Hverjum auðnast að þóknast þjóðinni?

eftir Jón Birgir Eiríksson

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hve vond niðurstaða alþingiskosninganna 28. október sl. var fyrir framtíðarkynslóðir landsins, um það hefur enda nýlega verið fjallað á þessum vettvangi. Sem kunnugt er unnu stærstu sigrana annálaðir íhalds- og popúlistaflokkar sem enga sögu eiga, reynslu eða skipulag, þ.e.a.s. Miðflokkurinn og Flokkur fólksins. Nú, tveimur vikum síðar, er útlit fyrir að stjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks verði að veruleika en líklega er þar um að ræða eina íhaldssömustu ríkisstjórn Íslandssögunnar. Þetta kann mörgum að þykja undarlegt, sérstaklega þar sem í byrjun árs var mynduð frjálslyndasta stjórn sögunnar og aðeins ár er frá síðustu kosningum.

Fjöldi fólks hefur nú stigið fram og lýst yfir óánægju sinni með viðræður flokkanna þriggja, einkum kjósendur og framafólk úr röðum VG sem þrýstir á formann sinn að slíta viðræðunum. Þannig telja margir að þeir hafi keypt köttinn í sekknum með því að greiða flokknum atkvæði sitt og vísa til hneykslismála tengdum Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins og augljóss málefnamunar á flokkunum tveimur. Einhverjir hafa sagt að þeir hefðu heldur sleppt því að kjósa VG hefðu þeir vitað að þessi stjórnarmöguleiki gæti orðið að veruleika og sumir jafnvel haldið því fram að það sé andstætt vilja þjóðarinnar að stjórn sem þessi verði að veruleika.

Nú er undirritaður langt því frá sannfærður um að hægt sé að mæla vilja þjóðarinnar með nokkru móti, allavega ekki með nákvæmum hætti, hvað þá vísindalegum. Raunar má halda því fram að þjóðarvilji sé ekki til sem slíkur, heldur standi þjóðin saman af einstaklingum sem hafi sinn vilja hver. Ekki er sérstök ástæða til að fara í þá sálma hér þótt aldrei sé gömul vísa of oft kveðin. Þó er áhugavert að lesa í niðurstöður kosninganna og kanna hvaða breytingar gætu falist í þeim miðað við síðustu kosningar. Líkt og áður sagði hefur verið fjallað um málefnalegan mun á fyrri ríkisstjórn og þeirri sem nú er í smíðum, en forvitnilegt er að skoða hver þróunin er fyrir Alþingi almennt og þá flokka sem þar sitja.

Færri busar á bekkjum Alþingis

Fyrir rúmu ári birtist, í aðdraganda kosninga, pistill á Rómi um endurnýjun þingmanna. Þar var fjallað um að óvenju mikið hringl hefði átt sér stað með þau 63 sæti sem slegist er um árin áður, en raunin varð að endurnýjunin varð meiri en nokkru sinni fyrr og 32 nýir þingmenn tóku sæti eða 50,8% allra kjörinna þingmanna.

Í nýyfirstöðnum kosningum tóku sæti 19 nýir þingmenn eða um 30,1% þeirra sem kjörnir voru. Því skal haldið til haga að einhverjir þeirra sem ekki voru kjörnir fyrir ári síðan, en kjörnir voru nú, hafa áður átt sæti á Alþingi eða sinnt varaþingmannstörfum fyrir flokka sína. Þetta er talsvert hægari endurnýjun en verið hefur frá efnahagshruni, en árið 2009 og 2013 var endurnýjunin um 43%, þ.e. nýir þingmenn 27 talsins.

Því má velta upp hvort þessi þróun bendi til þess að þjóðin sé alsæl með þá fulltrúa sem fyrir sátu og að endurnýjunarhlutfallið sé eftir kosningarnar í „eðlilegu horfi” í sögulegu samhengi, þ.e. þannig dýrmæt reynsla, hefðir og venjur þingstarfanna glatist ekki. Gæti verið að þjóðin kalli nú eftir stöðugleika og færri innáskiptingum á Alþingi?  Það er erfitt að segja, en það má leiða að því líkur.

Gömul grýla í endurnýjun lífdaga?

Fjórflokkurinn svonefndi, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking og VG, hornsteinar stjórnmálanna frá aldamótum til ársins 2013, virðist halda velli miðað við fylgistölur úr síðustu kosningum og bætir raunar örlitlu fylgi við sig. Margir hafa haldið því fram að flokkarnir fjórir séu við dauðans dyr, en samanlagt fylgi hans nú er um 65%, samanborið við 62% fyrir ári síðan. Samanlagður þingmannafjöldi er sá sami, 42 þingmenn. Í kosningunum árið 2009 sópuðu VG og Samfylking til sín 34 þingsætum og fjórflokkurinn átti alls 59 þingmenn með samanlagt fylgi um 90%. Árið 2013 fékk fjórflokkurinn 54 þingmenn kjörna og samanlagt fylgi hans var um 74%. Jafnvel þótt fylgi flokkanna fjögurra sé nú í lágmarki líkt og í fyrra, virðist hann halda í sitt þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkur hafi stórtapað fylgi nú í október, fylgi VG hafi orðið mun lægra en skoðanakannanir bentu til og að fjöldi flokka á Alþingi sé nú meiri en áður. 

Heilt yfir má segja að reynt og traust fólk sé í brúnni hjá öllum flokkum fjórflokksins. Framsóknarflokkur hefur nú endurheimt vopn sín að nýju eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður hans, klauf sig frá flokknum, en flokkurinn vann mikinn varnarsigur í kosningunum þrátt fyrir mikla blóðtöku. Samfylking virðist nú jafna sig eftir gríðarlegt fylgishrun í fyrra og Vinstri græn synda í persónufylgi Katrínar Jakobsdóttur. Sjálfstæðisflokkur stendur líklega verst flokkanna fjögurra í sögulegu samhengi, en gæti þó sótt í sig veðrið á næstu árum. Þangað til verður hann að treysta á kjarnafylgi sitt. Því má velta upp hvort fylgi kjósenda muni á næstu árum leita í auknum mæli aftur inn í fjórflokkinn, en ljóst er að flokkarnir eru allir orðnir „gjaldgengir” að nýju eftir að hafa allir gengið gegnum erfiðleika í kjölfar efnahagshrunsins.

Að mati höfundar skapast ekki skilyrði til traustra stjórnarhátta fyrr en kjósendur sameinast um færri stjórnmálaflokka, en sá tímapunktur gæti nálgast að frjór jarðvegur nýrra grasrótarflokka þurrkist upp og þeir sem fyrir eru falli í gleymskunnar dá. Líklega er ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks það skársta sem hægt er að biðja um í því ástandi sem uppi er í stjórnmálunum nú, ástandi þar sem popúlistar raka til sín fylgi kjósenda og alltof margir flokkar skipta þingsætunum sín á milli. Gangi stjórn VG, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks bærilega og haldi í fjögur ár gæti farið svo að hún hafi þau áhrif að friður skapist fyrr um stjórnmálin en ella enda spannar hún allan stjórnmálaásinn frá vinstri til hægri. Þá þarf samt margt að koma til, málamiðlanir og traust milli stjórnarliða, en Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, gæti reynst stjórninni mikilvægari en margur heldur í hlutverki akkerisins á miðjunni.

Jón Birgir Eiríksson

Ristjórn

Jón Birgir er laganemi við Háskóla Íslands. Hann hefur undanfarin ár starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu og situr í aðalstjórn Fylkis. Þá sat hann í stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík og er nú varamaður í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þar áður var hann formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta. Jón Birgir er einnig píanóleikari hljómsveitanna Bandmanna og Ljósfara.