Illskársti kosturinn?

eftir Ritstjórn

Þegar úrslit alþingiskosninganna lágu fyrir kepptust stjórnmálaskýrendur við að túlka niðurstöður kosninganna með misgáfulegum hætti. Fyrst og fremst voru niðurstöðurnar stórt tap kvenna, ungs fólks og frjálslyndra sjónarmiða. En eitt gátu þó flestir verið sammála um og það að enga afgerandi afstöðu kjósenda er hægt að lesa úr niðurstöðum. Fyrir vikið eru stjórnmálin komin í þá óvenjulegu stöðu að allt bendir til þess að eftir helgi taki við ríkisstjórn sem nær þvert yfir hitt pólitíska róf stjórnmálanna.

Framsóknarflokkarnir þrír

Framsóknarflokkur, Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn tóku höndum saman og hófu stjórnarmyndunarviðræður eftir að upp úr flosnaði í viðræðum fráfarandi stjórnarandstöðuflokka. Skiptar skoðanir eru um viðræður þessa flokka enda eru flokkarnir afar ólíkir en að sama skapi líkir að vissu leiti. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, komst ágætlega að orði þegar hún sagði þetta vera stjórnarmyndunarviðræður Framsóknarflokkanna þriggja.

Það loðir nefnilega við þessa flokka að þeir eru allir frekar íhaldssamir, eða hafa í besta falli sterka íhaldssama hópa innan sinna vébanda. Sé litið til stofnana flokkanna utan höfuðborgarsvæðisins má sjá augljósan stuðning við núverandi landbúnaðarkerfi, sjávarútvegskerfi sem og einarða afstöðu gegn inngöngu í Evrópusambandið hjá þeim öllum.

Út frá afstöðu flokkanna til þessara mála er því ekki fjarri lagi að þeir geti myndað ríkisstjórn. Viðræður flokkanna hljóta því fyrst og fremst að snúast um að sameinast um að breyta ekki ákveðnum grunnkerfum samfélagsins, leggja ágreiningsmál flokkanna á hinum lárétta ás stjórnmálanna til hliðar og einblína á uppbyggingu innviða samfélagsins, þá einna helst heilbrigðiskerfið, menntakerfið og samgöngukerfið.

Leikhús fáránleikans

Annað sem er áhugavert er hálfgert bandalag Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar , en flokkarnir hafa boðið Vinstri grænum og Framsóknarflokknum upp á þennan kost til stjórnarmyndunar. Þingmenn Samfylkingar og Pírata hafa verið afar gagnrýnir í garð Framsóknarflokksins og jafnvel Vinstri grænna fyrir að slíta fyrri stjórnarviðræðum og saka flokkanna um leikræna tilburði, í raun hafi alltaf staðið til að fara í samstarf við Sjálfstæðisflokknum. Meint leikrit mun hafa átt sér stað til þess að friða hluta baklands Vinstri grænna og sýna fram á að reynt hafi verið reynt til þrautar að mynda vinstri stjórn.

Bandalag þessa þriggja flokka reynist vera annað leikrit, í þetta skipti í boði Viðreisnar sem hefur ekki nokkurn áhuga á að starfa með Framsóknarflokknum. Þetta staðfesti Þorsteinn Víglundsson í Víglínunni á Stöð 2 í gær. Þetta er í raun og veru skynsamur leikur hjá Samfylkingu og Viðreisn því ef af íhaldsstjórninni verður geta þeir sagst hafa boðið upp á annan valmöguleika. Ef þessir flokkar spila vel úr sinni stöðu sem stjórnarandstöðuflokkar getur Samfylkingin dregið talsvert fylgi af Vinstri grænum og Viðreisn nælt sér í frjálslynt fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Það er því alls ekki slæmur kostur fyrir þessa flokka að vera í stjórnarandstöðu.

Engir hveitibrauðsdagar hjá næstu ríkisstjórn

Stjórnarandstaðan getur byrjað að hlakka til fylgisaukningarinnar, en strax í byrjun næsta árs mun ríkisstjórnin standa frammi fyrir ákvörðun sem mun ráða því hvort hér verði áframhaldandi lífskjarasókn eða efnahagsleg bakslag á kostnað almennings. Þá hefst samningalota þar sem opinberi og almenni vinnumarkaðurinn semja um kaup og kjör við vinnuveitendur sína með nýjum kjarasamningum.

Ísland hefur ekki góða sögu að segja í þessum efnum þar sem margoft hefur verið reynt að ná sáttum á vinnumarkaði en slíkt hefur alltaf endað með höfrungahlaupi launahækkanna sem leiða af sér óðaverðbólgu, gengisfellingu eða önnur ósköpum. Nú síðast var þetta reynt með svokölluðu SALEK-samkomulagi sem snerist um að útflutningsgreinar leiddu kjaraþróun í landinu og aðrar atvinnugreinar fylgdu svo á eftir. Örlög þessa SALEK-samkomulagsin munu ráðast snemma á vordögum þegar ríkið semur við starfsmenn sína. Ánægjulegt er að sjá að þeir flokkar sem eiga nú í viðræðum um ríkisstjórnarmyndun taka þessu máli alvarlega en þeir hittu fulltrúa félaga vinnumarkaðarins í liðinni viku að ræða komandi kjarasamningsviðræður.

Annað má segja um stjórnarandstöðuna með Viðreisn fremst í flokki, sem talað hafa fyrir leiðréttingu launa kvennastétta. Markmiðið er í sjálfu sér verðugt enda hefur ásókn í þessar stéttir farið minnkandi síðustu ár sem er alvarlegasta mál. Það vill þó svo til að þessar hefðbundnu kvennastéttir, t.d. kennarar og hjúkrunarfræðingar eru að mestu leiti starfsmenn hins opinbera. Það sem Viðreisnar veit þó manna best með fyrrverandi forstöðumenn Samtaka atvinnulífs í fararbroddi er að ef kjör þessara stétta verða leiðrétt í einni andrá eiga eftir að rísa upp fjölmargar aðrar stéttir sem telja sig þurfa á leiðréttingu að halda. Það mun enda á því að allir fá „leiðréttingu” og leiðrétting kvennastéttanna verður til einskis. Mun ábyrgara er að leita annarra leiða en töfralausna sem myndu tryggja sanngjörn og samkeppnishæf starfskjör fyrir þessar stéttir til frambúðar.

Viðreisn hefur talað fyrir því að vera málefnaleg í stjórnarandstöðu og er það því einlæg von Rómverja að þingmenn þeirra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson, verði öðrum þingmönnum fyrirmynd með ábyrgum og skynsömum málflutningi í komandi kjarasamningsviðræðum.

Á meðan aðrir flokkar viðurkenna ekki nauðsyn þess að hér náist samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins um sjálfbærar launahækkanir leiddar af útflutningsfyrirtækjum má vera að ríkisstjórn þeirra flokka sem ræða nú saman séu illskársti kosturinn, jafnvel þó ríkisstjórnin sitji aðeins í 1 ár.