Hver verndar náttúruna?

eftir Bergþór Bergsson

1. júní síðastliðinn sögðu Bandaríkin, með Donald Trump í fararbroddi, sig úr Parísarsamkomulaginu. Parísarsamkomulagið er alþjóðlegt samkomulag til þess að takmarka hnattræna hlýnun og því ljóst að fjarvera Bandaríkjanna, sem er annar stærsti mengunarvaldur í heiminum, er reiðarslag fyrir samkomulagið. Úrsögnin féll illa í kram annara þjóðarleiðtoga og hefur Trump mikið verið gagnrýndur fyrir þessa ákvörðun sína. Þetta kemur þó fáum á óvart enda hafa umhverfismál hafa verið mikið í brennidepli á síðustu árum, og gætir jafnan sammælis um að þau séu eitt mikilvægasta málefni 21. aldarinnar. Einn armur umhverfismála eru umhverfisglæpir, en þessari grein er ætlað að veita stutt yfirlit yfir sérstöðu þeirra og þau vandamál sem þá varðar.

Umhverfisglæpir eru samheiti yfir þau afbrot sem að lúta að umhverfinu. Undir það falla t.a.m. afbrot sem lúta að loftmengun, mengun vatns og náttúru, sem og ólögleg veiði og kaup og sala á dýrum án leyfa. Þetta er þó aðeins toppurinn á ísjakanum, fjöldi annara atriða falla þar einnig undir. Umhverfisglæpir eru ört stækkandi málaflokkur á heimsvísu, en Interpol hefur m.a. bent á að umhverfisglæpir séu fjórða stærsta tekjulind skipulagðrar glæpastarfsemi í heiminum. Þrátt fyrir það hafa umhverfisglæpir notið talsvert minni athygli stjórnvalda og almennings en hefðbundin afbrot. Refsilögum, líkt og almenn hegningarlög, er jafnan ætlað að ná yfir saknæma háttsemi einstaklinga en brotamenn umhverfisglæpa geta hins vegar geta verið á fjóra vegu; Smáglæpamenn, skipulögð glæpastarfsemi, fyrirtækjaglæpir og glæpir á vegum þjóðríkja.

Sérstaða umhverfisglæpa

Í fyrsta lagi hafa refsilög hafa í gegnum tíðina átt í erfiðleikum við að ná utan um afbrot fyrirtækja og þjóðríkja, enda eru þau jafnan einstaklingsmiðuð og hópur fórnarlamba er ekki fjölmennur. Þetta hefur reynst flókið þegar kemur að umhverfisglæpum. Í öðru lagi er sönnun í málum er varða umhverfisglæpi oft erfið. Það getur verið mjög flókið að tengja tiltekna háttsemi við refsiverðan atburð og neikvæðar afleiðingar af umhverfisspjöllum taka jafnan lengri tíma að koma í ljós en af annari refsiverðri háttsemi. Í þriðja lagi þá eru umhverfisglæpir jafnan ekki bundnir við landamæri og hefur færst mjög í aukana á síðustu áratugum að umhverfisglæpir séu alþjóðlegir.(2)

Það má rekja til þess annars vegar að vestrænar þjóðir í byrjun sjöunda áratugsins byrjuðu að banna tiltekna umhverfisspillandi háttsemi, sem gerði það að verkum að brotamennirnir færðu sig til annara landa sem ekki höfðu regluvætt samskonar háttsemi, líkt og losun úrgangs og annað slíkt og hins vegar hefur alþjóðavæðing aukið eftirspurn eftir vörum, líkt og fílabeinum og öðru sem ólölegt er að ganga kaupum og sölum.

Alþjóðlegir eiginleikar umhverfisglæpa varpa jafnframt ljósi á annað vandamál, en það er að ákveðin háttsemi kann að vera refsiverð í einu landi en refsilaus í öðru. Brotamenn hafa verið þekktir fyrir að nýta sér pólitískan óstöðugleika og ólíkt lagaumhverfi sér í vil, en losun spilliefna við strendur Sómalíu hefur t.a.m. verið mikið vandamál.(4)  Ísland hefur ekki farið varhluta af slíkri gagnrýni, og því hefur verið haldið fram að stjórnendur álvera á Íslandi væru lögbrjótar ef að þeir myndu viðhafa samskonar háttsemi í Noregi.

Í ljósi alls þessa hafa hefur þeirri staðreynd verið velt upp hvort refsilög nái hreinlega utan um umhverfisglæpi og hvort önnur úrræði væru einfaldlega æskilegri. Tölurnar tala jafnframt sínu máli, en líkurnar á saksókn í þessum málaflokki hafa jafnan verið litlar. Á árunum 200-2007 voru 25 þúsund tilvik um mengun kynnt í Bretlandi en ákært var einvörðungu í 5% tilfella. Samskonar sögu má segja um tíðni ákæra í Flæmingjalandi, einu sambandslanda Belgíu, en þar voru líkur á ákæru innan við 1% á árunum 1998-2008. Þetta má að nokkru leyti rekja til þess hve kostnaðarsöm málaferlin eru og hve erfitt er að sanna sök í þessum málum.(1)

Reyndin virðist því vera sú að umhverfislöggjöf sé víða um heim ófullkomin og fyrirtæki nýti sér það óspart, en jafnvel þó svo að fyrirtæki gerist brotleg við refsilög, þá séu líkur á saksókn almennt litlar. Varnaðaráhrif umhverfislagana eru því lítil og getur hagur fyrirtækja til að mynda í reynd verið að brjóta gegn lögunum í von um að nást ekki. Því hefur jafnframt verið haldið fram að fyrirtæki horfi á sektargreiðslur sem hluta af starfsemi sinni.(5)

Hvað er til ráða?

Í ljósi alls þessa hljóta menn að spyrja sig, hvað er til ráða? Sumir fræðimenn hafa bent á að heppilegt væri að hafa tvíþætt kerfi. Þar myndu smávægilegri brot á umhverfislöggjöf vera rekin samkvæmt stjórnsýslulögum en alvarlegri brot yrðu rekin samkvæmt refsilögum. Hins vegar, ef að fyrirtæki horfa á sektargreiðslur sem hluta af starfsemi sinni, þá myndi þetta tvíþætta kerfi mögulega ekki virka sem skildi. Önnur leið, sem að farin hefur verið í Ástralíu, á vegum sérdómstólsins “New South Wales Land and Environmental Court” er að nota svokallaðar réttvísibætur (e. reparative justice). Þessi aðferð svarar að nokkru leyti til uppbyggilegrar réttvísi (e. restorative justice), en munurinn er sá að það fer enginn eiginleg sáttamiðlun fram með réttvísibótum, heldur getur dómstóllinn dæmt fyrirtæki sem að hafa  gerst brotleg við umhverfislöggjöf til þess að laga þann skaða sem að þau hafa gert.

Meðal valdheimilda dómstólsins er að dæma brotlega fyrirtækið til að vekja athygli almennings á brotinu, svo sem með tilkynningu í dagblað og að koma í verk tilteknum verkefnum, til þess að bæta upp fyrir þann umhverfisskaða sem að fyrirtækið olli. Hugmyndin að baki þessu er að reyna að breyta háttsemi fyrirtæksins til frambúðar. 

Önnur leið sem að bent hefur verið á að hægt sé að nota, en liggur í reynd utan við lögin, er að beita félagslegum þrýstingi eða almenningsálitinu gegn fyrirtækjum til þess að fá þau til þess að framfylgja umhverfislögum. Ímynd fyrirtækja er þeim afar mikilvæg og því getur slíkur þrýstingur skipt talsverðu máli og jafnvel fengið fyrirtæki til þess að hætta við áform sem að eru umhverfisspillandi. Félagslegur þrýstingur getur t.d. birst í sniðgöngu á tiltekinni vöru eða vörum. Viðbrögð margra bandaríska stórfyrirtækja í kjölfar úrsagnar Bandaríkjana úr Parísarsamkomulaginu eru t.a.m. að ætla að vinna að markmiðum samkomulagsins hvort eð er. Því er ljóst að umhverfisímynd margra stórfyrirtækja skiptir þau talsverðu máli. Þetta myndi til að mynda ekki virka gagnvart smáglæpamönnum eða skipulagðri glæpastarfsemi.(3) Ljóst er að það er umdeilt hvaða aðferð virkar best til þess að taka á umhverfisglæpum og ætlar greinarhöfundur ekki að taka afstöðu til þeirra, enda var það ekki ætlunarverk þessa greinarkorns. Hins vegar er ljóst að umhverfisglæpir eru margþættir og flóknir og hafa reynst réttarkerfum erfiðir og því í mörg horn að líta.


Ritaðar heimildir:

(1) Faure, M., & Svatikova, K. (2012). Criminal or administrative law to protect the environment?. Journal of Environmental Law, 24(2), 253–286.

(2) Hall, M. (2014). The Roles and Use of Law in Green Criminology. International Journal for Crime, Justice and Social Democracy, 2(2), pp.96-109.

(3) Ruggiero, V. and South, N. (2013). Green Criminology and Crimes of the Economy: Theory, Research and Praxis. Critical Criminology, 21(3), pp.359-373.

(4) Spapens, T. and Huisman, W. (2016). Tackling Cross-Border Environmental Crime: A “Wicked” Problem. In: T. Spapens, R. White and W. Huisman, ed., Environmental Crime in Transnational Context: Global Issues in Green Enforcement and Criminology. Abingdon: Routledge, pp.27-42.

(5) White, R. (2016). Reparative justice, environmental crime and penalties for the powerful. Crime, Law and Social Change, 67(2), pp.117-132.

Bergþór Bergsson

Pistlahöfundur

Bergþór er laganemi við Kaupmannahafnarháskóla. Hann kemur frá Pétursey í Mýrdalshreppi og situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Sjálfstæðisflokksins. Bergþór er áhugamaður um sögu, íslenskt samfélag í tímans rás, tísku, tónlist, kvikmyndir og matargerð.