Í höftum til framtíðar

eftir Kristinn Ingi Jónsson

Setning gjaldeyrishaftanna á haustmánuðum ársins 2008 var verstu mistök íslenskra stjórnvalda í eftirleik bankahrunsins. Það að bíða með að afnema þau í næstum átta ár var að sama skapi hræðileg mistök. Það er kaldhæðni örlaganna að nú – þegar loksins stendur til að létta höftum af útflæði fjármagns – þurfi að setja höft á innflæði fjármagns. Sagan endurtekur sig.

Albert Einstein sagði eitt sinn að skilgreiningin á geðveiki væri að gera það sama aftur og aftur en búast samt við annarri niðurstöðu. Við höfum áður prófað að hafa höft. Raunar er saga krónunnar um leið svo til samfelld saga hafta. Krónan þekkir vart annað en að vera í höftum. Slíkur haftabúskapur hefur aldrei reynst okkur vel og það er engin ástæða til að ætla að svo verði nokkurn tímann raunin. Höft virka einfaldlega ekki í nútímasamfélagi. Landamæri eru óðum að hverfa og menn vilja geta átt í viðskiptum við hvern sem er, hvar sem er, án þess að vera upp á náð og miskunn embættismanna komnir.

Við hljótum að hafa lært af biturri reynslu, ekki einungis undanfarinna ára, heldur áratuga, að höft og ríkisforsjá er ekki til velmegunar fallin.

Traustið þverr

Í byrjun mánaðarins samþykkti Alþingi breytingar á lögum um gjaldeyrismál sem veita Seðlabanka Íslands víðtækar – og í raun fordæmalausar – valdheimildir til þess að hefta innflæði fjármagns til landsins. Bankinn hefur þegar nýtt sér þessa heimild – þrátt fyrir að hafa áður gefið skýrlega til kynna að þess væri ekki þörf strax – og sett reglugerð um að fjörutíu prósent af nýju gjaldeyrisinnstreymi verði bundin í eitt ár á vaxtalausum reikningi. Heimildir bankans samkvæmt lögunum ganga enn lengra, en hann getur bundið 75% af innstreyminu til allt að fimm ára á núll prósent vöxtum, ef honum sýnist sem svo.

Rétt eins og átti við um útflæðishöftin snerta nýkynnt innflæðishöft ekki almenning með beinum hætti. Fólk finnur ekki fyrir höftunum á eigin skinni á hverjum degi. Innflæðishöftin hafa sem dæmi verið afsökuð á þá leið að þau beinist fyrst og fremst að gráðugum hrægammasjóðum sem vilja hagnast á vaxtamunarviðskiptum með íslensku krónuna. Það þýðir þó ekki að þau séu réttlætanleg eða skerði ekki lífskjör fólks. Skaði þeirra er mikill.

Höft grafa til dæmis undan trausti umheimsins á íslensku efnahagslífi. Með því að viðhalda ströngum höftum erum við að gefa til kynna að við annað hvort getum ekki eða viljum ekki reka opið hagkerfi með frjálsum viðskiptum samkvæmt þeim leikreglum sem tíðkast í öðrum þróuðum ríkjum. Við erum með öðrum orðum að lýsa því yfir að okkur sé ekki treystandi. Að búast megi við því að við viðhöldum höftum og öðrum takmörkunum langtímum saman. Hver vill fjárfesta í slíku ríki?

Menn munu einnig finna smugur á höftunum. Það er alltaf þannig. Höft eru í eðli sínu þannig að þau bitna fyrst og fremst á þeim sem fylgja þeim en eru gróðrarstía fyrir þá sem finna leiðir fram hjá þeim. Af þessum ástæðum er aldrei hægt að byggja upp heilbrigt hagkerfi með haftastefnu að leiðarljósi.

Hvernig á að sannfæra ESA?

Það er eðlilegur hluti af efnahagslegu frelsi að borgarar geti flutt fjármagn á milli ríkja án takmarkana. Þessi grundvallarregla er til að mynda einn af hornsteinum EES-samningsins. Frá henni eru þröngar undantekningar og sló EFTA-dómstóllinn því til dæmis föstu í dómi sínum í desember árið 2011 að gjaldeyrishöftin væru í samræmi við EES-samninginn vegna þeirra „sérstöku“ og „alvarlegu“ aðstæðna sem sköpuðust hér á landi eftir bankahrunið. Benti dómstóllinn á að svo virtist sem stöðugleiki krónunnar og gjaldeyrisforða landsins hafi ekki náðst fyrr en höftin voru sett.

Nú á dögum – bráðum átta árum frá hruni – eru slíkar aðstæður ekki fyrir hendi. Íslenskur efnahagur stendur styrkum fótum og er hér spáð einum mesta hagvexti sem þekkist í heiminum í ár og á næstu árum. Það verður því fróðlegt að heyra hvernig í ósköpunum íslensk stjórnvöld ætla að fara að því sannfæra ESA, eftirlitsstofnun EFTA, sem á að hafa eftirlit með því að EES-samningnum sé fylgt, um nauðsyn þess að hefta þurfi innflæði fjár til landsins.

Gjaldeyrislögreglustjóri Íslands

Til þess að framfylgja reglunum þarf Seðlabankinn að hafa virkt eftirlit með flæði gjaldeyris inn og úr landinu. Að öðrum kosti virka höftin ekki. Jón Daníelsson, hagfræðiprófessor við London School of Economics, orðaði það svo í samtali við Fréttablaðið að seðlabankastjóri yrði nokkurs konar gjaldeyrislögreglustjóri Íslands. Það segir í raun allt sem segja þarf um ágæti haftanna.

Reglurnar eru auk þess matskenndar og skortir verulega á að þær kveði á um skýr viðmið um hvenær eigi að beita þeim. Hvenær er gengi krónunnar orðið of sterkt? Hvenær er innstreymi fjármagns of mikið? Bankanum er falið svo að segja óheft vald til þess að leggja mat á það sjálfur. Það býður augljóslega hættunni heim.

Dýrmætur tími til spillis

Völd Seðlabanka Íslands hafa aukist mikið á undanförnum árum. Sú þróun einskorðast ekki við Ísland, heldur á það sama við um seðlabanka um allan heim. Tilhneigingin hefur verið sú að fela bönkunum enn meiri völd. Má segja að það hafi verið svar stjórnmálamanna við þeirri kröfu almennings að eitthvað, já bara eitthvað, þurfi að gera til að koma í veg fyrir næstu fjármálakreppu.

Fyrir bankahrunið 2008 var sú skoðun ríkjandi að hlutverk seðlabanka væri aðeins að viðhalda verðstöðugleika – með stýrivöxtum sínum – og vera í viðskiptasambandi við innlent fjármálakerfi sem eins konar banki bankanna. En með tímanum hefur eðli starfsemi seðlabanka breyst. Seðlabanki Íslands hefur til að mynda að miklu leyti orðið að umsvifamikilli eftirlitsstofnun. Hann fer nú með ákvörðunarvald í hversdagslegum málum sem snúa beint að fólki og fyrirtækjum og hefur yfirgripsmiklar heimildir til þess að beita borgarana þvingunarúrræðum. Á síðastliðnum árum hefur, svo dæmi sé tekið, miklum tíma og púðri starfsmanna verið eytt í að tryggja að höftin virki sem skyldi. Þessum tíma hefði verið mun betur varið í að vinna að afnámi þeirra.

Krafan er nú einnig sú að bankinn eigi að hafa stjórn á allri áhættu í fjármálakerfinu. Sú krafa er auðvitað með öllu óraunhæf. Hún mun aðeins leiða til þess að áhættan leitar á önnur mið, utan sjóndeildarhrings bankans, þangað sem regluverkið nær ekki til.

Seðlabankinn hefur meira að segja sjálfur bent á í ritum sínum að þetta sé ein helsta hættan við innflæðishöft – að fjárfestar leiti með fjármagn sitt þangað sem regluverk eftirlitsstofnana nær ekki til. Það gæti leitt til þess að veikleikar og áhætta byggist upp án þess að stofnanirnar geri sér grein fyrir því í uppsveiflum.

Aukin völd misráðin

Og því miður eru vísbendingar um að Seðlabankinn hafi ekki farið skynsamlega með þessi auknu völd sín, eins og ráða má af harðorðu bréfi umboðsmanns Alþingis um stjórnsýslu bankans.

Lögmenn hafa margoft bent á að framkvæmd bankans þegar kemur að leyfisveitingum og undanþágum vegna haftanna hafi ekki verið gagnsæ eða fyrirsjáanleg, meðal annars vegna þess að ákvarðanir hans eru hvergi birtar. Þá hafi afgreiðsla bankans á undanþágubeiðnum tekið langan tíma, allt að níu mánuði, og einnig hafi ríkt óvissa um hvenær, og hvort yfir höfuð, svara sé að vænta. Einnig er það bagalegt að ekki hafi legið skýrt fyrir hvaða skilyrði það eru sem þarf að uppfylla til þess að fá undanþágu frá höftunum. Gagnsæið hefur verið lítið og hættan á geðþóttaákvörðunum því mikil.

Í ljósi reynslunnar væri því viturlegra að draga úr völdum Seðlabankans, en ekki að auka þau.

En auknar valdheimildir og ríkara eftirlit er því miður fylgifiskur haftastefnu eins og þeirrar sem er við lýði hér á landi.

Döpur framtíðarsýn

Innflæðishöftin renna stoðum undir það sem marga grunaði – að ráðamenn þjóðarinnar treysta sér ekki til þess að láta krónuna fljóta á nýjan leik. Og lái þeim hver sem vill. Reynsla okkar af fljótandi krónu á frjálsum gjaldeyrismarkaði á síðasta áratugi reyndist okkur ansi dýrkeypt og má efast um að nokkur vilji endurtaka þann háskaleik.

En í stað þess að horfast í augu við vandann og viðurkenna að krónan, þessi minnsta sjálfstæða mynt í heimi, er vandamálið – fíllinn í herberginu – þá ætla stjórnvöld að halda úti peningastefnu til framtíðar sem byggist á viðvarandi höftum og öðrum takmörkunum á eðlilegum fjármagnsflutningum. Þvílík framtíðarsýn það.

Ef Ísland á í komandi framtíð að búa við frjálst flæði fjármagns eins og aðrar siðaðar þjóðir verða stjórnvöld að kanna til þrautar alla valkosti okkar í gjaldmiðlamálum. Króna í fjötrum hafta og ríkisafskipta getur ekki verið framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar. Það er ekki í boði.

Milton Friedman sagði eitt sinn að ekkert væri varanlegra en tímabundnar ráðstafanir stjórnvalda. Þegar gjaldeyrishöftin voru fyrst kynnt til leiks haustið 2008 var sagt að þau yrðu aðeins til skamms tíma – fáeina mánuði. Ekkert var fjær sanni. Ef fram fer sem horfir munum við áfram þurfa að búa við höft um fyrirsjáanlega framtíð. Það er framtíðarsýnin sem blasir við ungu fólki í dag.

 

Ljósmynd eftir Stefán Pálsson.

Kristinn Ingi Jónsson

Pistlahöfundur

Kristinn Ingi er laganemi við Háskóla Íslands og viðskiptablaðamaður á Fréttablaðinu. Skrif hans í Rómi beinast helst að stjórnmálum, viðskiptum, lögfræði og hagfræði.