Hverjir þyrla upp ryki?

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

Nú er svifryksmengun mikil í Reykjavík og mikilvægt er að bregðast við því. Áæltlað er að um helgmingur svifryks samanstandi af malbiksögnum og því blasir við hversu rökrétt er að byrja á að minnka slit á vegum.

Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, sagði réttilega í viðtali við blaðamann Fréttablaðsins (13.03.2018) að öll umferð slíti yfirborði vega og því sé mikilvægt að draga úr umferð. Hún nefnir ýmis atriði til að draga úr umferð en stingur að lokum upp á þeirri hugmynd að banna helmingi bílaeiganda að keyra ákveðna daga með því að leyfa aðeins bílnúmerum sem enda á oddatölu að keyra suma daga og sléttum tölum aðra. Eins og er gert í Nýju Delhi, fimmtu fjölmennustu borg heims þar sem búa 18,6 milljónir íbúa. Ekki mjög sambærileg borg með ekki mjög sambærilegar aðstæður. Ekki mjög góð hugmynd.

Best þætti henni líklega að banna bíla bara alveg. Þá þyrftum við ekki lengur neinar götur fyrir bíla og þá væri hægt að þétta byggð og byggja hús þar sem áður voru vegir. Láta bara alla taka strætó, labba og hjóla á milli staða. Jafnvel línuskauta á milli staða, það væri gaman. Þá hlýtur svifrykið að minnka og allir myndu lifa góðu og heilbrigðu lífi.

Svava nefnir reyndar líka að sniðugt væri að setja takmarkanir á þunga bifreiða því þyngri bifreiðir þyrla upp meira reyki en léttari. Þetta er ágætur punktur hjá henni þar sem slit gatna eykst í veldisfalli af öxulþunga. Þannig slíta strætisvagnar og rútur vegum a.m.k. þúsund sinnum meira en léttir fólksbílar. Þess vegna er svolítið undarleg þversögn falin í því hversu mikla áherslu hún og meirihlutinn í borginni leggja á að allir leggi bílnum og taki strætó. Einn strætisvagn veldur miklu meira svifryki en lítill bíll. Líka þegar vagninn er tómur.

Mikilvægt er að finna leiðir, eins og að takmarka notkun nagladekkja og útblásturs, sérstaklega frá díselbílum, til þess að minnka svifryksmengun. Rykbinda þarf göturnar, þrífa þær og fjárfesta í sterkara slitlagi. Annars mun ekki takast að minnka svifryksmengun til muna í borginni. Nema jú, ef allir sætu bara heima og færu ekki út úr húsi nema fótgangandi. Þá þyrftum við auðvitað enga vegi og enga bíla. 

En þrátt fyrir bílalausa Reykjavík myndi samt safnast upp svifryk hér á stillidögum. Ryk kemur nefnilega líka frá iðnaði, framkvæmdum á byggingarsvæðum og söndum sem eru í nágrenni Reykjavíkur, þá ekki sé minnst á sandfok af hálendinu. Því þarf að horfa á fleiri þætti en einungis einkabíla á nagladekkjum. En það kemur sér auðvitað vel fyrir meirihlutann í borginni þegar mold og drulla safnast upp og þeir geta kennt bílaumferðinni, sem þyrlar drullunni upp í loftið, um allt.

Gæti verið að vanræksla á hreinsun gatna í Reykjavík sé hluti af stóru plotti? Sama stóra plottinu og er í gangi til þess að hægja á umferðinni og gera fólki erfiðara að ferðast um í bíl? Er viljandi verið að þyrla upp ryki í borginni? Ja, maður spyr sig..

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.