Hvernig skal vernda nashyrninga

eftir Hjalti Óskarsson

Eins og flestir vita eru nashyrningar í útrýmingarhættu. Ástæðurnar fyrir því eru nokkrar en helsta hættan sem steðjar að nashyrningum í dag er vegna veiðiþjófnaðar þar sem tilgangurinn er að ná í horn þeirra. Hornin eru eftirsótt til sölu á mörkuðum í Asíu. Löng hefð er fyrir notkun þeirra sem lyfs við hverslags meinum og veikindum en einnig hafa hornin verið notuð við gerð ýmissa muna. Rétt upp úr aldamótum jókst eftirspurn sérlega mikið frá Víetnam. Þar eru hornin vinsæl hjá auðugum einstaklingum og virka sem stöðutákn. Þá eru hornin jafnvel duftgerð og sett út í vín í veislum, mögulega til að draga úr þynnku, en líklega bara af því það þykir flott, og kannski sambærilegt við að setja gullflögur í drykk eða mat sem þótti flott á sínum tíma annarstaðar í heiminum.

Markaðsverð á hornum hefur aukist gífurlega á seinustu árum og kílóverðið er svipað verði á kókaíni. Horn nashyrninga eru úr svipuðu efni og neglur á fólki. Hægt er að saga hornin af nashyrningum án þess að það hafi nokkur áhrif á þá. Hornin vaxa svo aftur og tekur um eitt til tvö ár að ná fyrri stærð. Veiðiþjófar hinsvegar drepa dýrin og höggva hornin af alveg niður í rót til að ná sem mestum verðmætum.

Verndunaraðgerðir

Í Afríku má finna tvær tegundir nashyrninga, þann svarta og þann hvíta. Fjöldi svartra nashyrninga var um 65 þúsund árið 1970, en hafði fallið niður í 2.500 dýr árið 1993. CITES, sáttmáli sameinuðu þjóðanna um verndun lífríkis í útrýmingarhættu, settu nashyrninga í áhættuflokk 1 árið 1977. Allar þjóðir sem skrifað höfðu undir sáttmálan urðu því að banna alla millilandaverslun með hornin. Í kjölfarið snarjókst verðið á nashyrningshornum. Bannið gerði þó lítið til að draga úr veiðiþjófnaði sem hélt áfram að aukast. Næstu árin á eftir reyndu stjórnvöld að fá fleiri lönd til að skrifa undir CITES sáttmálan og framfylgja honum og árið 1993 skrifuðu þau fjögur lönd sem mest versluðu með hornin undir sáttmálann: Kína, Tævan, Suður Kórea og Yemen. Við það virtist draga talsvert úr veiðiþjófnaði og aðgerðirnar litu út fyrir að hafa virkað.

CITES sáttmálin nær þó aðeins yfir millilandaverslun en tekur ekki á innanlandsverslun. Á þessum tíma var innanlandsverslun með nashyrningshorn ekki bönnuð í  öllum löndum Afríku, þar á meðal í Suður Afríku en árið 1993 var fjöldi nashyrninga mestur þar í landi, en einnig var nokkur fjöldi í Namibíu og í Kenýu. Þessi lönd höfðu einnig að mestu sloppið við veiðiþjófnað. Í þessum löndum voru nashyrningarnir á svæðum og friðgörðum sem voru vel fjármagnaðir, þeim vel stjórnað og að miklu leyti fjármagnaðir af einkaaðilum. Friðgarðarnir fyrir nashyrninga í Suður Afríku skera sig að mörgu leyti frá friðgörðum í öðrum löndum þar sem hefur verið komið upp sterkum markaðsstofnunum. Þar á meðal lagalegum einkaeignarétti á nashyrningum og leyfum til sölu á þeim og afurðum þeirra, auk þess sem sportveiðar hafa verið leyfðar.

Af þessum ástæðum hafði fjöldi nashyrninga aukist töluvert í Suður Afríku. Til dæmis fór fjöldi hvítra nashyrninga úr 700 dýrum árið 1964 í 20 þúsund dýr árið 2007. Þar til ársins 2009 var sala á hornum nashyrninga leyfileg innanlands og höfðu sjálfstæðar opinberar stofnanir og einkaaðilar fengið að halda eftir tekjum sem fást af nashyrningum, eins og af sportveiðum, ferðaþjónustu og sölu á afurðum þeirra sem hefur síðan nýst til að endurfjárfesta í verndun og fjölgun þeirra stofna með góðum árangri. Í Suður Afríku hafa tekjurnar sem nashyrningar gefa af sér farið að stórum hluta til þeirra einstaklinga og samfélaga sem hafa beinan hag af þeim og að þeir deyji ekki út. Þetta fyrirkomulag virkaði vel til að viðhalda stofnum nashyrninga og miklu frekar en lög og reglur sem koma áttu í veg fyrir sölu á afurðum þeirra.

Árið 2009 var sett algjört verslunarbann með nashyrninga og afurðir þeirra í Suður Afríku meðal annars vegna töluverðrar ásóknar Víetnamskra veiðimanna í nashyrningsveiði. Mjög líklegt verður að teljast að ástæða þessarar auknu eftirspurnar frá Víetnam í sportveiðina hafi fyrst og fremst verið vegna hornanna sem var svo smyglað úr landi. Sportveiði á nashyrningum er mjög dýr og að sú leið hafi verið notuð til að komast yfir hornin gefur til kynna hversu mikið markaðsverð á nashyrningshornum hefur aukist. Eftir að bannið tók gildi hefur veiðiþjófnaður rokið upp úr öllu valdi. Kostnaður við verndum hefur aukist að sama skapi og í dag er ástandið orðið ósjálfbært.

Flókin vandamál

Vandamálin sem bannið leiðir af sér eru fleiri. Það þarf að líta til þess að landeigendur sem hafa nashyrninga á sínum jörðum hafa gert það meðal annars til að hafa af því tekjur. Ef kostnaðurinn við að vernda narshyrningana verður hærri en ábatinn sem af þeim má hafa, sérstaklega í hlutfalli við ábata af annari notkun á landinu, til dæmis fyrir búfénað, þá er líklegt að landeigendur færi sig yfir í slíka starfsemi. Önnur mikilvæg ástæða fyrir því að verslunarbann með nashyrningshorn virkar illa er vegna þess að eftirspurn eftir nashyrniningshornum er líklega mjög óteyginn. Það þýðir að þrátt fyrir að verðið hækki mikið, þá helst eftirspurnin. Spilling meðal þeirra sem framfylgja lögunum hefur einnig verið vandamál. Þetta er að mörgu leiti sambærilegt við fíkniefnastríðið þar sem markaðshindranir stjórnvalda hafa hækkað verðið á fíkniefnum stórlega, en vegna óteyginnar eftirspurnar hefur hefur verslun haldið áfram og gert markaðinn aðlaðandi fyrir glæpagengi sem fara nú með öll völd. 

Ef lagasetnining ein og sér virkar ekki nægilega vel, hvað er þá til bragðs að taka?

Nokkrar leiðir hafa verið ræddar en tvær hafa fengið mesta umfjöllun. Sú fyrsta er að draga úr eftirspurninni. Þetta er sú leið sem stjórnvöld og flest dýraverndunarsamtök leggja áherslu á. Hugmyndin er að með fræðslu og auglýsingum megi draga úr eftirspurninni. Hingað til hefur sú leið ekki virkað nægilega vel þegar kemur að nashyrningshornum. Óljóst er hversu mikla fjármuni eða tíma þarf svo þessi aðferð fari að hafa nægjanleg áhrif.

Önnur leið er að leyfa sölu á nashyrningshornum. Það er sú leið sem landeigendur og fleiri aðilar í Suður Afríku hafa talað fyrir. Með því að leyfa sölu á hornunum mætti auka nauðsynlega fjármuni sem þarf til að vernda dýrin. Kostnaður við verndun þeirra hækkar stöðugt, auk þess sem spilling meðal þeirra sem eiga að vernda dýrin dregur undan þeim aðgerðum sem farið er í. Sérstaklega þar sem hægt er að fjarlægja hornin án þess að skaða dýrin og að þau vaxa aftur. Með því að koma upp löglegum markaði með ströngu eftirliti væri bæði hægt að auka fjármuni til verndunar og draga úr hvata til veiðiþjófnaðar.

Þessi aðferð hefur fengið aukinn meðbyr seinustu ár en andstæðingar hennar benda á nokkra annmarka, bæði siðferðislega og aðferðafræðilega. Siðferðisleg rök gegn þessari leið verður þó að vega upp á móti raunveruleikanum sem blasir við. Bæði eru veiðiþjófar að ná að drepa nashyrninga en einnig er fullt af fólki sem þjáist og deyr í þeim átökum sem eiga sér stað milli veiðiþjófa og veiðivarða. Aðferðafræðileg rök gegn þessari leið hafa verið á þá leið að með löglegri sölu gæti eftirspurn aukist enn frekar eða jafnvel auðveldað ólöglega veiddum hornum að komast í sölu gegnum löglega markaðinn. Strangt eftirlit með slíkum markaði gæti þó komið í veg fyrir þessi vandamál. Með DNA greiningu og með búnaði til að merkja hornin væri hægt að búa svo um hnúta að erfitt væri fyrir veiðiþjófa að misnota löglega markaðinn. Fordæmi eru fyrir sambærilegu kerfi til dæmis á demantamörkuðum.

Flókið vandamál kallar á flóknar lausnir

Vandamálin við verndun nashyrninga eru augljóslega flókin og lausnin við þeim, ef hún er til, er væntanlega mjög flókin líka. Þær aðferðir sem farið hefur verið í hafa ekki skilað nægjanlegum árangri. Vandamálin eru orðin sérstaklega aðkallandi vegna þess að nú er fjöldi nashyrninga í Suður Afríku, þar sem flestir nashyrningar eru eftirlifandi, byrjaður að dragast saman. Engar lausnir eru áhættulausar, en það er alveg ljóst að það sem nú er gert, verslunarbann og markaðsherferðir gegn notkun nashyrningshorna er ekki nóg og það gæti verið vel þess virði að prófa nýjar aðferðir. Reynslan frá Suður Afríku bendir til þess að markaðsleið sé líkleg til að virka.

Fundur CITES, sáttmála sameinuðu þjóðanna um verndun lífríkis í útrýmingarhættu, verður haldin í sautjánda skipti núna lok september þar sem meðal annars verður fjallað um stöðu nashyrninga. Ólíklegt verður að teljast að nokkru verði breytt á fundinum. Til að ná fram breytinum eins og að leyfa sölu á nashyrningshornum og skapa löglegan markað með þau þyrfti tvo þriðjuhluta samþykki á CITES fundinum og þar sem sú leið hefur ekki fengið mikin meðbyr meðal stjórnvalda og dýraverndunarsamtaka og ansi ólíklegt er að verslunarbann á hornunum verði aflétt.

Hjalti Óskarsson

Pistlahöfundur

Hjalti er búsettur í Stokkhólmi og stundar meistaranám í hagfræði við Stokkhólmsháskóla. Áður útskrifaðist hann úr grunnnámi í hagfræði úr Háskóla Íslands og sat í ritstjórn Hjálma, tímarits hagfræðinema við HÍ. Helstu áhugamál hans eru hagfræði, stjórnmál, þungarokk, knattspyrna, vel bruggaður bjór og viskí.