Í skugga valdsins

eftir Ritstjórn

Fyrir skömmu komu leikkonur erlendis fram og greindu frá því að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og áreitni í starfi sem hratt af stað mikilli bylgju um allan heim. Í krafti fjöldans stigu fleiri konur fram og hafa mörg þúsund konur í dómskerfinu, leiklist, blaðamennsku og núna síðast konur í stjórnmálum sagt sögu sína. Hér á landi voru íslenskar leikkonur fyrstar til að segja frá ofbeldi og áreitni í starfi og nú hafa hátt í 400 íslenskar konur í stjórnmálum skrifað undir yfirlýsingu þar sem krafist er að karlar taki ábyrgð og að stjórnmálaflokkarnir taki af festu á málinu. En hvers vegna er þörf á byltingu? Nú þegar eru til lög um kynbundið ofbeldi og áreitni.

Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 segir eftirfarandi í 22. grein laganna, sem fjallar um kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni:

„Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum.“

Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 segir:

„199. gr. Hver sem gerist sekur um kynferðislega áreitni skal sæta fangelsi allt að 2 árum. Kynferðisleg áreitni felst m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta.“

En þrátt fyrir að til séu lög sem beinlínis skylda fyrirtæki til að gera ráðstafanir til að bregðast við kynferðislegri áreitni á vinnustað hefur meirihluti fyrirtækja (53%) enga áætlun um hvernig þau myndu bregðast við kynferðislegri áreitni. Endurspeglast þetta einnig í stjórnmálahreyfingum, þvert á flokka, og því er ljóst að lagasetning er ekki næg ein og sér. Hugarfarsbreyting verður að eiga sér stað.

Óhætt er að segja að mikil vitundarvakning hafi orðið á kynferðisofbeldi og áreitni í samfélaginu. Margar konur hafa stigið fram og deilt reynslu sinni í þeim tilgangi að uppræta þöggun og gamaldags viðhorf gagnvart kúgun kvenna. Það er ekki auðvelt að segja frá erfiðri lífsreynslu og stundum virðist óvíst hvaða tilgangi það þjónar eða hvort ávinningurinn sé meiri eða minni af því að segja frá. Oft reynist erfitt og sársaukafullt að rifja upp minningar tengdar ofbeldi sem veldur því að konur sjá lítinn ávinning í því. Konurnar eru án efa að taka áhættu með því að koma fram undir nafni þar sem slík uppljóstrun gæti haft áhrif á stöðu þeirra og framgang í starfi. Í krafti fjöldans hefur það þó reynst auðveldara þar sem meirihluti kvenna hefur lent í einhvers konar áreitni. Áður falið vandamál er nú orðið sýnilegt og næstum því „venjulegt“ þar sem fleir konur en færri hafa sambærilega reynslu. Þó þarf að gæta þess að gengisfella ekki vandamálið vegna þess að það er svo algengt.

Margir menn bera hag kvenna fyrir brjósti. Ekki má steypa öllum í sama mót eins og á gjarnan til að líta út fyrir í herferðum sem þessum. Hér er ekki verið að leggja alla menn undir grun, alla stjórnmálamenn eða leikstjóra. En umræðuna þarf að skapa til að hægt sé að ræða þessi mál og að fólk sé meðvitaðra um hvað telst vera áreitni og hvað ekki. Annars getur herferðin snúist upp í andhverfu sína, verið þögguð niður. Ótti getur skapast hjá karlmönnum um herferðina. Um það hvar mörkin liggja, hvað má og má ekki. Á það gjarnan við um menn sem starfa í umönnunarstörfum, eru þjálfarar, kennarar eða í sambærilegum störfum þar sem umgengni við konur og börn er mikil. Koma þarf á fræðslu um hvað telst vera áreitni eða ofbeldi til þess að skapa ekki ótta við umræðuefnið, heldur til að vinna áfram með það í krafti þeirra umfjöllunar sem hefur skapast.

Varðandi stjórnmálaflokka þá virðist hvorki siðareglur né verkferlar í kynferðisbrota- og áreitnimálum vera til staðar innan félagsstarfs flokkanna hér á landi. Í sumum flokkum er hægt að leita til trúnaðarmanns eða trúnaðarráðs um svona mál. Hins vegar er vandmeðfarið að ætla að leysa öll ágreiningsmál innan flokks því mikilvægt er að hvetja áfram til að kæra alvarleg ofbeldis- eða áreitnimál. Því þurfa skýrir verkferlar að vera til staðar. Verkferlar eru þó ekki nóg. Hugsunarhátturinn þarf einnig að breytast. Menningin skiptir þar höfuðmáli. Konur eiga ekki að upplifa sig sem gesti í stjórnmálum þar sem karlarnir skrifa gestalistann og leyfa konum að vera með. Konur eru hluti af kerfinu og því samfélagi sem ól upp þá hugmynd að karlar ráði ferðinni. Nú eru konur hins vegar að líta í eigin barm og viðurkenna að bæði kyn hafa látið þetta viðgangast. Með #MeToo byltingunni er því verið að skora á karlana að taka þátt í breytingunum með þeim. Nú er búið að benda á hvað þurfi að laga, en það þarf að gerast í sátt og sameiningu. 

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.