Í augnablikinu hefði verið auðveldara að lifa með því að nota vímuefni

eftir Jónína Sigurðardóttir

Fyrir tæpum tveimur mánuðum byrjaði ég í nýrri vinnu. Í nýju vinnunni er ég meðal annars að aðstoða og styðja við fólk sem neytir vímuefna. Aðstæður margra þessara einstaklinga eru vægast sagt erfiðar. Mörg þeirra eiga það sameiginlegt að hafa orðið fyrir miklum, þungum og endurteknum áföllum og jafnvel allt frá barnæsku. Síðan ég kynntist þessu fólki hefur hugur minn oft verið hjá þeim, sama hvort ég er í vinnunni eða ekki og hef ég þá helst spurt mig að því afhverju ég sé ekki í dag í sömu sporum og þau.

Þó svo að það kynni að koma mörgum á óvart þá á ég margt sameignlegt með þessum hópi og ég hef mikið velt því fyrir mér hvað það er sem veldur því að ég hef klárað háskólanám, er í góðri vinnu og bý með dóttur minni en er ekki heimilislaus með vímuefnavanda.

Þráði að lina þjáningar mínar

Mín saga er örugglega ekki frábrugðin sögum margra sem glíma við fíkn. Þegar ég var 13 ára var ég beitt kynferðislegu ofbeldi sem snéri lífi mínu á hvolf. Ég vissi ekki lengur hvað snéri upp né niður í þessum heimi, það eina sem ég gerði mér grein fyrir var að heimurinn yrði aldrei eins. Þarna hafði ég kynnst svo miklum kvölum að ég hefði gert nánast hvað sem er til þess að lina þjáningar mínar. Ég lagðist í mjög djúpt þunglyndi með tilheyrandi sjálfsskaðandi hegðun og sjálfsvígshugsunum sem herjuðu stöðugt á huga minn. Hefði ég á þessum tíma þekkt einhvern sem var í vímuefnaneyslu er ég viss um að ég hefði notað nánast hvað sem er til þess að deyfa mig. Í augnablikinu hefði verið auðveldara að lifa með því að nota vímuefni.

Veikindi mín komu mörgum á óvart þar sem ég hafði alltaf staðið mig vel í námi og tekið virkan þátt í félagsstörfum, ég bar innri þjáningar mínar ekki utan á mér. Þær komu helst fram þegar ég fékk mér í glas. Þá drakk ég mikið, reyndi að drekkja tilfinningum mínum því ég réð ekki við að lifa með þeim og reyndi að flýja þær. Þegar ég var 18 ára var ég orðin svo veik að ég var lögð inn á geðdeild. Inni á geðdeild kynntist ég strák sem ég varð yfir mig hrifin af, ég sá ekki sólina fyrir honum og var sannfærð um að nú þegar við værum saman þá yrði allt betra. Hann var inni á deild því hann hafði farið í geðrof vegna neyslu. Það er óhætt að segja að ég var tilbúin til þess að gera nánast hvað sem er til þess að halda í okkar samband. Ég batt allar mínar vonir við að þjáningar mínar hyrfu með þessu sambandi. Svo var ekki.

Var tilbúin til þess að nýta þetta nýja bjargráð

Við héldum áfram að vera saman eftir að við vorum bæði útskrifuð af geðdeildinni. Ég fór oft og hitti hann og var hjá honum án þess að segja foreldrum mínum hvar ég væri því ég vissi að þau myndu banna mér að hitta hann. Okkar sambandi fylgdi fikt því ég var enn leitandi að töfralausn til þess að flýja og komast hjá því að vera föst í eymdinni sem fylgdi huga mínum. Við fórum í partý sem voru mér mjög framandi, hvað þá að þau væru á virkum dögum. Í þessum partýum var mikið um allskonar vímuefni sem fólk notaði frjálslega, það skemmtu sér allir svo vel en fyrst og fremst virtist öllum líða vel sem var jú mitt markmið.

Hann missti þó fljótt áhugann á mér og við hættum saman. Ég hélt að heimurinn myndi farast, nú væri hægt að setja síðasta naglann í kistuna því ég gæti ekki meira og ég vildi grípa í þetta nýja bjargráð sem ég hafði kynnst. Ég hafði misst viljann til þess að lifa. Á þessum tímapunkti greip mig sterkt net af fjölskyldu og vinum og þar að auki geðlæknir og sálfræðingur. Hann hélt áfram að nota og hefur farið í nokkrar meðferðir síðan við sáumst síðast.

Það vill enginn vera í þessari stöðu

Mér finnst mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að fíkn er ekki eitthvað sem einstaklingar velja. Það er enginn sem vaknar einn daginn og hugsar með sér að í dag sé dagurinn sem hann mun sprauta sig í fyrsta skipti. Vímuefnavandi er flókinn, margslunginn og einstaklingsbundinn. Mín saga er ein af mörgum og örugglega ekki frábrugðin sögum sem margur annar kann að hafa, hvort sem fólk á við vímuefnavanda að stríða eða ekki. Ég er þó fyrst núna að horfast í augu við hvað hvaða stefnu líf mitt hefði hæglega getað tekið. Ég er ótrúlega heppin að hafa þak yfir höfuðið og hafa heilsu til þess að sinna dóttur minni.

Mig langaði til þess að segja mína sögu í tilefni þess að í gær var alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn. Það hefur verið mikil umræða í samfélaginu hjá okkur um vímuefnavanda en mér þykir það þó oft gleymast að fólk sem glímir við fíkn er veikt. Mikil áhersla hefur verið lögð á það hvernig við getum forðað yngri kynslóðum frá því að feta þennan veg en gleymum hvað við getum gert til þess að styðja við þá sem eru í aðstæðunum í dag. Fordómar sem vímuefnaneytendur verða fyrir eru eitt stærsta vandamál þeir þurfa að horfast í augu við daglega og það er eitthvað sem við í samfélaginu getum og verðum stuðlað að því að breyta.

Ef þú hefur áhyggjur af vímuefnaneyslu einhvers sem er þér náinn eða þinni eigin neyslu þá er hægt að hafa samband við SÁÁ í síma 530-7600 og bóka viðtal við ráðgjafa. Einnig er hægt að hafa samband við heilsugæsluna eða við hjálparsíma Rauða Krossins 1717 ef þig vantar frekar stuðning.

Jónína Sigurðardóttir

Ritstjórn

Jónína Sigurðardóttir er meistaranemi í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á áhættuhegðun og forvarnir fyrir börn og ungmenni. Hún starfar sem ráðgjafi á velferðarsviði hjá Reykjavíkurborg fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jónína á 11 ára gamla dóttur og hefur mikinn áhuga á velferðarmálum.