Hvert sigla Píratar?

eftir Ritstjórn

Framan af var vikan sem leið heldur tíðindalítil í pólitíkinni, enda skiljanlega fátt annað sem komst að en glæsilegur árangur íslenska landsliðsins á Evrópumeistaramótinu í fótbolta. Viðsnúningur varð þó á tíðindaleysinu á föstudaginn var en þá dró til stórtíðinda í flokki Pírata, svo vægt sé til orða tekið.

Meðal fregna sem bárust úr herbúðum Pírata voru að Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sæi ekki fyrir sér að taka við ráðherrastóli, kæmust Píratar í þá stöðu að mynda ríkisstjórn og að Gunnar Hrafn Jónsson, fréttamaður á Ríkisútvarpinu hefði sagt starfi sínu lausu til að ganga til liðs við flokkinn.

Stærstu tíðindin voru þó vissulega brotthvarf Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, af þingi en hann tilkynnti að hann hyggðist ekki koma til með að gefa kost á sér í næstu kosningum til Alþingis þar sem hann ætlaði sér að einbeita sér að innra starfi Pírata. Væntanlega eru þessar fréttir mikið áfall fyrir Pírata en Helgi hefur verið sagður prímussmótorinn í starfi Pírata á Alþingi. Þá hefur hann enn fremur getið sér góðs orðs meðal þingmanna úr öllum flokkum fyrir vasklega framgöngu á Alþingi.

Mörgum Pírötum hugnast eflaust ekki brotthvarf Helga en í þriggja manna þingflokki þeirra, eins og flestum er kunnugt, hafa sprottið upp þrálátar illdeildur sem ekki tókst að leysa án aðkomu vinnustaðasálfræðings.

Fyrr í vetur skapaðist til að mynda megn óánægja með titlatog Birgittu Jónsdóttur á þessu kjörtímabili en hún hefur oftar en ekki látið í það skína að hún sé nokkurs konar formaður Pírata. En eins og alþjóð veit búa Píratar ekki við hefðbundið flokksskipulag sem hefur oftar en einu sinni orðið þeim til trafala, enda veikir það flokkinn þegar kemur að því að taka á erfiðum ágreiningsmálum.

Mikil hræðsla virðist hafa gripið um sig í röðum Pírata en Rómverjum hefur borist til eyrna frá mætu fólki innan raða þeirra að menn óttist að Birgitta muni reynast flokknum erfið eftir kosningar næsta haust. Óttinn liggur helst í því að hún reyni enn og aftur að taka sér einhvers konar stöðu formanns án titils í krafti reynslu.

Sá ótti er augljóslega ekki á sandi byggður þar sem Birgitta sá ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni þar sem hún tilkynnti um að hún hyggðist ekki taka við ráðherrastól eins og áður greinir. Heldur sæi hún fyrir sér að hún myndi nýtast betur sem forseti Alþingis og vísaði þar til reynslu sinnar af þingstörfum, sem er raunar ígildi ráðherraembættis eins og reynslumiklu fólki er kunnugt.  Í sömu yfirlýsingu sá Birgitta ástæðu til að ítreka að Helgi væri ekki að hætta heldur eingöngu færa sig til og bætti við: „Hann kemur svo tvíelfdur af reynslu og orku inn á þing á þarnæsta kjörtímabili. Þá verð ég horfin úr þingheimum og vonandi verða margir búnir að öðlast dýrmæta reynslu til að miðla til næstu kynslóðar hins nýja Íslands.“

Þó Birgitta vísi til reynslu sinnar af þingstörfum verður ekki séð af störfum hennar að hún hafi veigamikla reynslu af farsælum málamiðlunum, sem er jú eitt helsta verkefni forseta Alþingis. Á kjörtímabilinu hefur ekki tekist að halda spekt í þriggja manna þingflokki Pírata, líkt og áður sagði. Beri Birgitta einhverja ábyrgð á óspektum í Pírata-tríóinu, má velta fyrir sér hvort hún geti valdið embætti forseta Alþingis. Málflutningur hennar á kjörtímabilinu hefur í það minnsta ekki litast af þeirri yfirvegun sem embætti forseta Alþingis hefur sveipað frá því menn muna.

 

 

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.