Hverjum hentar nýi lánasjóðurinn?

eftir Ritstjórn

Að taka lán er skuldbinding um að fá pening að láni og með loforði um að greiða þá upphæð til baka að fullu með umsömdum vöxtum.

Núverandi útlánakerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur með tímanum þróast í þá átt að nemendur eru sífellt lengur í námi og taka hærri námslán bæði vegna þessa og vegna skólagjaldalána. Það hefur leitt til þess að fjöldi þeirra nemenda sem ná ekki að greiða til baka lán sín áður en ævi þeirra er öll fer vaxandi. Við andlát lánþega eru eftirstöðvar lánsins afskrifaðar að fullu og greiddar upp af LÍN. Þessar afskriftir hafa farið vaxandi og því er ljóst að nauðsynlegt er að breyta endurgreiðslukerfi sjóðsins áður en afskriftir þeirra sem taka lán umfram getu þeirra til að greiða þau til baka fara að skerða lánsupphæðir framtíðar lánþega. Með öðrum orðum þá er vaxandi hluti lánþega ekki að standast þær skuldbindingar sem þeir gengu að. Það er því ljóst að nauðsynlegt er að breyta endurgreiðslukerfi LÍN.

Menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson viðurkenndi þess nauðsyn síðasta sumar í kjölfar útgáfu ársskýrslu LÍN. Nú liggur fyrir frumvarp um heildarendurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það var afgreitt úr ríkisstjórn fyrir helgi og hefur verið samþykkt á þingflokksfundum beggja stjórnarflokkanna. Frumvarpið verður að öllum líkindum lagt fyrir Alþingi í næstu viku.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra ákvað engu að síður að ríða á vaðið áður en frumvarpið yrði gert opinbert og útskýrði megindrætti frumvarpsins fyrir fjölmiðlum á föstudaginn.

2016_05_28_Ritstjornarpistill_Mynd1

Menntamálaráðherra og sú nefnd sem hann skipaði hefur með frumvarpi um heildarendurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna þó ekki einvörðungu breytt endurgreiðslukerfinu til þess að draga úr afskriftum. Með því að hækka vexti upp í 2,5% er einnig stefnt að því að draga úr vaxtastyrk til námsmanna sem lán á niðurgreiddum vöxtum fela í sér. Það er því ljóst, samanber taflan hér að ofan, að með þessu frumvarpi er öllum steinum velt til þess að gera þennan mánaðarlega styrk sem hæstan.

Það er því fyrirséð að nemendur eigi eftir að skiptast í þrjár fylkingar þegar kemur að nýju frumvarpi menntamálaráðherra. Í fyrsta lagi eru það þeir nemendur sem eru ekki á lánum eða það litlum lánum að þeir geti látið þennan 65.000 kr. styrk duga til þess að framfleyta sér yfir skólaárið. Þessir aðilar ættu að vera kampakátir með þetta frumvarp. Í öðru lagi eru það þeir sem þurfa á fullum framfærslulánum að halda en engum skólagjaldalánum. Afstaða þeirra gagnvart frumvarpinu gæti orðið klofin þar sem lánsþörf þeirra minnkar með tilkomu styrksins en að sama skapi hækka vextir. Í þriðja lagi eru það þeir námsmenn sem stefna á að fara í kostnaðarsamt nám, til að mynda erlendis, þar sem framfærslukostnaður er hár og sjá ekki fram á að 15 milljóna króna lán eigi eftir að duga þeim til þess að komast í gegnum námið. Þessir aðilar eiga að öllum líkindum eftir að verða afar ósáttir með fyrirhugaðar breytingar.

Setjum upp smá dæmi til þess að hjálpa miðjuhópnum að komast að niðurstöðu í þessum efnum. Nemandi sem býr á leigumarkaði, er barnlaus, stundar 5 ára nám (lýkur námi 25 ára) og er á námslánum allan tímann. Eftir að hann lýkur námi er hann með meðallaun samanber meðallaun Hagstofu á hverju aldursbili.

2016_05_28_Ritstjornarpistill_Mynd2

Út frá þessu má áætla að það skipti viðkomandi einstakling sem fellur undir nemanda sem tekur framfærslulán og býr í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði litlu máli hvort þetta frumvarp verði að lögum eða ekki. Það kemur nánast út á sléttu, en hann fær þó 15 þús kr. hærri framfærslu á mánuði yfir námstímann.

2016_05_28_Ritstjornarpistill_Mynd3Þetta frumvarp hentar því mörgum mjög vel en ekki öllum. Ljóst er að hvatarnir á bakvið námslán breytast, minni hvati verður til að taka námslán ef þú þarft ekki á þeim að halda, en meiri hvati verður fyrir nemendur að bæta námsframvindu og standa sig vel í skólanum. Það er svo huglægt mat þitt kæri lesandi, á að jafna styrkinn til allra námsmanna eða á að hafa hann misskiptan eins og í núverandi kerfi, þar sem meginþorri námsmanna fær engan styrk en lítill hópur fær mjög háan styrk.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund. 

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.