Hvernig aukin samkeppni á leigubílamarkaði gæti stuðlað að umhverfisvænni ferðavenjum

eftir Jórunn Pála Jónasdóttir

Borgarstjórn samþykkti í vikunni tillögu um deilisamgöngur og umhverfisvæna ferðamáta. Tillagan var þríþætt en efni hennar má sjá hér. Flestir voru sammála um að samþykkt þeirra væru skref í rétta átt en markmið þessa pistils er að velta upp fleiri nærtækum lausnum í þessum dúr sem hefðu mátt fylgja með framangreindum tillögum til þess sjá raunverulega og skjóta aukningu í hlut deilisamgangna í Reykjavík.

Tillagan miðaði meðal annars að því að borgin beini því til Alþingis að afnema þak á fjölda leigubifreiða á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að umhverfisvænum bifreiðum, þ.e. bifreiðum sem notast við aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti. Heildarfjöldi leyfanna í dag er 580.

Græn leigubílaleyfi eða frjáls leigubílamarkaður?

Einnig hafa verið ræddar hugmyndir um græn leigubílaleyfi sem svipar til fyrsta hluta tillögunnar en gengur kannski eilítið skemur þar sem hún felur í sér að kvótinn verði hækkaður. Borgarstjórn hefur hins vegar ákveðið að mæla með að þakið verði alfarið afnumið vegna umhverfisvænna ökutækja.

Formaður Frama, félags leigubílstjóra hefur lagst gegn fjölgun leigubíla en ekki liggur fyrir afstaða gagnvart leiðum eins og nefndar eru hér fyrir ofan. Í hópnum Skutlarar á Facebook, þar sem auglýst er eftir skutli eða boðið, eru þegar þetta er skrifað engu að síður 44.482 meðlimir. Miðað við það sem deilt er inn á hópinn býður draumafarið upp á ískaldan bjór og annan varning en inni á milli má einnig sjá að varað er við svikurum sem standa ekki skil á greiðslu eftir að hafa fengið far. Í öllu falli virðist augljóst að fjöldi útgefinna leigubílaleyfa gefur ekki rétta mynd af heildarfjölda aðila í skutlþjónustu eða keyptum ferðum.

Flesir kannast við þægindin sem fylgja því að nýta sér skutlþjónustur (e. drive share) erlendis eins og Uber og Lyft. Bæði ökumaður og notandi þurfa að skrá sig inn á forritin og staðfesta skráningu sína með persónuupplýsingum sem stuðlar að auknu öryggi í viðskiptunum. Ef eitthvað kemur upp er ökuþjónustan þannig með upplýsingar um viðkomandi.

Það er gaman að sjá hugmyndaauðgina inni á hópnum Skutlarar en með auknu frelsi og samkeppni á leigubílamarkaði má eins hugsa sér að einhverjir myndu kjósa að bjóða upp á græna leigubílaþjónustu. Fjölmörg fyrirtæki hafa ákveðið að markaðssetja sig sem umhverfisvæna þjónustu eða söluaðila og öðlast trygga viðskiptamenn fyrir vikið, s.s. útvistamerkið Patagonia. Önnur hugmynd væri skutlþjónusta þar sem einungis kvenmenn sitja við stýrið. Aðdáendur þáttanna BoJack Horseman kannast kannski við hugmyndina sem eina af misgóðu viðskiptahugmyndum Todds.

Aðgangur að deilihagkerfinu getur stuðlað að umhverfisvænni ferðavenjum

Í Bretlandi virðast yngri kynslóðir kjósa bíllausan lífstíl í meiri mæli en áður. Á tíunda áratug síðusta aldar var 80% af fólki keyrandi við 30 ára aldurinn. Í dag er hlutfallið aðeins 45%. Þá virðast karlmenn undir þrítugu einungis ferðast um helming af þeirri vegalengd sem feður þeirra gerðu. Skýringar fyrir þessu geta verið ýmsar en þar á meðal þeirra sem eru nefndar eru breytt samfélagsmynd vegna tækniframfara og aukið framboð af skutlþjónustum eins og Über.

Í Reykjavík ferðast í dag meginþorri fólks með einkabíl og í langflestum tilvika ferðast ökumenn einir en ekki með farþega. Sóknarfæri liggja í því að samflotsbílar með tiltekið mörgum farþegum fái strax aðgang að forgangsakgreinum. Þannig skapast jákvæður hvati fyrir fólk til þess að deila bílum og viðbótarbónusinn er félagsskapurinn sem fæst um leið. Á háskólaárum mínum ferðaðist ég um tíma í skólann með vinkonu minni sem bjó í næsta húsi og það var aldrei leiðinlegt hjá okkur í bílnum á leiðinni niðureftir.

Stjórnvöld eiga næsta leik

Ef borgarstjórn vill nýta deilihagkerfið til þess að stuðla að umhverfisvænni ferðamátum þarf að mati undirritaðrar að ganga lengra, að aflétta samkeppnishömlum af leigubifreiðamarkaði þannig að nýsköpun fái byr undir báða vængi og þjónustuframboðið aukist. Slík stefnubreyting gæti þó ekki orðið án fyrirvara, samráðs og vel ígrunduðu máli þannig að gætt verði að ekki verði slegið af kröfum um öryggi og gæði þjónustunnar umfram það sem nauðsynlegt er. Önnur skjótvirk leið er að ívilna ökuþórum sem kjósa að ferðast með samfloti.

Jórunn Pála Jónasdóttir

Pistlahöfundur

Jórunn Pála er lögfræðingur og búsett í Reykjavík. Hún sat áður sem formaður LÍS, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs formaður Vöku fls., og gjaldkeri Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík. Hennar helstu áhugamál eru hjólreiðar, fjallgöngur og ferðalög.