna þess að meginhlutverk þess er að rúma þau átök sem óhjákvæmilega verða þar.

Allra síðustu ár hefur borið á talsverðri óánægju með umræðuna í þinginu og hefur hún hvort tveggja átt sér rætur innan og utan þingsins. Þingmenn og lykilaðilar í samfélagsumræðunni hafa kvartað sáran yfir „umræðuhefðinni” í þingsal og þingið jafnvel verið sagt óstarfhæft.

Einn stór áhrifaþáttur er augljós og hefur valdið því að þinginu sem stofnun hefur ekki tekist að halda átökunum á skynsamlegum nótum.

Endurnýjun að nýju?

Í kjölfar efnahagshrunsins ríkti mikil óánægja með stjórnmálamenn, skiljanlega. Miklar breytingar urðu í hinu pólitíska landslagi, ekki aðeins hvað stjórn og stjórnarandstöðu varðaði, heldur einnig í hverjum flokki fyrir sig. Þannig var stórum hluta þingmanna skipt út og nýtt fólk tók við taumunum. Í kosningum árin 2009 og 2013 bættust þannig við 27 nýir þingmenn í hvort skipti og var endurnýjun þingmanna því um 43% tvö kjörtímabil í röð.

Á síðustu árum hefur því verið haldið á lofti að fórnarkostnaður við endurnýjunina hafi einmitt verið reynslan, þær hefðir, venjur og óskráðar reglur í samskiptum, sem áður höfðu mótast í þinginu. Ágætur mælikvarði hefur verið nefndur í þessu samhengi, matsalur þinghússins.

Þau tíðindi hafa nefnilega heyrst að þingmenn stjórnar- og stjórnarandstöðu geri ekki lengur greinarmun á þingsalnum og matsalnum og matist því sjaldnast með andstæðingum sínum enda hafi þeir glatað hæfileikanum til að skilja ósættið eftir í þingsalnum. Tilfinningarnar ráði för og þegar reyni á, séu bræði og heift áþreifanleg.

Mögulega er þörf á því að þingmenn fengju raunverulegt tækifæri til þess að „pústa”, þó ekki væri nema einu sinni í viku.

Fyrirséð er að nokkur endurnýjun verði í næstu kosningum, t.d. hefur Ögmundur Jónasson, gamalreyndur þingmaður Vinstri grænna gefið út að hann muni ekki gefa kost á sér í haust, en einnig má finna yngri þingmenn, á borð við Helga Hrafn Gunnarsson, þingmann Pírata, sem mun ekki heldur gefa kost á sér, eftir að hafa setið eitt kjörtímabil við góðan orðstír. Þá má nefna fleiri sem hafa skapað sér virðingu þvert á flokka líkt og Kristján Möller, þingmann Samfylkingar og Ragnheiði Ríkharðsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokks.

Ólíklegt er að eiganda fyrirtækis dytti í hug að segja 43% starfsmanna sinna upp í einu lagi. Með því myndi tapast dýrmæt reynsla sem hefði skapast og er Alþingi líkt hefðbundnum vinnustöðum að því leyti.

Endurnýjun er af hinu góða, en það má velta því fyrir sér hvar mörkin liggi milli á milli þess að eðlileg endurnýjun verði og að mikilvæg reynsla af þingstörfum glatist með þeim afleiðingum að hefðir sem hafa skapað leikreglur leggist af og upplausn verði daglegt brauð í Alþingishúsinu. Það er því kannski ástæða til að minna þá á, sem taka þátt í vali á frambjóðendum flokka sinna fyrir næstu kosningar, að hinn gullni meðalvegur er aldrei langt undan, þegar til stendur að taka skynsamlega ákvörðun.

Jón Birgir Eiríksson

Ristjórn

Jón Birgir er laganemi við Háskóla Íslands. Hann hefur undanfarin ár starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu og situr í aðalstjórn Fylkis. Þá sat hann í stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík og er nú varamaður í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þar áður var hann formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta. Jón Birgir er einnig píanóleikari hljómsveitanna Bandmanna og Ljósfara.