Hverfið mitt: Viðhald á ekki að vera val

eftir Tryggvi Másson

Síðastliðinn sunnudag lauk hinni árlegu hverfakosningu Reykjavíkurborgar sem ber heitið Hverfið mitt. Hugmyndin á bakvið verkefnið er að efla þátttöku íbúanna á mótun síns nærumhverfis umfram það sem gerist í hefðbundnu fulltrúalýðræði með kosningum á fjögurra ára fresti. Í sjálfu sér er hugmyndin á bakvið verkefnið góð og göfugt markmið að gera íbúanna að virkari samfélagsþegnum. Nú þegar verkefnið hefur verið reynt í nokkur ár er komin ágætis reynsla á það.

Í ljós hefur komið að lítill hluti borgarbúa nýtir kosningarétt sinn en árið 2015 voru 7,3% sem kusu, í fyrra voru það 9,4% og á hádegi sunnudags höfðu örlítið fleiri tekið þátt en á sama tíma í fyrra. Borgin sendi í kjölfarið fréttatilkynningu og barði sér á brjóst fyrir bestu þátttöku frá upphafi og tilkynnti með stolti að þátttaka færi að öllum líkindum yfir 10%, sem er að sjálfsögðu ágætis brandari.  Hér verða ekki tíunduð öll þau atriði sem valda því að þátttakan er eins dræm og raun ber vitni. Eitt atriði er þó svo yfirmáta furðulegt að sá sem hér ritar getur ekki setið á sér með að fjalla sérstaklega um það.

Að kjósa um sjálfsagt viðhald

Í verkefnislýsingu Hverfisins míns 2017 stendur: ,,Hverfið mitt 2017 er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í hverfum Reykjavíkurborgar.”

Orðið viðhaldsverkefni stingur svolítið í stúf. Afhverju eru viðhaldsverkefni sett undir sama hatt og nýframkvæmdir? Afhverju er verið að kjósa um hvort Reykjavíkurborg eigi að viðhalda sumumeignum sínum? Einhverjir myndu telja sjálfsagðan hlut að borgin setti það í forgang að viðhalda öllum eignum sínum áður en farið er í önnur og ný verkefni.

Með því að stilla viðhaldi og nýframkvæmdum hlið við hlið er verið að gera lítið úr því grunnhlutverki hins opinbera að viðhalda eignum sínum. Hvort sem það er laga holur í Traðarlandi eða lagfæra svæði við færanlegar kennslustofur við Seljaskóla, þá á Reykjavíkurborg ekki að hafa val um að viðhalda þessu ekki. Ríki, sveitarfélög né nokkur annar aðili ætti að fara í fjárfestingu ef ekki stendur til að viðhalda henni.

Ef Reykjavíkurborg hefur ekki efni á að viðhalda eignum sínum ætti hún ekki að hafa efni á nýframkvæmdum á borð við leiktæki, hundagerði eða íþróttavelli. Að því ógleymdu að þessar nýframkvæmdir munu þurfa á viðhaldi að halda síðar meir, líkt og hundagerðið í Laugardal sem er eitt þeirra verkefna sem komst til framkvæmda fyrir tilstilli slíkra kosninga fyrir nokkrum árum. Nú í ár stóð íbúum Laugardals hins til boða að kjósa um hvort verja ætti fjármunum til viðhalds á þessu hundagerði. Verður íbúum í Laugardal svo gert að kjósa um það hvort að þeir vilji viðhalda þeim nýframkvæmdum sem þeir kusu að fara í þetta árið?

Betur heima setið?

Þegar þeir viðhaldskostir sem hægt var að kjósa um í Hverfinu mínu er lagðir saman kosta þeir yfir 300 milljónir samanborið við þær 450 milljónir sem gert er ráð fyrir að verja í verkefnið í heild. Ef öll fjárhæðin fer í nýframkvæmdir mun viðhaldið sitja á hakanum og eignir íbúa borgarinnar drabbast niður. Skortur á viðhaldi getur svo aftur leitt til þess að þegar loksins er farið í að lappa upp á þær, verður það miklu dýrara fyrir vikið..

Þeim framkvæmdum fylgir óhjákvæmileg viðhaldsþörf sem kostar fjármuni. Ef þessar fjárfestingar enda svo aftur inn í hverfakosningunni nokkrum árum síðar sem viðhaldskostir má velta því fyrir sér hvort betur sé heima setið en af stað farið með verkefnið.

Nauðsynlegt er að Reykjavíkurborg haldi við eignum sínum. Ef kjósa á um nýjar framkvæmdir þarf það að liggja ljóst fyrir að til standi að viðhalda þeim um ókomna tíð. Hvorki borgarbúar né borgin sjálf eiga að hafa um það val.

Tryggvi Másson

Ritstjórn

Tryggvi er viðskiptafræðingur sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands vorið 2016. Hann starfar sem sérfræðingur á Efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins. Tryggvi var hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 ásamt því að sitja í ráðinu og hefur áður setið í stjórn Vöku fls. Aðaláhugamál Tryggva eru félagsstörf, hagsmunabarátta og stjórnmál. Skrif hans í Rómi eru að mestu leyti tengd menntamálum og viðskipta- og efnahagsmálum.