Hver verða tryggingarfélög framtíðarinnar?

eftir Gylfi Þór Sigurðsson

Fljótlega eftir að ég hóf að starfa í tryggingageiranum fór ég að fylgjast með hvert hann væri að þróast og hvernig væntingar viðskiptavina væru að breytast. Í kjölfarið áttaði ég mig á því að gríðarlegar breytingar væru óumflýjanlegar í greininni á næstu árum og áratugum.

Mest áberandi breytingar sem vænta má er minni áhætta tryggingafélaganna. Iðgjöld trygginga byggjast á væntigildi félagsins á tjóni og er þess vegna beintengd þeirri áhættu sem felst í hverri tryggingu. Tryggingarfélög hafa tekið minnkandi áhættu fagnandi. Nærtækast er að benda þar á aðgengilegar heimilisvarnir á borð við reykskynjara, þjófavarnir, rakaskynjara, framþróun í læknavísindum og ekki síst sjálfkeyrandi bíla sem munu umbylta öryggi í umferðinni á næstu áratugum. Hratt minnkandi áhætta sem ýmsar tæknibreytingar leiða af sér munu óhjákvæmilega leiða til lækkunar á iðgjöldum og þar af leiðandi minnka rekstrarreikning tryggingarfélaganna.

Á sama tíma og á þessari þróun stendur vex krafa neytenda um að fá iðgjald í samræmi við þeirra persónulegu áhættu. Nútímaviðskiptavinur tryggingarfélaga vill borga í samræmi við áhættu sína og þar af leiðandi minnka alla samtryggingu kerfisins. Þess er því að vænta að tryggingarfélögin verði með hröðum tækniframförum betur í stakk búin að verða við þessari kröfu viðskiptavinarins. Þetta geta félögin gert með betri greiningartækjum á ýmsum sviðum. Hraðar tækniframfarir eru að eiga sér stað í gagnagreiningu sem auðveldar til muna að greina áhættusama viðskiptavini frá þeim áhættuminni og verðleggja tryggingar út frá því. Sömuleiðis munu tryggingaþegar framtíðarinnar geta skilað niðurstöðum úr margskonar mælitækjum sem mæla þeirra áhættu í rauntíma. Dæmi um þetta eru púlsmælar, ökuritar, staðsetningartæki og fleira.

Það er því afar áhugavert að velta því fyrir sér hver veruleiki tryggingafélaganna verður þegar þessir tveir þættir halda áfram að þróast. Maður gæti hugsað sér tvennskonar fólk. Annars vegar það fólk sem ekkert þarf að óttast og sem virðist geta lifað að eilífu? Þetta væri fólk sem tekur litla sem enga áhættu og þarf þess vegna varla á neinum tryggingum að halda. Hins vegar eru það þeir sem sem meðvitað taka einhverja áhættu á fjárhagslegu og líkamlegu tjóni. Hvernig tryggingar mun þetta fólk þurfa og hvaða tryggingar mun þessu fólki bjóðast?

Krafan um minnkandi samtryggingu og þær tækniframfarir sem hér hafa verið nefndar gera það að verkum að vænt tjón stefnir á sama gildi og hið raunverulega tjón. Iðgjaldið á tryggingum væri þess vegna orðið það sama og tjón félagsins af tryggingunni. Ef iðgjaldið á tryggingunni er það sama og tjón viðskiptavinarins í framtíðinni sér hann væntanlega enga þörf fyrir tryggingu heldur leggur peninginn fyrir þangað til tjónið verður.

Þegar öllu er á botninn hvolft má því velta því fyrir sér hvort hin óumflýjanlegu endalok tryggingarfélaga séu þau að gera sig óþörf. Mörgum finnst það kannski vera allt hitt besta mál. Verði raunin þessi, má halda því fram að metnaðarfullir starfsmenn tryggingarfélaganna vinni í raun að því að gera sjálfa sig atvinnulausa. Þrátt fyrir það hljóta þeir að fylgjast aðdáunaraugum með þróuninni í geiranum, líkt og undirritaður, enda framtíðin sjaldan verið jafn spennandi í hinum rótgróna heimi tryggingafélaganna.  

Gylfi Þór Sigurðsson

Pistlahöfundur

Gylfi Þór er hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands en starfar núna hjá tryggingarfélagi. Áhugamál hans eru félagsstörf, ferðalög og líkamsrækt.