Hvers vegna að útskrifast?

eftir Tryggvi Másson

Á morgun brautskráir Háskóli Íslands yfir 2000 kandídata frá skólanum og ég er einn þeirra. Af þeim 204 sem byrjuðu með mér í fullu námi við viðskiptafræði fyrir þremur árum eru 47 að útskrifast. Það gera rúm 23% sem útskrifast á „réttum og tilsettum tíma“. Þessum hugtökum hefur ítrekað verið fleygt fram í umræðunni um hæga námsframvindu Íslendinga samanborið við önnur OECD lönd.

Það er vissulega rétt að íslenskir háskólanemar eru elstir kollega sinna í OECD löndunum við innritun í háskóla (26,5 ára að meðaltali) og þeir útskrifast jafnframt elstir (31 ára að meðaltali). Þrátt fyrir þetta er brautskráningarhlutfallið hæst hér á landi eða 60%. Það er því eitthvað sem vantar. Af hverju útskrifum við flesta en erum lengst að því? Getur verið að það séu einhverjar aðrar ástæður að baki?

Menntun ekki metin til launa

Hagstofa Ísland skaut háskólanemum skelk í bringu með útgáfu sinni á heftinu Hagtíðindum síðasta sumar þar sem birtar voru niðurstöður lífskjararannsóknar stofnunarinnar. Í því kom fram að munur á ráðstöfunartekjum eftir menntun væri minnstur á Íslandi af öllum Evrópulöndnum. Með öðrum orðum má segja að menntun sé minnst metin til launa á Íslandi.

haskolamenntun

Líkt og sjá má á myndinni hér að ofan eru Íslendingar með grunnmenntun mjög vel settir, með fjórðu hæstu launin, en eftir því sem menntunarstigið hækkar þá heltumst við úr lestinni. Þeir sem eru því aðeins með grunnmenntun fá 87,7% af launum háskólamenntaðra og þeir sem eru að auki með starfs- og framhaldsmenntun eru með 91,6% af tekjum háskólamenntaðra. Síðastliðin 10 ár hefur þetta bil minnkað umtalsvert og gert Ísland að þeirri þjóð sem metur háskólanám minnst til launa.

grunnmenntun

Þetta eru grafalvarleg tíðindi því menntun er fjárfesting einstaklinga og hins opinbera í framtíðartekjum þeirra. Ef einstaklingar sjá ekki tækifæri í því að mennta sig munu þeir leita annað,  erlendis að menntun lokinni eða einfaldlega sleppa því að mennta sig. Að sama skapi treystir hið opinbera því að sú fjárfesting sem það leggur í menntun þegna sinna skili sér til baka í auknum skattekjum til lengri tíma litið.

Ungt fólk setið eftir í kaupmáttaraukningu

Til þess að bæta gráu ofan á svart birti Greiningardeild Arion banka greiningu um kaupmáttaraukningu aldurshópa frá árunum 1990 – 2014. Í henni kemur fram að ráðstöfunartekjur jukust á föstu verðlagi að meðaltali um 41% á tímabilinu. Það væri ekki frásögu færandi nema ef fólk frá aldrinum 16-29 ára hefði ekki setið eftir í þessari kaupmáttaraukningu. Ráðstöfunartekjur fólks á aldrinum 16-19 ára drógust saman um 17% á þessum árum, jukust um 7% hjá fólki á aldrinum 20-24 og hækkuðu um 13% hjá fólki á aldrinum 25-29 ára. Þetta er þó umtalsvert lægri kaupmáttarhækkun en hjá öllum öðrum aldurshópum.

kaupmattur

Arion banki ítrekar svo í lok greiningarinnar að þegar kaupmáttur ungsfólks sé skoðaður í samhengi við þróun fasteignaverðs síðustu ár, sé jafnvel tilefni til þess að staldra við. Á meðan kaupmáttur þessa hóps hefur nánast staðið í stað hefur húsnæðisverð hækkað um 58% umfram vísitölu neysluverðs og leiguverð einnig hækkað um 88%. Með þessari þróun verður því sífellt erfiðara fyrir ungt fólkt að koma undir sig fótunum.

Er háskólanám þess virði?

Nei líklega ekki. Það er því ljóst að það er eitthvað annað og meira sem er að halda nemendum lengur í námi heldur en eilíft skemmtanalíf og frestunarárátta. Að fá nemendur til þess að útskrifast á „réttum og tilskildum tíma,” verður ekki hægt nema þeir sjái hag sinn í að útskrifast fyrr en ella. Þekking þekkingarinnar vegna er ágæt. Það er þó ljóst að ef þau ár sem nemendur leggja stund á háskólanám skila sér ekki í auknum tekjum að útskrift lokinni er lítil hvatning fyrir viðkomandi að hefja nám og hvað þá að ljúka því.

Hvert ár sem fer í menntun sem ekki er metin til launa er því í raun töpuð fjárfesting nemenda, sem gætu frekar verið að afla bæði sér tekna, og raunar hinu opinbera líka, sem fær ekki væntar framtíðarskatttekjur.

Þrátt fyrir þetta útskrifast 60% þeirra sem hefja háskólanám. En til hvers? Til þess að flytja til útlanda, þar sem menntun er metin að verðleikum og koma til baka einhverntímann eftir þrítugt. Ekki galin hugmynd. Sjálfur mun ég allavega velta henni upp eftir útskriftina á laugardaginn.

Tryggvi Másson

Ritstjórn

Tryggvi er viðskiptafræðingur sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands vorið 2016. Hann starfar sem sérfræðingur á Efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins. Tryggvi var hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 ásamt því að sitja í ráðinu og hefur áður setið í stjórn Vöku fls. Aðaláhugamál Tryggva eru félagsstörf, hagsmunabarátta og stjórnmál. Skrif hans í Rómi eru að mestu leyti tengd menntamálum og viðskipta- og efnahagsmálum.