Hvernig eyðir þú tímanum þínum?

eftir Kristófer Már Maronsson

Að mínu mati er eitt merkilegasta viðfangsefni raunveruleikans hvernig eigi að hámarka nýtingu þess tíma sem manni er gefinn. Hvað getur verið merkilegra? Peningur skiptir engu máli ef þú hefur ekki tíma til að nýta hann. Vinir og fjölskylda veita þér litla sem enga ánægju ef þú nýtir ekki tímann þinn með þeim. Jafnvel áhugamál eru tilgangslaus – ef maður veitir þeim ekki tíma.

Ég hugsa reglulega um pistil sem ég las á bloggsíðunni Wait but why á sínum tíma, en þar veltir höfundurinn því fyrir sér hvernig við nýtum okkar dýrmætustu auðlind. Hann skiptir deginum niður í 10 mínútna blokkir. Að því gefnu að fólk sofi 7 til 8 tíma á nóttu hefur hver og einn um 100 blokkir til að spila úr á hverjum degi. Það er mjög áhugavert að líta í eigin barm. Ótrúlegustu hlutir geta tekið frá manni hrikalega mikinn tíma. Til að gefa smá dæmi um hversu öflugt það er að hugsa um það, þá eru hér þrjú dæmi frá sjálfum mér.

Bald and the beautiful

Nýlega rakaði ég af mér hárið, ekki af því Aron Einar gerði það heldur því að það sparar eina blokk á dag. 365 blokkir á ári. 27.375 blokkir ef ég verð 100 ára, ígildi rúmlega 190 sólarhringa. Fyrir mér er hreinlega ekki þess virði að eyða 27 vikum, dag og nótt, í að þurrka á mér hárið og reyna að fela kollvikin. Að ógleymdum 2,5 milljónum króna sem færu í klippingu (án ávöxtunar), miðað við 6 klippingar á ári í 75 ár. Ég hugsa að ég nýti frekar tímann og peninginn í að ferðast.

Búðarlaust líf

Í huganum hljómar búðarferð eins og stutt, einfalt inn og út verkefni. En við vitum öll að það er ekki raunveruleikinn. Áður fyrr var ég að eyða örugglega 20 blokkum á viku, rúmum þremur klukkutímum, í matarinnkaup. Núna tekur það ekki meira en 5 blokkir á viku, sparnaður um 15 blokkir á viku eða tæplega 5 og hálfan sólarhring á ári. 1 ár á hverjum 67,5 árum. Hvað breyttist? Ég byrjaði að versla í matinn á aha.is. Ég þarf ekki að ferðast í búðina, leita að hlutum, gleyma hvað er til í ísskápnum o.s.frv. Ég versla í rólegheitunum án suðandi barns og næ yfirleitt frírri heimsendingu.

Þarna náðir þú mér næstum því, hagfræðineminn sem heldur að það sé eitthvað frítt í þessum heimi. Ég veit að það er ekkert til sem heitir frítt, svo ég gríp mig við þann glæp að kaupa inn bara einu sinni til tvisvar í viku, það er alveg hræðilega vont að þurfa að skipuleggja sig aðeins. Sagði enginn, aldrei. Þvert á móti, geturðu ímyndað þér hvað það er þægilegt að vita nákvæmlega hvað þú ætlar að elda eftir vinnu, en ekki ákveða það með gaulandi garnir fyrir framan kjötborðið í Krónunni klukkan hálf sex.

Samfélagsmiðlar eða heilsa

Hvað ætlarðu að eyða mörgum blokkum í samfélagsmiðla? Í staðinn fyrir hvað? Sjálfur lagði ég Instagram og Twitter á hilluna fyrir löngu og fer sjaldan á Snapchat. Í staðinn ég eyði ég 3 blokkum á morgnana í að hlaupa með Morgunblaðið til áskrifenda. Á meðan hlusta ég á hljóðbækur, og fæ borgað fyrir það. Valið stóð á milli þess að skoða orð fólks sem er að reyna að vera fyndið með misjöfnum árangri og glansraunveruleika Instagram eða 400 þúsund og 15 bóka á ári auk hreyfingu 6 daga vikunnar. Samfélagsmiðlar eða fjárhagsleg, líkamleg og andleg heilsa. Einfalt val, næsta mál.

Þú átt leik

Það er yfirleitt ekki utanaðkomandi aðstæðum að kenna að þú hafir ekki tíma í það sem þig langar til að gera, þú ákveður bara að eyða honum í eitthvað annað. Jafnvel án þess að átta þig á því. Hver einasti dagur er eins og spil, spil þar sem þú vegur og metur hvað þú ætlar að gera við tímann þinn. Það er undir þér komið hvernig þú spilar leikinn.

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.