Í veðurfréttum er þetta helst

eftir Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Árið 2017 fór heldur betur geyst af stað þegar Íslendingar voru góðfúslega minntir á áhrif neyslu þeirra á umhverfið í fyrstu veðurfréttum ársins. Veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson benti á þá miklu hlýnun jarðar sem hefur átt sér stað síðustu 50 til 60 árin og hvatti áhorfendur í kjölfarið til þess að sniðganga vörur, sem eru framleiddar í Kína. Fyrir þessu sjónarmiði bar hann einnig þau rök að Kínverjar brenni kolum til þess að framleiða rafmagn og allar vörur framleiddar í Kína séu þar af leiðandi óumhverfisvænar. Margar rannsóknir benda vissulega til þess að þessi hraða hlýnun og loftslagsbreytingar séu af mannavöldum og að Kínverjar spili þar stóran þátt þrátt fyrir að Donald nokkur Trump sé því ósammála. En á sama tíma og hvatning sem þessi er af hinu góða er þarna um að ræða óþarflega mikla einföldun á neyslu mannkynsins og uppruna hennar.

Það eru margir þættir sem líta þarf til þegar hugsað er um uppruna og umhverfisáhrif neysluvarnings. Einn þessara þátta eru aðstæðurnar sem framleitt er við. Ef neysluvarningurinn er framleiddur á erlendri grundu eru meiri líkur en minni á að um sé að ræða viðskipti við stærri keðjur eða stofnanir. Til þess að halda sínu samkeppnisforskoti er mikilvægt fyrir þessi fyrirtæki að halda framleiðslukostnaði niðri. Einhver verður þó að borga fyrir brúsann og er það oftar en ekki vinnuafl eða umhverfið. Algengt er að launakostnaði sé haldið í skefjum neðarlega í virðiskeðjunni og eru þá einnig öryggisstaðlar oftar en ekki virtir vettugi. Eftirspurn eftir ódýru vinnuafli kemur því oft niður á þriðja heims ríkjum þar sem eftirlit með framkomu gagnvart starfsfólki og greiðslum til þess getur verið takmarkað. Staðsetning framleiðslu og reglugerðir spila einnig stóran þátt í kostnaði framleiðsluvarnings. Í Evrópu gilda til að mynda nú orðið strangar reglur um umhverfisspjöll. Aðra sögu er að segja í sumum Asíulöndum og sambærilegt erftirlit og þekkist í Evrópu var einungis nýlega kynnt í Kína, sem er þekkt fyrir nýtingu brenndra kola í sinni orkuframleiðslu. Þegar litið er til meðalkostnaðar ólíkrar orkuframleiðslu sést að nýting kola er um helmingi ódýrari en sólarorka þó hún liggi á par við vatnsorku. Því miður stendur ekki allur heimurinn frammi fyrir því að geta nýtt sér vatnsorku og getur því verið einfalt og ódýrt að grípa til brennslu kola.

Þegar hugsað frekar til kolefnisspors neysluvara ber einnig að hafa í huga flutning þeirra. Vörur sem framleiddar eru í Asíu og neytt í Evrópu ferðast til dæmis í það minnsta 19.380 km á hafi. Slíkar fjarlægðir þýða því ágætis magn af útblæstri sem leggst ofan á kolefnisspor vörunnar fengið við framleiðslu. Uppruna varnings er þó alls ekki svo einfalt að greina. Jafnvel varningur sem er “Made in Europe” getur verið samsettur úr fjölda íhluta eða efna hvaðanæva úr heiminum. Það eru því meiri líkur á en minni að samsetning þessara íhluta beri þegar hátt kolefnisspor áður en varan endar í samsetningu innan Evrópu. Ofan á bætist svo að sjálfsögðu flutningur varanna frá lokasamsetningu til neytandans. Þar sem fyrirtæki eru ekki mjög gjörn á að veita neytandanum upplýsingar um raunverulegan uppruna vara er skiljanlega erfitt fyrir neytandann að veita því almennilega athygli hvaða áhrif hans neysla hefur á umhverfið.

Hafa ber þó í huga að ekki öll framleiðsla á sér stað í Kína. En þó eru ástæður fyrir því að svo gjarnan sé litið til Kína í slíkum umræðum. Frá árinu 1980 til ársins 2014 hefur hlutfall Kína af útflutning heimsins risið úr 14% í 32% eða úr $294 í $6,133. Á sama tíma hefur landsframleiðsla í Kína sem hlutfall af heiminum risið úr 16% í 28% eða úr $1,992 í $13,614. Síðast en ekki síst hefur losun koltvísýrings í andrúmsloftinu í Kína farið úr 25% í 43% af heimnum öllum eða úr 5,292 milljón tonnum í 13,614 milljón tonn. Kína er því án efa eitt mesta viðskipta- og framleiðsluland heimsins. Því er ekki annað hægt en að vona að aðstæður í Kína fari að breytast.  Það er því nánast ógjörningur fyrir okkur að sniðganga með öllu vörur framleiddar í Kína, sérstaklega þar til fyrirtæki og stofnanir taka það á sig að tilkynna um raunverulegan uppruna framleiðsluvarnings og kolefnisspors þeirra.

Það er því ljóst að þrátt fyrir að meiningin hafi verið jákvæð og þörf er hættulegt að einfalda hlutina á þann hátt sem gert var í veðurfréttunum á nýársdag. Heppilegt væri vissulega ef heimurinn væri svo einfaldur en sú er ekki raunin. Við þurfum því að spyrja okkur hvað við viljum gera til að leggja okkar að mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og öðrum umhverfisspjöllum. Hversu vel viljum við berjast fyrir að fá frekari upplýsingar um uppruna okkar neysluvarnings? Og erum við raunverulega tilbúinn til þess að fórna lágu verðlagi fyrir umhverfisvænni varning? Baráttan gegn loftslagsbreytingum og hlýnun jarðar er margþætt og er það þar af leiðandi hvorki skilvirk né sanngjörn leið að sniðganga einungis vörur frá Kína.

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Ragnheiður Björk er meistaranemi í stjórnun ásamt iðnaðarverkfræði í Tækniháskólanum í Munchen og lauk BSc í iðnaðarverkfræði frá HÍ. Hún vinnur nú að meistaraverkefni sínu um lokun virðisaukakeðju vöruframleiðanda og hefur reynslu úr iðnaðnum eftir að hafa unnið hjá McKinsey, Daimler Mercedes Benz Cars og BMW í Þýskalandi. Áður stýrði hún Formula Student liði HÍ við hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls. Skrif hennar í Rómi beinast að femíniskum viðhorfum og áhrifum hnattvæðingar og gróðurhúsaáhrifa á alþjóðasamfélagið.