Hvernig vinnum við Englendinga í vító?

eftir Hjalti Óskarsson

Stærsti leikur íslensku knattspyrnusögunnar verður spilaður í Nice í kvöld þegar íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu keppir við það enska í 16-liða úrslitum á EM. Þó ég hafði hugsað mér að skrifa um eitthvað annað en fótbolta gat ég ekki með nokkru móti hugsað um annað, eins og líklega flestir Íslendingar um þessar mundir.

Þar sem riðlakeppnin er búin og útsláttarkeppnin hafin verður að spila til sigurs. Því gæti leikurinn endað með vítaspyrnukeppni til að skera úr um það hver fer áfram, og hver fer heim. En væri gott fyrir Íslendinga að fara í vító á móti Englandi? Örugglega. Englendingar hafa vægast sagt staðið sig illa í vítaspyrnukeppnum seinustu ár og hafa tapað 6 af seinustu 7 vítaspyrnukeppnum.

Mér fannst ekki nóg að vita til þess að Englendingar séu slakir á punktinum heldur vildi ég vita hvað íslenska liðið gæti gert til að auka líkur á sigri – endi leikurinn á vítaspyrnukeppni. Þannig ég fór að skoða hver helstu bragðvísi og kænskubrögð leikmanna sem taka þátt í vítaspyrnukeppnum væru.

Bestu aðferðir í vítaspyrnukeppni

Vítaspyrnukeppnir hafa stundum verið gagnrýndar fyrir að vera of handahófskenndar til að vera sanngjörn leið til að skera úr um sigurvegara en þær hafa skorið úr um sigurvegara í mörgum mikilvægum leikjum, til dæmis í úrslitaleik heimsmeistaramóts 1994 milli Brasilíu og Ítalíu og 2006 milli Ítalíu og Frakklands. Þó vítaspyrnukeppnir byggi að stórum hluta á heppni, er áhugavert að skoða hvort það sé hægt að auka líkurnar á sigri með einhverjum leikáætlunum, ákvörðunum leikmanns og markmanns.

Fyrir árið 1974 var hefðin sú að leikmenn spörkuðu boltanum í annað hvort horn marksins og nánast óþekkt að skotið væri í mitt markið. Þá var best að reyna að lesa andstæðinginn og velja horn af handahófi. Árið 1974 skoraði hollenski miðjumaðurinn Johan Neeskens hins vegar sögulegt mark úr vítaspyrnu á HM með því að skjóta í mitt markið snemma í úrslitaleik við Þjóðverja. Tveimur árum síðar skoraði síðan tékkóslóvakíski leikmaðurinn Antonin Panenka álíka sögulegt, og líklega þekktasta mark skorað út vítaspyrnu, í úrslitum á EM 1976 úr lokaspyrnu í vítaspyrnukeppni gegn Þjóðverjum þegar hann vippaði í mitt markið á meðan markvörðurinn stökk til vinstri.

Þegar þriðja möguleikanum er bætt við, að skjóta í mitt markið, aukast líkurnar á því að spyrnumaðurinn skori og líkurnar minnka á því að markvörður verji. Það er vegna þess að markvörðurinn vill velja sama stað og spyrnumaðurinn, en spyrnumaðurinn vill velja stað sem markvörðurinn fer ekki á. Besta aðferðin er því aftur að velja af handahófi milli þess að skjóta til hægri, vinstri eða í miðju.

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á vítaspyrnukeppnum og gögn tekin saman og skoðuð. Í einni mjög áhugaverðri grein tók hagfræðingur saman gögn úr þýsku deildinni. Þar var sýnt að líkur á því að skora úr vítaspyrnu eftir 1976, þegar fótboltamenn fóru að skjóta líka í miðjuna, voru 11% hærri en þær voru fyrir. Í þessum tölum kemur þó ekki fram hvert á markið spyrnumenn skutu eða hvaða stað markmenn völdu og því erfitt að draga stórar ályktanir af þeirri niðurstöðu en hún er vissulega áhugaverð því áhrifin eru í sömu átt og líkurnar myndu segja til um.

Það er hægt að auka líkurnar á marki

Ýmis atriði hafa verið tekin saman sem geta haft áhrif á sigur í vítaspyrnukeppnum. Ein rannsókn tók saman gögn um vítaspyrnur í frönsku og ítölsku deilarkeppninni frá 1997 – 2000. Þar var skoðað hvert á markið leikmenn skjóta, hvert markmenn stökkva og hversu oft var skorað. Þar kom í ljós að leikmenn velja síður að skjóta í mitt markið en í annað hvort hornið. Markmenn velja enn síður miðjuna en spyrnumenn. Ef skotið er á mitt markið eru líkurnar á að boltinn endi í netinu því aðeins hærri. Skot á mitt markið endaði til að mynda með 81% líkum í markinu, skot í hægra hornið skilaði sér í markið í 70,1% tilvika en skot í það vinstra gerði það í 76,7% tilvika.

Sálfræðilegi þátturinn vegur líklega  þungt í vítaspyrnukeppnum og margar rannsóknir sem hafa verið gerðar á honum benda til þess. Til að mynda hefur verið sýnt fram á að liðið sem byrjar vítaspyrnukeppnina vinnur í 60% tilvika. Að láta markmann vera í rauðum búning getur einnig aukið líkurnar á að hann verji skotið. Best væri einnig að láta bestu spyrnumennina vera seinna í röðinni, vegna þess að seinni skotin valda meira stressi. Einnig virðist vera að ef leikmaður fagnar mjög mikið eftir mark úr vítaspyrnu getur það smitað hina leikmennina með góðum anda sem aftur getur aukið líkurnar á sigri.

2016_06_26 vito

Komi til þess að leikurinn endi í vítaspyrnukeppni ætti íslenska liðið ekki að hafa miklar áhyggjur því Englendingarnir eru hrikalegir í vítaspyrnukeppnum. Hins vegar er ekki verra að auka líkur Íslendinga með því að ákveða að byrja vítaspyrnukeppnina vinni þeir peninga kastið, setja Hannes í rauðan búning, láta Gylfa skjóta síðastan og hvetja alla leikmenn til að fagna rosalega eftir heppnaða vítaspyrnu. En Lars er líklega með þetta allt á hreinu.

 

Ljósmynd í haus fengin af hinum ótrúlega vef Google.

Hjalti Óskarsson

Pistlahöfundur

Hjalti er búsettur í Stokkhólmi og stundar meistaranám í hagfræði við Stokkhólmsháskóla. Áður útskrifaðist hann úr grunnnámi í hagfræði úr Háskóla Íslands og sat í ritstjórn Hjálma, tímarits hagfræðinema við HÍ. Helstu áhugamál hans eru hagfræði, stjórnmál, þungarokk, knattspyrna, vel bruggaður bjór og viskí.