Hvernig urðum við svona rík?

eftir Ásgeir Friðrik Heimisson

Á síðustu tveimum öldum hefur mannkynið brotist út úr ánauð fátæktar með tilheyrandi bættum lífskjörum. Þeim sem búa við fátækt hefur fækkað meira á síðustu 50 árum en 500 árunum þar á undan. Samkvæmt Alþjóðabankanum (e. World Bank) búa núna undir 10% mannkynsins við sárafátækt. Þetta hlutfall hefur fallið frá því að vera 44% árið 1981 og 37% árið 1991. Alþjóðabankinn skilgreinir sárafátækt sem það að hafa $1,9 eða minna á dag til þess að lifa.

Samhliða þessari þróun hefur meðal verg landsframleiðsla á mann stóraukist á heimsvísu, eða farið úr því að vera $4.646 árið 1967 í að vera $10.169 árið 2015 (World Bank, 2016). Til að setja þessar tölur í samhengi, má líta á mynd 1 hér að neðan sem sýnir hvernig meðal VLF á mann á heimsvísu hefur stóraukist seinustu 200 árum mælt í US$ (fast international US$ 1990 verðlag).

medalvlf

Heimild:  Maddison 2007, bls. 382, tafla A.7 og Alþjóðabankinn.

Eins og sjá má var gott sem enginn hagvöxtur allt frá fæðingu krists til um það bil ársins 1850 eða um 0,03% á ári að meðaltali. Langflestir eru sammála að hægt sé að rekja þann uppgang sem hefur átt sér stað eftir 1850 til iðnbyltingarinnar sem hófst í Bretlandi seint á 18. öld og uppgangs kapítalísks markaðskerfis sem henni fylgdi.

En hverning stendur á því að þessi uppgangur átti sér stað svona seint og hverning stendur á því að hagvöxtur var næstum því enginn allt fram að 18. öld. Að auki má spyrja hvernig stendur á því að iðnbyltingin átti sér stað í Bretlandi, en ekki annars staðar.

Stofnanir

Svarið við þessari spurningu er frekar flókið og efni í heila bók. Flestir eru sammála því að skýringin á þessum mikla vexti séu skilvirkar stofnanir. Skilvirkar stofnananir leiða af sér tryggari eignarrétt og skapa þannig hvata fyrir einstaklinga til að haga gjörðum sínum þannig að hagur samfélagsins verði hámarkaður (North, 1976).

En hvað eiga hagfræðingar við þegar þeir tala um stofnanir? Stofnanir eru hugarsmíð mannsins. Stofnanir eru þær reglur og takmarkanir sem samfélagið hefur getið af sér, annað hvort hannaðar af mönnum eða mótaðar vegna hefða yfir langan tíma og móta mannleg samskipti. Stofnanir búa til hvata fyrir ákveðna samskiptahefð manna á milli, hvort sem samskiptin eru pólitísks, félagslegs eða efnahagslegs eðlis. Viðskipti eru alltaf háð óvissu og óvissa leiðir af sér viðskiptakostnað. Stofnanir geta aukið eða minnkað þessa óvissu og gert mönnum mögulegt að hagnast á viðskiptum. Stofnanir geta verið bæði óformlegar, eins og menning, hegðun sem er eðlileg innan hvers samfélags og önnur félagsleg norm og formlegar, eins og lög og reglur og stjórnarskrá. Fólk bregst við hvötum og stofnanir samfélagsins búa til það hvatakerfi sem hefur áhrif á fólk. Í því ljósi verður að athuga að þó yfirvaldið kunni að setja lög með ákveðin áhrif í huga er ekki víst að löggjöfin hafi tilætluð áhrif. Þá verður að skoða hvaða hvata slík löggjöf felur í sér, og hvernig hún fellur að formlegu og óformlegu stofnanaumhverfi sem er þegar til staðar, og hvort framfylgdaraðferðir séu nægilega skilvirkar til að fólk fari eftir lögunum (Óskarsson, 2015).

Ef litið er á hagkerfi heimsins, þá virðast vera sterk tengsl á milli mikillar framleiðslugetu og framleiðni við sterkan og vel skilgreindan eignarétt með viðeigandi framfylgdaraðferðum. Á hinn bóginn, þar sem eignaréttur er ekki sterkur eða ekki til staðar, eru framleiðsla og framleiðni almennt mjög léleg eða nánast ekki til staðar. Einnig má oft sjá að þar sem eignarétti er komið á og er vel skilgreindur fylgir gjarnan stökk í hagvexti. Það má því leiða líkur að því að einn mikilvægasti þáttur í hagstefnu ætti að vera að auka og styrkja kerfi sem styður við eignarétt.

Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart. Samkvæmt kenningum hagfræðinnar er skilvirk og hagkvæm framleiðsla best tryggð með markaðsfyrirkomulagi. Þetta er vegna þess að markaðsverð er ekki einungis merking í búð, heldur ber verðið með sér allar upplýsingar um eðli vörunnar. Markaðsverð er sérlega mikilvægt því það gefur til kynna hvaða not yrðu af gæðum ef þau eru notuð í aðra framleiðslu. Ef nota á landsvæði eða aðföng á sem hagkvæmasta hátt þarf að gera sér grein fyrir ólíku virði gæðanna við mismunandi notkunarmöguleika. Þar sem framboð og eftirspurn ná saman endurspeglar þessar upplýsingar.

Eftirfarandi skilgreining á við um það sem hefur verið nefnt fullkomin samkeppni. Allir hagfræðingar vita þó að fullkomin samkeppni er ekki til heldur er það bara líkan sem er notað til að reyna að túlka raunveruleikann og hver áhrif ákveðinna aðgerða eru á heiminn. En til þess að markaðskerfið geti virkað á sem bestan hátt fyrir hag alls þjóðfélagsins þurfa stofnanir samfélagsins að vera skilvirkar og tryggja eignarréttarskipan, en viðskipti geta til dæmis ekki átt sér stað án eignarréttar þar sem viðskipti eru ekkert annað en skipti á eignum.

Hagfræðikenningar geta gefið okkur nokkuð góða ástæðu fyrir því afhverju mannkynið hefur búið við svona viðvarandi hagvöxt með tilheyrandi velferðaáhrifum fyrir allt mannkynið. Samkvæmt líkani Solow getur langvarandi sjálfbær hagvöxtur einugis átt sér stað með tækniframförum. Samt sem áður svarar líkanið ekki þeirri spuningu hver sé uppspretta tækniframfara, þ.e. hvað veldur tækniþróun. Þá er hægt að spyrja sig, áttu sér engar tækniframfarir stað fyrir iðnbyltinguna? Flestir ættu að gera sér grein fyrir því að svo sé ekki. Þá er enn frekar hægt að spyrja sig af hverju áttu sér stað tækniframfarir ef eignarréttur var ekki tryggður? Svarið er að margir samliggjandi þættir komu saman fyrir u.þ.b. 250 árum síðan sem gerði það að verkum að mannkyninu tókst loksins að brjótast úr ánauð fátæktar.

Hvað gerðist fyrir 250 árum síðan?

Í raun þarf að líta lengra aftur í tímann til þess að geta útskýrt hvað gerðist eiginlega í Bretlandi fyrir 250 árum síðan og meginlandi Evrópu. Það var fátt sem benti til þess að mannkynið væri að fara að brjótast úr ánauð fátæktar á 16. öld og hvað þá að upphafið myndi vera í Bretlandi. Nokkrum árhundruðum fyrir þann tíma minnkuðu völd baróna í Englandi, England háði hundrað ára stríðið og Rósastríðin sem endaði með sigri Henry VII (Tudor) árið 1485. Henry náði þó ekki að tryggja bresku krúnuni sömu völd og hún hafði áður haft og þekktist í Frakklandi og Spáni á sama tíma. Útaf þessum takmörkuðum völdum horfði krúnan meiri til þingsins til að hjálpa sér við að útvega tekna. Á þessum tíma var þingið að mestu leyti skipað kaupmönnum, sem krúnan reyndi að hafa áhrif á með því að gefa þeim ýmis einokunarleyfi til að hámarka hagnað þeirra og krúnunar. Þessar aðgerðir vógu mjög svo að stofnunum landsins og eingaréttinum (North, 1976).

Í byrjun 17. aldar voru völd þingsins orðin meiri, m.a. vegna ívilnana krúnunar sem jók völd þeirra sem sátu á þinginu. Aftur á móti vegna þess gat krúnan ekki lengur stjórnað þinginu eins og hún vildi og gat gert áður. Krúnan leit á þingið á þessum tíma sem stofnun sem það gæti stjórnað en þingið leit á krúnuna sem sem stofnun sem þyrfti að fara eftir breskum lögum og væri ekki undanskilin þeim. Þökk sé Sir Edward Coke breyttist starfsemi þingsins og túlkun þess á lögum og völdum krúnunar. Coke hélt því fram að „common law“ væri æðstu lög landsins og allir ættu að fara eftir þeim, einnig krúnan. Árið 1620 leiddi Coke breytingar í gegnum þingið og sameinaði þingið í að samþykkja að „common law“ myndi vera æðstu lög í landinu. Ennfremur, fylgdi þessum breytingum að fella úr gildi þá einokunarstarfsemi sem krúnan hafði veitt til ákveðinna kaupmanna. Þeir sem réðu yfir þessum einokunarleyfum voru að mestu undanskildir venjulegum lögum. Á seinni hluta 16. aldar var þinginu orðið nokkuð ljóst að þessi leyfi voru veitt gegn því að tryggja atkvæði í þágu krúnunar og tryggja þeim ákveðina tekna. Eins ætti að vera nokkuð ljóst þá þýddi þetta að eignaréttur var ekki virtur og að markaðurinn virkaði ekki sem skyldi með tilheyrandi neikvæðum áhrifum fyrir þegna Bretlands. Fyrir þennan tíma var aðgangur heftur að mörkuðum og aðeins útvaldur hópur manna hafði aðgang. Með frumvarpi sem var samþykkt árið 1624 (The Statute of Monopolies) var komið í veg fyrir að fleirri slík leyfi yrðu veitt. Jafnframt, fylgdi þessum lagabálki ákvæði sem tryggði eignarétt með einkaleyfum (sem voru gefin út af þinginu og varin með lögum) til að hvetja til nýsköpunar (North, 1976).

Eins og gefur að skilja voru þessar breytingar ekki vinsælar hjá krúnunni og þeim kaupmönnum sem töpuðu á þeim. Þetta leiddi til þess að krúnan reyndi að leysa upp þingið en sú aðgerð misheppnaðist og um árið 1688 var þingið orðið æðsta stjórnvald landsins. Þegar þingið var orðið æðsta stjórnstig landsins var auðveldara að framfylgja lögum og reglum og koma á dómskerfi sem varði eignarréttinn. Þetta leiddi til þess að merkantilisminn sem hafði verið helsta markaðskerfið við lýði seinustu aldir varð að engu og frjálst markaðskerfi tók við. Það kerfi gerði öllum kleift að hagnast á viðskiptum þar sem einkaeignarétturinn var nú tryggður. Jafnframt, leiddi þetta til þess að nýsköpun margfaldaðist þar sem hún var keyrð áfram með hagnaðarmöguleikum þeirra sem reyndu fyrir sé hinar ýmsu nýjungar. Þetta var upphafið að traustara stjórnarfari í Bretlandi sem fór eftir lögum og reglum, þ.e. skilvirkum stofnunum (North, 1976).

Á 17. öldinni var komið á fót fyrstu einkaleyfunum sem voru ekki gefin út að hálfu krúnunnar heldur þinginu og því voru þessi einkaleyfi studd með lögum, þetta var gert til þess að hvetja til nýsköpunar. Leifar gamla lénskerfisins voru að mestu horfnar. Jafnframt, vegna nýlendustefnu Breta og annara þjóða og viðskipti á milli heimshluta varð til hlutabréfamarkaður, meðal annars til að fjármagna fyrirtæki og dreifa áhættu. Kaffihús urðu til sem voru undanfarar tryggingafélaga svo eitthvað sé nefnt.

Upp úr 1700 var því England búið að koma sér upp skilvirkari stofnunaumhverfi en þekktist í í öðrum löndum sem var grunnurinn að því umhverfi sem þurfti til þess að gera langvarandi sjálfbæran hagvöxt að veruleika. Óskilvirk reglugerð á iðnað sem var komið á fót af Elísabetu I seint á 16. öld varð að engu og völd kaupmanna eða svokallaðra „guilds“ minnkuðu. Hreyfanleiki vinnuafls varð að veruleika og kynti ennfremur undir nýsköpun. Hreyfanleiki fjármagns var tryggður með hlutabréfamörkuðum, gullsmiðum (sem voru undanfarar banka), tryggingastofnunum og Seðlabanka Englands sem var stofnaður árið 1694. Mikilvægsta breytingin sem átti stærstan þátt í því sem hér að ofan hefur verið nefnt var þegar þingið varð æðsta stjórnstig landsins sem tryggði  eignarréttinn með dómskerfi og setti pólitísk völd í hendur þeirra sem vildu nýta sér ný hagfræðileg tækifæri fyrir sinn eigin frama og annarra.

Nýsköpun og innleiðing nýrrar tækni getur ekki átt sér stað í samfélagi þar sem stofnanir þess styðja ekki slíka innleiðingu. Það er því engin furða að iðnbyltingin hafi átt sér stað í Englandi en ekki í Spáni, Frakklandi, Kína eða meira segja Hollandi (sem hafði frekar skilvirkt stofnunarumhverfi á þessum tíma). Þróun á skilvirkum stofnunum í Bretlandi var meiri en annars staðar, það sem gerði þetta að möguleika í Bretlandi var takmörkuð völd krúnunnar sem minnkaði með tímanum og var þingið orðið að æðsta stjórnvaldi seint á 17. öld. Samkeppni á milli þjóða ýtti svo undir þá þróun að aðrar þjóðir Evrópu tóku upp samsvarandi kerfi og dreifðist þetta kerfi um heiminn með nýlendustefnu þjóðanna.

Hvað er sanngjarnt?

Hvernig mannkyninu tókst loksins að brjótast úr ánauð fátæktar er röð margra atburða sem gerðu það ómögulega mögulegt. Hagvöxtur seinustu 100 ár er meiri en hann var 6000 árin á undan því. Þetta hefur allt verið gert kleift með þeim breytingum sem áttu sér stað í Bretlandi á 16. öld þar sem skilvirkar stofnanir þróuðust sem tryggðu eignaréttinn og gerði markaðshagkerfi að veruleika. Án þessara breytinga hefði aldrei verið hægt að taka upp jafn skilvirkt markaðsfyrirkomulag sem hefur bætt lífskjör allra eins og hagsagan sýnir okkur og við erum að upplifa í dag. Nýlega hafa heyrst raddir sem hafa gagnrýnt þetta markaðsfyrirkomulag og kallað eftir meiri miðstýringu til að reyna að kalla fram „sanngjarnara“ samfélag. Mannkynið prófaði miðstýrt samfélag fyrstu 4000 árin, það eina sem það framkallaði var sársauki og vonleysi. Á seinustu 100 árum hefur þetta einnig verið reynt nokkrum sinnum en alltaf með skelfilegum afleiðingum. Ekki finnst mér það sanngjarnt samfélag þar sem allir búa við sársauka og fátækt og engin á möguleika á að brjóstast úr slíkri ánauð með dugnaði og hugviti eins og núverandi markaðsfyrirkomulag tryggir.

Ásgeir Friðrik Heimisson

Pistlahöfundur

Ásgeir Friðrik stundar meistaranám í hagfræði við University of Warwick í Bretlandi. Ásgeir Friðrik starfaði áður sem hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Samtökum atvinnulífsins, en hann útskrifaðist úr Háskóla Íslands vorið 2015 með BSc í hagfræði. Einnig sinnti hann stundakennslu í hagfræði við HR og HÍ þegar hann starfaði hjá Hagfræðistofnun HÍ. Þá var hann einnig ritstjóri Hjálma, tímarits hagfræðinema við HÍ.