Hvor er betri, hver er bestur?

eftir Rebekka Rún Jóhannesdóttir

Flestir nemendur hafa eflaust einhvern tímann á námsferli sínum fengið einkunn á prófi eða í áfanga sem þeir telja ekki nógu góða. Þá eru þeir hughreystir með því að einkunnir skipti ekki svo miklu máli og að horft sé á margt annað þegar verið er að meta þá. Þrátt fyrir það eru nemendur stöðugt að keppast við að vera með sem hæstu einkunnirnar til þess að auka möguleika þeirra á góðu starfi eða góðu framhaldsnámi. Þó er ekki samasemmerki á milli þess að keppast um hæstu einkunnirnar og að keppast við að læra sem mest. Vísbending um það er meðal annars þegar nemendur gleðjast yfir því ef tímar falla niður eða ef næst ekki að fara yfir allt námsefnið fyrir lokapróf.

Þá vaknar sú hugsun hvort einkunnir eins og þær eru gefnar í dag endurspegli í raun og veru hæfni nemanda og atvinnuumsækjanda? Geta atvinnurekendur gengið út frá því að þegar þeir meta tvo einstaklinga út frá einkunnum einum saman, að þeir geti valið hæfari einstaklinginn? Að sjálfsögðu spila margir aðrir þættir inn í hæfni umsækjanda fyrir tiltekið starf, en oft ættu einkunnir að geta endurspeglað einstaklinginn betur en þær gera í raun.

Þekking, leikni og hæfni

Með aukinni þekkingu sem og viðurkenningu á sértækum námsörðugleikum og geðsjúkdómum nemenda hefur umræðan um mikilvægi fjölbreytilegra kennsluaðferða aukist. Fjölmargir kennarar og oft heilu skólarnir hafa brugðist við þessum fjölbreytta hóp sem nemendur eru og aðlagað kennslu og námsmat svo það endurspegli betur raunverulega hæfni og þekkingu nemenda.

Skólar á Íslandi verða að vera samtaka í þróun á kennsluaðferðum og námsmati til þess að sem flestir nemendur geti látið ljós sitt skína óháð skólastigi. Háskólar nú til dags eru byggðir þannig upp að þeir henta best þeim sem eiga auðvelt með að læra á bókina og einna helst þeim sem eiga auðvelt með að læra fyrir lokapróf. Þeir sem glíma við námsörðugleika og eiga erfitt með að læra fyrir lokapróf, þrátt fyrir að hafa mikla þekkingu á efninu, gætu staðið færri tækifæri til boða þegar út í atvinnulífið er komið, þá sérstaklega ef atvinnurekendur horfa á einkunnir sem endurspegla aðallega lokapróf.

Í mörgum áföngum eru lokapróf ekki endilega rétta leiðin til þess að meta hæfni og þekkingu nemenda á viðfangsefni áfangans. Jafnframt er vægi þeirra oft of hátt. Lokapróf endurspeglar að vissu leyti hæfni nemenda til þess að ná tökum á miklu efni í einu en sýna hins vegar ekki alla hans kunnáttu né getu til að nýta áunna þekkingu í raunveruleg verkefni. Frammistaða í lokaprófum veltur oft á dagsformi nemenda og jafnvel heppni. Til dæmis fá nemendur í munnlegum prófum í mörgum tilfellum að draga einungis eina spurningu og ræður svarið við þessari spurningu stórum hluta af lokaeinkunnin áfangans. Það er alls ekkert að því að námsmat krefjist yfirgripsmikillar þekkingar á námsefninu en það er ósanngjarnt að láta það ráðast á einni spurningu eða á mjög takmörkuðum hluta námsefnisins.

Skilvirkara námsmat

Það mætti oft halda að háskólar séu að undirbúa fólk til þess að halda endalaust áfram í háskóla, en ekki til þess að mennta fólk fyrir atvinnulífið. Með lokaprófum er einungis verið að mæla þekkingarviðmið en þau sýna ekki leikni og hæfni til þess að vinna í hópum eða takast á við stór og krefjandi verkefni. Mörg dæmi eru um það að nemendur sem gera lítið sem ekkert yfir önnina, læra svo fyrir lokapróf og enda með sömu einkunn og þeir sem hafa unnið samviskusamlega alla önnina. Ef atvinnurekandi er að bera þessa tvo einstaklinga saman út frá einkunnum einum saman, þá sér hann ekki augljóslega hvor er í raun hæfari að vinna með í hóp og að vinna samviskusamlega yfir lengri tíma. Því ættu skólarnir að draga úr vægi lokaprófa og undirbúa þannig alla nemendur í að þurfa stöðugt að vinna verkefni og geta því atvinnurekendur gengið út frá því að einkunnirnar endurspegli hina sönnu kosti einstaklinga – dugnað, samviskusemi og vinnusemi svo fátt eitt sé nefnt.

Að vinna í hóp er ein mikilvægasta reynsla sem háskólar geta gefið nemendum sínum. Það munu allir þurfa einhverntímann á lífsleiðinni að vinna með öðru fólki og því mikilvægt að æfa sig í því. Auk þess getur hver hópmeðlimur komið með þekkingu eða færni inn í hópinn sem aðrir geta lært af. Hópverkefni eru þó ekki gallalaus og einna helsta er erfitt að eiga við svokallaða laumufarþega. Þó það sé kannski erfitt að koma í veg fyrir þá, þá er einnig mikilvægt að hafa einstaklingsverkefni til þess að þessir nemendur fari ekki í gegnum námið á annarra manna vinnu. Einnig eru regluleg hlutapróf góð leið til þess að meta nemendur jafnt og þétt yfir önnina.

Í draumaheimi væri hver og einn nemandi metinn út frá hans eigin forsendum og verðleikum frá upphafi til enda. Fylgst væri með þekkingu hans, leikni og hæfni þróast frá byrjun áfangans og þar til áfanganum er lokið. Það gefur augaleið að það er nánast ómögulegt og lokapróf er mun einfaldari leið fyrir kennara til þess að meta nemendur sína. En það er ófullnægjandi aðferð ein og sér.

Til framtíðar

Kennarar ættu að meta nemendur sína jafnt og þétt yfir kennslutímabilið en ekki einungis þegar því lýkur. Fyrir hvert fag þarf að hanna námsmat sem hentar því efni sem er til kennslu. Námsmatið þarf að vera fjölbreytt, halda nemendum við efnið og vera um leið skilvirkt. Það ætti ekki að leggja áherslu á að nemendur læri heilu áfangana utanbókar fyrir próf í lok annar heldur byggja námsmatið upp með reglulegum hlutaprófum, einstaklingsverkefnum og hópaverkefnum. Æskilegra væri að leyfa nemendum að nýta efni áfangans í raunhæfum verkefnum til að dýpka skilning þeirra og auka færni sem nýtist þegar út á vinnumarkaðinn er komið. Það er hvorki kennaranum né nemandanum til hagsbóta að nóg sé að læra námsefnið eins og páfagaukur til að þess að fá fínustu einkunn án þess að nokkuð sitji eftir til lengri tíma. Því þá er kennarinn ekki að koma sinni þekkingu á framfæri né nemandinn að meðtaka hana sem veganesti út í lífið.

Rebekka Rún Jóhannesdóttir

Pistlahöfundur

Rebekka Rún er með BSc gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún gegndi embætti formanns Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík skólaárið 2016-2017 og var árið áður formaður nemendafélags tækni- og verkfræðinema í HR. Hún er stúdent úr Verzlunarskóla Íslands og starfar hjá Arion banka. Skrif Rebekku í Rómi beinast að málefnum líðandi stundar.