Hvít eða rauð jól?

eftir Jórunn Pála Jónasdóttir

Margir kvarta nú sáran undan fríi komandi hátíða sem verða svokölluð atvinnurekendajól. Það þýðir að þetta árið mun aðeins einn rauðan dag bera upp á virkum degi eða annan í jólum þann 26. desember sem verður á mánudegi. Fyrir starfsmenn í dagvinnu og fullu starfi mun hið eiginlega jólafrí því aðeins verða einn dagur, ein „löng helgi“. Þó nokkrir vinnustaðir, bæði einkaaðilar og opinberir, t.d. Landsspítalinn, hafa nú þegar brugðist við stöðunni og gefið starfsmönnum sínum einn eða tvo auka frídaga. Til þess ber þeim þó engin skylda, hvorki samkvæmt ákvæðum laga né kjarasamninga. Það er því hugsanlegt að einhverjir vinnustaðir gefi ekkert aukafrí.

Fríið ,,Mánudagað”

Í mörgum Evrópulöndum, t.d. í Belgíu, Lúxemborg, Spáni og Bretlandi eiga starfsmenn lögbundinn rétt á frídegi á mánudegi í staðinn fyrir frí sem þeir verða af ef hátíðisdagur lendir á helgi. Í Kanada er einnig sami háttur hafður á. Það er hins vegar ekki algilt og fyrirfinnst sama fyrirkomulag og á Íslandi (þ.e. engin lögbundin skylda til að veita ,,mánudagað frí”) í öðrum löndum, t.d. í Frakklandi, Möltu og Svíþjóð.

Í Svíþjóð eru kjaramál að mestu leyti ákveðin í samningum stéttarfélaga og atvinnurekanda með svipuðum hætti og á Íslandi. Þar geta því verið undantekningar á meginreglunni eins og gildir til dæmis um starfsmenn í veitinga- og hótelbransanum sem eiga rétt á einum auka frídegi lendi hann á helgi og einn auka frídag ef vinna þarf á hátíðisdögum. Í enn öðrum löndum er síðan enginn lögbundinn réttur til launa á opinberum frídögum yfirhöfuð, til að mynda í Bandaríkjunum.

Er þetta svo slæmt?

Þessi staða hefur komið upp áður, síðast árin 2011 og 2005. Líklega munu margir ef ekki flestir vinnuveitendur á Íslandi gefa 1-2 daga í aukafrí þrátt fyrir að þeim beri ekki lagaleg skylda til þess. Þá ályktun byggir undirrituð þó ekki á öðru en almennum umræðum og væri áhugavert að fá staðreyndir þar um.

Að því gefnu að staðan sé hins vegar sú að flestir gefi frí gæti það þýtt að starfsmaðurinn fái í heildina fleiri frídaga samanborið við lönd þar sem lögfest hefur verið skylda til þess að gefa frí fyrir eða eftir helgi þegar rauðir dagar lenda á helgi. Niðurstaðan er því að á endanum fá flestir auka frí þetta árið en þeir munu engu að síður njóta ávaxtanna af veglegu jólafríi í ,,betra árferði” án þess að til umræðu komi að klípa af frídaga það árið.

Aukafríið er þó ekki tryggt, og þá má hugsa sér hvort betra jafnvægi næðist með því að lögfesta regluna um að fríið skuli ,,mánudagað” þegar hátíðisdagana ber upp eins og þeir gera þetta árið. Slíkar breytingar verður þó að gera með talsverðum fyrirvara svo að þær verði sjáanlegar á prentuðum dagatölum o. s. frv. Í Kóreu árið 2014 voru gerðar svipaðar breytingar vegna hátíðahalda í september þannig að opinberum vinnustöðum bæri skylda til þess að veita frí en einkaaðilar hefðu um það frjálst val. Þegar frídaginn bar upp í fyrsta skipti varð mikill ruglingur og einhverjir mættu til vinnu án þess að þurfa þess.

Horfurnar árið 2017

Frídagar á Íslandi eru að meðaltali 11 á ári en þeir verða flestir 13 og fæstir 9, allt eftir því hvort þá beri upp á virkum degi eða um helgi. Til gamans (eða ekki) má geta þess að árið 2017 verða frídagarnir 10. Þjóðhátíðardagurinn 17. júní verður á laugardegi en í það minnsta er páskafríið mjög hentugt og býður upp á 10 daga samfleytt frí. Jólin 2017 verða eilítið hagstæðari en jólin 2016 hvað frídaga varðar þó að einhverjir rauðir dagar muni líka bera upp á helgi.  Eitthvað lengra er í það sem hefur verið kallað stóru brandajól, þegar fyrsta hátíðisdaginn af mörgum ber upp á mánudegi eða þriðjudegi þannig að margra frídaga megi vænta í röð. Slík staða verður næst upp á teningnum árin 2018 og 2019.

 

Jórunn Pála Jónasdóttir

Pistlahöfundur

Jórunn Pála er lögfræðingur og búsett í Reykjavík. Hún sat áður sem formaður LÍS, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs formaður Vöku fls., og gjaldkeri Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík. Hennar helstu áhugamál eru hjólreiðar, fjallgöngur og ferðalög.