Hvernig les ég launaseðil?

eftir Kristófer Már Maronsson

Tíu ára gamall rölti ég með Skessuhornið, fréttaveitu Vesturlands, í appelsínugulum blaðberapoka milli áskrifenda í Grundahverfinu á Akranesi. Ég fór út alla miðvikudaga sama hvernig viðraði og skartaði þykku ÍA buffi, langt á undan forsetanum í buffmálum. En buffið ákveður ekki launin. Ég fékk 46falt lægri laun fyrir daginn en forsetinn fær í dag – í lok hvers mánaðar fékk ég fjögur þúsund krónur, fimm þúsund þegar það hitti á fimm miðvikudaga í mánuði. Mér þótti ég frekar ríkur. Ég vildi fara beint í BT að versla tölvuleiki – sem betur fer ekki orðinn fjárráða.

Á þessum tíma var mikið sport að fá póst. Yfirleitt var það bara leiðinlegt bankayfirlit en einu sinni vann ég í krakkaþraut Morgunblaðsins, þá hafði ég sigrað lífið og var tilbúinn að setjast í helgan stein. Ég furðaði mig á því að fá póst frá Skessuhorninu nokkrum dögum eftir útborgun, launaseðil. Ég kannaðist við fimm hundruð, þúsund og fimm þúsund króna seðil – en launaseðil? Mamma hvað get ég keypt með þessum launaseðli? Hvað þýða allar þessar tölur á seðlinum? Hvað er skattur? Hvað er persónuafsláttur hár, get ég keypt rauða Pokémon leikinn í GameBoy með honum? Spurningarnar eru skáldaðar, en ég get alveg ímyndað mér að þær hafi verið einhvern veginn svona.

Launaseðill er flókið fyrirbæri, vegna þess að hann er ekki útskýrður nægilega vel. Þegar ég lauk minni grunnskólagöngu, með glæstan starfsferil á bakinu, hafði ég ekki enn lært að skilja launaseðilinn. Margir sem ég hef rætt við skilja ekki enn launaseðil í dag sem er engin furða þar sem tungumálið er ekki kennt. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir ungt fólk sem er að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði að geta lesið launaseðilinn sinn því það er á okkar ábyrgð að fylgjast með því að allt sé rétt gert og ekki sé svindlað á okkur.

Við skulum skoða aðeins skáldaðan launaseðilinn hjá besta varnarmanni heims, Raphael Varane. Ég ætla að gera mitt besta til að útskýra hvernig hann virkar, en einnig koma með tillögur að því hvernig mætti bæta launaseðilinn.

Til að byrja með er mikilvægt að fram komi nafn atvinnurekenda, kennitala, heimilisfang og sími. Einnig þurfa að koma fram helstu upplýsingar um launþega.

2016_12_19-launasedill

Svona lítur fyrri hluti launaseðils út. Hann skiptist í grunnupplýsingar um launþega og atvinnurekenda, launaliði og frádráttarliði. Í seinni hluta launaseðilsins er farið yfir hvernig staðgreiðsla skatta reiknast og hvert laun, lífeyrissgreiðslur og stéttarfélagsgreiðslur eru millifærðar. Ég mun láta það vera að fara yfir þessa hluti, en seinna í pistlinum fer ég betur yfir staðgreiðslu skatta.

Hvað þýða öll þessi furðulegu heiti?

Í bláa boxinu hér að neðan er að finna útskýringar hinum ýmsu forsendum launaseðilsins.

2016_12_19-blatt-box

Í græna hlutanum tekur við tekjuhlið launaseðilsins, greiðslur sem þú færð fyrir vinnuna sem þú hefur unnið auka annarra lögbundinna greiðslna. Í þessum hluta má sjá númerin 10-30, en þau eru algjörlega handahófskennd í þessu tilviki og enginn tilgangur fyrir þig að pæla neitt í þeim, að öðru leyti en að ég nota þau til að merkja útskýringarnar hér í græna boxinu.

2016_12_19-graent-box

Afhverju fæ ég ekki bara allt í vasann?

Frádráttarliðir á launaseðli eru ekki besti vinur mannsins, en þeir gegna mikilvægu hlutverki samt sem áður. Allir vita að maður þarf að greiða háa skatta af laununum sínum en það sem færri vita er að skatturinn fer ekki allur í ríkissjóð. Hann skiptist á milli ríkissjóðs og sveitarfélaga, líkt og er útskýrt ásamt öðrum frádráttarliðum í rauða boxinu.

2016_12_19-rautt-box

Týndi hlekkurinn

Það sem vantar á launaseðilinn er liður sem ætti að kallast “Mótframlag atvinnurekenda” en það eru greiðslur sem atvinnurekandi greiðir fyrir þig og oft kallað launatengd gjöld í daglegu máli. Mér þykir skrítið að þetta skuli ekki hreinlega flokkast sem laun, þar sem þetta er kostnaður við að hafa okkur í vinnu og við njótum góðs af því að atvinnurekandi greiði þennan kostnað.

2016_12_19-motframlag-atvinnurekenda

Yfirleitt er eingöngu talað um tryggingagjald eitt og sér en það skiptist í fjóra liði (150-153). Hér í gula kassanum má sjá marga liði sem mér þykir óskiljanlegt að kallist ekki laun.

2016_12_19-gult-box

Það er þó ekki eingöngu mótframlag atvinnurekenda sem mér þykir vanta á launaseðilinn. Þar sem flestir launaseðlar eru gerðir í tölvu væri ekki mikið mál að reikna nákvæmlega hvert útsvarið er, sem er mismunandi eftir sveitarfélögum. Margir myndu kalla Grímsnes- og Grafningshrepp, Skorradalshrepp og Ásahrepp skattaskjól Íslands með útsvarsprósentuna 12,44% sem er lágmarksútsvar. Í dag er tekið meðaltal af útsvari allra sveitarfélaga og því bætt ofan á tekjuskattsþrepin þrjú, sem verða tvö á nýju ári. Þetta er svo leiðrétt seinna sem er ástæða þess að flestir Reykvíkingar skulda útsvar á hverju ári. Gaman væri að sjá launaseðlana taka stökk inn á 21. öldina og fá nákvæman útreikning á staðgreiðslu skatta á hverjum launaseðli.

Fjármál eru ekkert mál

Það eru hagsmunir aðila beggja megin borðs að fólk kunni að lesa launaseðilinn sinn og skilji hver sé raunkostnaður þess að borga laun. Á næstu dögum mun koma út bókin Lífið er rétt að byrja eftir Gunnar Baldvinsson, en undirrituðum hlotnaðist sá heiður á að fá að lesa hana yfir fyrir útgáfu. Bókin er tær snilld og ætti að kenna hana í hverjum einasta menntaskóla. Hún fjallar um fyrstu skrefin í fjármálum einstaklings og að lestri loknum er auðveldara að halda utan um fjárhag lífsins. Það er mikil lífskjarabót að vera læs á fjármál og þó ég hafi ekki vísindalega rannsókn til að styðjast við þá hugsa ég að það séu meiri líkur en minni á því að verða fjárhagslega sjálfstæður ef maður er fjármálalæs.

 

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.